Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:21:17 (359)

1997-10-09 16:21:17# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:21]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess að þetta kerfi hefur alls engum árangri skilað, og enginn virðisauki hefur orðið í bolfiskveiðunum allan þann tíma sem menn hafa verið að reyna að brölta með þetta, allan þann tíma sem menn hafa verið að reyna að halda kerfinu saman, er aldeilils voðalegt að leggja núna til að við skulum koma með auðlindaskatt ofan á bolfiskveiðarnar þar sem við höfum ekki náð neinum árangri.

Hagfræðin í stjórnun fiskveiðanna, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson veit ósköp vel, er fólgin í því að við með stjórnun fiskveiðanna ætlum að ná umframarði, viðbótararði og það er spurningin um ef einhver viðbótararður næst getum við kannski skattlagt hann, kannski, kannski ekki. Það getur verið spurning um það hvort þetta er skynsamlegt eða ekki. Við skulum segja að það sé skynsamlegt en við getum ekki skattlagt arð nema búa til kerfi sem býr til arð. Sú villa liggur í þessum flutningi.