Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:23:58 (404)

1997-10-13 16:23:58# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ef menn eru í skipulögðu fjarnámi held ég að þeir þurfi ekki að vafra mjög mikið um vefinn. Þeir hafa aðgang að tilteknum gagnagrunni og þeir fá verkefni sem þeim er svarað með að skila þeim til baka. Auðvitað kostar það talsvert ef menn eyða löngum stundum í að skoða veraldarvefinn. Menn gætu auðvitað verið að því sólarhringum saman og sumir gera það. Væntanlega fylgir því gríðarlegur kostnaður.

Ég er líka sammála hv. þm. um að kostnaðurinn við þetta í dag er of hár og þau fyrirtæki sem bjóða þessa þjónustu munu áreiðanlega lækka sig þegar samkeppnin harðnar og hún mun harðna. Ég tel að það sem hv. þm. er að reifa sé rangt. Ég er á móti því að þetta sé niðurgreitt og ég spyr hv. þm.: Telur hann þá ekki að það ætti allt eins að niðurgreiða tölvurnar sem nemendur í fjarnámi þurfa að kaupa fyrir kannski hátt á annað hundrað þúsund kr. og kannski enn meira ef allt er með talið til þess að geta stundað sitt nám sómasamlega? Ætli það sé ekki langstærsti kostnaðurinn sem menn þurfa að standa straum af þegar í fjarnám kemur? Er einhver munur á því að greiða niður tölvu eða greiða niður internetþjónustuna? Ég er reyndar á móti hvoru tveggja en mig langar að fá viðhorf hv. þm. til þess.