Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:28:52 (364)

1997-10-09 16:28:52# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:28]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég í nokkrum vanda því að andsvarið beindist ekki gegn mér heldur gegn þeim tveimur ágætu þingmönnum Sjálfstfl. á Vestfjörðum. Þó svo ég gæti alveg tekið til varnar fyrir þá og þeir ættu það nú skilið, er dálítið erfitt að setja mig í þá stöðu. Það hefði verið betur ef hv. þm. hefði komið fram með umræðuna og þær ábendingar fyrr í umræðunni. (StG: Henni er ekki lokið.) Henni er ekki lokið, það er alveg rétt, en ég ætla ekki að blanda mér í það. En ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég reyndi að útskýra nákvæmlega hvernig talan 17 milljarðar varð til og hverju við stefndum að og þetta gæti orðið í fyllingu tímans. Síðan kemur hv. þm. bara aftur upp og endurtekur það sama. Alþýðuflokksmenn lögðu til 17 milljarða kr. skattlagningu á sjávarútveginn í fyrra. Hann hlustaði greinilega ekkert á það sem ég var að segja og ég hef ekki tíma til að fara yfir það aftur en ég vil biðja hann samt um að reyna að virða það þegar ég er að lýsa réttri atburðarás að endurtaka þá ekki hina villandi framsetningu sem hann gerði.

(Forseti (GÁ): Forseti vill að gefnu tilefni minna á 56. gr. þingskapanna. Þar segir: ,,Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki öðru andsvari.``)