Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:25:22 (362)

1997-10-09 16:25:22# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:25]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég virði það við hv. þm. Stefán Guðmundsson að hann skuli koma hér upp í lok umræðunnar í andsvari og tjá sig aðeins um þetta mál. Hann segir ekkert nýtt hafa komið fram. Það er mat hans og ekkert við því að segja. Hann nefndi hins vegar að kannski það eina sem við höfum lagt fram á síðasta ári hefði verið að leggja fram tillögur um 17 milljarða kr. skatta á sjávarútveginn. Ég tel rétt að skýra það. Við höfum lagt til að lagt sé á veiðileyfagjald. Við höfum tekið fram í umræðunni núna að við teljum rétt að það verði um það bil 2 milljarðar í upphafi og tekur þá mið af þeim fiskveiðiarði sem nú er til staðar, er einhvers staðar á bilinu 3--5 milljarðar. Við bendum á að fiskveiðiarður gæti að mati vísindamanna orðið 15--30 milljarðar og við höfum sagt sem svo: Ef það næðist í kjörstöðu að taka helminginn af þeim hámarksarði út úr greininni væri hægt að leggja niður þann hluta tekjuskatts sem rennur til ríkisins sem var 17 milljarðar á því tímabili. Þannig er talan 17 milljarðar fengin miðað við þá kjörstöðu að fiskstofnar eru komnir í æskilegasta ástand. Sókn hefur minnkað og arðsemi meiri en nú er. Hún er reyndar í sumum greinum sjávarútvegsins búin að ná kjörstöðu, t.d. í uppsjávarveiðunum eins og hér hefur komið fram. Enn þá er langt frá því í sambandi við botnfiskveiðarnar, m.a. vegna ástands þorskstofnsins en það er ekki fráleitt, herra forseti, að hægt sé að gera þetta með þessum hætti. Þessar tölur eru nefnilega ekki út í loftið. Það tekur tíma en þetta byggist á því að við erum hér með mjög verðmæta auðlind í höndunum sem við erum að byggja hægt og rólega upp. Við verðum hins vegar að sýna skilning og skynsemi að nýta á hagkvæman hátt. Þá er hægt að draga út úr greininni þessa fjárhæð og hún verður sterkari eftir en áður.