Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:36:22 (394)

1997-10-13 15:36:22# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:36]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fjarkennslu til að jafna aðstöðu til náms. Meðflutningsmenn mínir eru aðrir þingmenn þingflokks jafnaðarmanna. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem geri tillögur um hvernig nýta megi fjarkennslu á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi til að jafna aðstöðu til náms.

Nefndin taki mið af þeirri reynslu sem fengist hefur af fjarkennslu hérlendis og þeirri þekkingu sem fyrir liggur í öðrum löndum á fjarnámi og móti tillögur sínar m.a. á þeim grundvelli.

Nefndin verði skipuð fagfólki á sviði menntamála með reynslu af fjarkennslu.

Nefndin skili tillögum sínum fyrir skólaárið 1998--1999.``

Í ágætu riti sem menntmrn. gaf út og heitir Í krafti upplýsinga segir í upphafi kaflans Menntamál, með leyfi forseta:

,,Menntastofnanir hafa það veigamikla hlutverk að búa nemendur undir líf og starf í þjóðfélagi framtíðar. Stórstígar framfarir á sviði upplýsinga og fjarskiptatækni hafa víðtæk áhrif á störf og daglegt líf fólks. Samfélagið sem bíður þeirra nemenda sem nú stíga sín fyrstu skref í menntakerfinu verður í veigamiklum þáttum frábrugðið því sem við nú þekkjum. Þess vegna er mikilvægt að staldra við, skoða hvernig hin nýja tækni getur nýst sem verkfæri til að bæta nám og kennslu og hvaða þekkingu og færni nemendur þurfa að hafa á þessu sviði að námi loknu. Með því að móta og framfylgja upplýsingastefnu á sviði menntamála er því ekki aðeins verið að bregðast við orðnum hlut heldur stuðla að mótun þess framtíðarsamfélags sem við kjósum að búa í. Hvarvetna sem upplýsingasamfélagið og þær breytingar sem nú eru að verða á samfélögum eru til umræðu eru menn á einu máli um að menntun sé sá grundvöllur sem öll þróun byggir á. Án víðtæks stuðnings og uppbyggingar í menntakerfinu stendur upplýsingasamfélagið á brauðfótum.``

Það er rétt sem þarna er sagt að menntun og þekking eru þau vopn sem líklegust eru til að koma að haldi í lífsbaráttu næstu ára og á nýrri öld. Flestir foreldrar vilja nesta börn sín vel út í lífið, vilja að þau eigi möguleika á góðri atvinnu og góðum lífskjörum. Það ræður því eðlilega miklu um búsetuval fólks að börnin hafi möguleika á að njóta góðrar kennslu og menntunar á grunn- og framhaldsskólastigi. Þar sem ekki eru möguleikar til framhaldsskólanáms og elstu bekkir grunnskóla eru e.t.v. ekki starfræktir reglulega vegna mannfæðar, er ekki óalgengt að fjölskyldur hugsi sér til búferlaflutninga þegar að börnin komast á unglingsár. Bæði er það til að halda fjölskyldunni lengur saman og vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir því að senda unglinginn að heiman eða halda tvö heimili. Fjarkennsla byggir á því að valda sem minnstri röskun á högum í persónulegu umhverfi eða allt eins að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu þess. Skipulag menntamála er því afar mikilvægt byggðamál.

Þá kalla breytingar í atvinnulífinu á endurmenntun og símenntun ýmiss konar sem fólk og fyrirtæki vilja og þurfa að eiga aðgang að. Það var, herra forseti, á vorönn árið 1994 að fjarkennsla var hafin við Verkmenntaskólann á Akureyri. 15 nemendur hófu þá nám í ensku og kennarar unnu kauplaust að þessari tilraun sem tókst svo vel að nú stunda vel á þriðja hundrað nemendur nám í fjarnámsdeild skólans. Yfir 75 áfangar eru kenndir í yfir 30 greinum. Kennarar við deildina eru nú yfir 40 og margir þeirra að aðalstarfi kennarar við aðra skóla en Verkmenntaskólann. Nemendum innan lands hefur ekki bara fjölgað heldur hefur líka fjölgað erlendis og eru nemendur nú í þremur heimsálfum. Úttekt sem gerð var á kennslunni fyrir menntmrn. eftir haustönn 1996 leiddi í ljós að gæðin voru í lagi, en sífellt aukin aðsókn er þó besti mælikvarðinn. Nemendur um allt land og miðin ásamt þeim sem búsettir eru erlendis kunna vel að meta þessa skólagerð.

Sama má segja um aðra kennslu sem boðið hefur verið upp á með tölvusamskiptum. Kennaraháskólinn hefur t.d. boðið upp á fjarnám um árabil, bæði við endurmenntun og í kennaranámi. Fósturskóli Íslands hefur haft svipaðan hátt á. Báðir skólar gera þó ráð fyrir því að nemendur séu við nám í skólanum sjálfum að hluta.

En grunnskólinn hefur einnig átt hér hlut að máli. Nemandi á Bakkafirði las 10. bekk og tók samræmd próf vorið 1996 við Gagnfræðaskólann á Akureyri, skóla sem nú heitir Brekkuskóli. Sá skóli hefur haldið áfram að þróa fjarkennslu og fjarkennir nú um tug nemenda erlendis. Það eru nemendur sem áður stunduðu nám við skólann en hafa farið til lengri eða skemmri dvalar erlendis með foreldrum sínum og geta með fjarnámi viðhaldi þekkingu sinni, t.d. í íslensku eða öðrum þeim greinum sem eftir atvikum er talið rétt að lesnar séu undir umsjón íslensks kennara.

En hvert viljum við stefna með fjarkennsluna? Það er mikill áhugi á því meðal landsbyggðarfólks, ekki síst á þeim stöðum þar sem ekki er boðið upp á framhaldsnám, að fjarkennsla verði nýtt með skipulegum hætti til að nemendur geti verið lengur í foreldrahúsum og að skipulag skólamála valdi ekki röskun á högum fjölskyldunnar.

Eins og ég sagði áðan er dýrt að þurfa að senda unglinga að heiman í framhaldsskóla og foreldrar vilja líka gjarnan geta haft lengur hönd í bagga með uppeldi barna sinna. Það væri því líka brýn nauðsyn að skoða hvernig fjarkennsla getur bætt við þar sem ekki er talið unnt að starfrækja efstu bekki grunnskóla, annaðhvort sakir nemendafæðar eða skorts á sérhæfðum kennurum. Þannig væri t.d. hægt að auka fagmennsku í efstu bekkjum grunnskólans og jafna þannig aðstöðu nemenda hvað það varðar.

Þá þyrfti einnig að kanna skipulega möguleika á fjarkennslu við þá framhaldsskóla eða einstök námssvið í dreifbýlinu þar sem ekki er kostur á sérmenntuðum kennurum í einstaka greinum. Þannig mætti styrkja námið og auka fjölbreytni í námsframboði. Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri hefur þegar þjónað ýmsum skólum í þessu efni. Nemendur hafa getað tekið einstaka áfanga í fjarnámi, áfanga sem af einhverjum ástæðum hafa ekki verið kenndir við viðkomandi skóla.

En fjarnám getur líka verið góður kostur fyrir þá sem hafa verið við framhaldsnám en aldrei lokið námi eða útskrifast og einnig þá sem ekki áttu þess kost á sinni tíð að fara í framhaldsskóla. Margir af nemendum í fjarkennslu Verkmenntaskólans koma af svæðum þar sem fjölbreytt námstækifæri eru, t.d. í kvöldskólum, en kjósa frekar þessa leið. Fjarnám virðist vera aðgengileg leið fyrir marga sem ekki geta nýtt sér reglubundið nám, svo sem vegna fjölskylduábyrgðar, vinnutíma eða annars. Nám þessarar gerðar getur skapað slíku fólki nýtt tækifæri.

Þá hefur verið á það bent vegna áhuga á háskólastarfsemi eða menntasetrum á Austurlandi og Vestfjörðum að vel má hugsa sér að slík menntasetur tengist þeim háskólum sem fyrir eru, bæði á Akureyri og í Reykjavík, og einnig háskólum erlendis eftir því á hvað menn vilja leggja áherslu en kostirnir eru nánast ótæmandi. Sjómenn hafa einnig nýtt sér möguleika fjarnámsins. Ein skipshöfn hefur komið sér upp móttökubúnaði um borð og notið þannig fjarkennslu. Slíkur búnaður hlýtur að verða framtíðarbúnaður um borð í þeim skipum sem hafa langa útivist. Aðrir hafa tekið efnið með sér um borð á diskettum.

[15:45]

Styrkveitingar nú í haust úr Þróunarsjóði framhaldsskóla sýnast mér að fari að stærstum hluta til uppbyggingar og þróunar fullorðinsfræðslumiðstöðva eða til verkefna þar sem fjarkennsla mun eiga stóran hlut að máli enda eru möguleikar til að nýta fjarkennslu við endur- og símenntun og fullorðinsfræðslu nær ótæmandi. En þeir nýtast ekki sem skyldi ef ekki er tekið skipulega á þeim, stefna mörkuð og samstarfsaðilar fundnir, möguleikar og framboð kynnt. Eða eins og segir í því ágæta riti sem ég vitnaði í áðan, Í krafti upplýsinga, með leyfi forseta:

,,Marka þarf opinbera stefnu um notkun upplýsingatækni í símenntun. Stefnuna þarf að móta í náinni samvinnu við þá sem starfa á þessu sviði.``

Það sama á við um þjónustu við þann fjölda barna sem býr erlendis um lengri eða skemmri tíma vegna náms eða starfa foreldra. Það væri vissulega gagnlegt ef sú nefnd sem samkvæmt þessari tillögu ætti að setja á laggirnar skoðaði þá möguleika einnig.

Það má segja, herra forseti, að í tvennu tilliti sé fjarnám skóli landsbyggðarinnar. Tölvusamskipti skóla á Íslandi þróuðust og urðu fyrst að veruleika í dreifbýlinu fyrir frumkvæði Péturs Þorsteinssonar, þá skólastjóra grunnskólans á Kópaskeri. Úr varð Íslenska menntanetið. Fjarkennslan hefur einnig þróast ört hjá skólum úti á landi og í þjónustu við fólk á landsbyggðinni. Það er ekki tilviljun heldur undirstrikar það hve mikilvæg sú tækni er fyrir dreifbýlið sem gerir tölvusamskipti möguleg. Með markvissri notkun þeirrar tækni má jafna og bæta möguleika fólksins í landinu, bæði til menntunar og menningar. Ljóst er að tækninni fleygir fram og sífellt fleiri búa við þá aðstöðu að geta nýtt sér fjarkennslu.

Í samanburði á skólastarfi innan OECD-ríkjanna koma Íslendingar illa út og hefur það verið rætt sérstaklega hér fyrr í dag. Það er sama hvað borið er saman, fjármagn til málaflokksins, lengd skóladags eða skólaárs, laun kennara og að víða eru skólar tvísetnir. Við þurfum að setja miklu meiri peninga í okkar skólakerfi á næstu árum, bæði hefðbundið nám, í háskólastarf og rannsóknir, í endur- og símenntun og í þróun og nýtingu fjarkennslu og upplýsingatækni. Þetta verðum við að gera til að nýta mannauðinn til hagvaxtar og aukinnar velmegunar í okkar samfélagi. Við, svo fámenn þjóð í stóru landi, þurfum og verðum að gera ýmislegt öðruvísi en þær þjóðir sem fjölmennari eru og búa við meira þéttbýli. Þess vegna er sú tækni sem gerir tölvusamskipti möguleg miklu mikilvægari fyrir okkur en marga aðra þegar horft er til upplýsinga- og menntunarmöguleika. Þess vegna er framtíðarþróun þessara mála hér á landi svo mikilvæg. Í riti menntmrn., Í krafti upplýsinga, er sett fram það markmið og hér kemur tilvitnun, herra forseti:

,,Kostir fjarkennslu verði nýttir markvisst til að jafna aðstöðu til náms jafnt innan lands sem erlendis frá``. Þar segir enn fremur: ,,Kostir upplýsingatækni verði að fullu nýttir til að efla hvers konar símenntun.``

Ég nefndi áðan, herra forseti, Þróunarsjóð framhaldsskólanna og þær áherslur sem þar eru lagðar. Ég hef í ræðu minni rakið ýmis dæmi um það sem verið er að gera á þessu sviði. En orð eru til alls fyrst og þá reynslu sem þegar er komin af fjarkennslu þarf að taka saman og fella í tillögur að aðgerðum svo þeir möguleikar sem fyrir hendi eru verði nýttir skipulega. Ég verð þess vör hjá fólki víða um land sem ég hef talað við um skólamál að menn hafa mjög mikinn áhuga fyrir þessum möguleikum en vita ekki nákvæmlega hvernig þeir eiga að snúa sér eða hvert og þess vegna held ég að það sé mjög nauðsynlegt að vegurinn sé sýndur, að yfirvöld vísi þennan veg á einhvern hátt þannig að við getum nýtt þá miklu möguleika sem hér eru. Ég tel að nú þegar höfum við það víðtæka reynslu og að við getum einnig litið til reynslu nágrannaþjóðanna, að okkur sé í rauninni fátt að vanbúnaði að fara að horfa á þessi mál sem gildan alvöruþátt í okkar menntamálum.