Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:19:58 (358)

1997-10-09 16:19:58# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:19]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst að hv. þm. kemur eina ferðina enn og segist vera á móti aflamarkskerfinu. Það vita nú orðið flestir, meira að segja þingmenn. Ég veit það alla vega. Þessi tillaga snýst ekki um það. Hún snýst um veiðileyfagjald í sjávarútvegi, hún snýst ekki um fiskveiðistjórnunarkerfið. Hins vegar get ég bent hv. þm. á að það er til arður í fiskveiðistjórnunarkerfinun alveg eins og sést á viðskiptum með veiðiheimildir. Þetta veit hann ósköp vel. Ég nefndi áðan að það séu margvíslegir hlutir sem menn geta skoðað í fiskveiðistjórnunarkerfinu og ég nefndi þingmál okkar jafnaðarmanna og ég hef sjálfur átt hlut að þeim mörgum.

Ég legg enn og aftur áherslu á það að ef þingmaðurinn væri nú reiðubúinn til þess að fylgja þessari hugmyndafræði um veiðileyfagjald, hætta ókeypis úthlutun og taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi væri fyrst búið að opna möguleikann fyrir því að reyna að fá vitrænni umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið, stýrikerfið en blanda þessu ekki enn og aftur saman eins og hv. þm. gerir í sífellu.