Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:25:17 (405)

1997-10-13 16:25:17# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:25]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki skal ég fjalla um kostnaðinn frekar en ég hef gert hér enda hefur svo sem engin rannsókn farið fram eins og ég greindi frá áðan. Ég ítreka það sem ég nefndi að ég tel eðlilegt að nefndin, sú sem hér er til umræðu verði hún skipuð, skoði þá leið varðandi niðurgreiðslur, skoði hvort það standist samkeppnislög á meðan Póstur og sími einn annast þessi samskipti vegna þess að hann er í eigu ríkisins.

Hvað varðar tölvukaupin sjálf er það hárrétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að líklega er stærsti beini útlagði kostnaðurinn. Það er að koma sér upp tölvum og tölvubúnaði og mér finnst koma fyllilega til greina að styrkur ríkisins sé með þeim hætti að fella niður aðflutningsgjöld og stuðla að því að tölvur verði ódýrari, fella niður virðisaukaskatt og annað því um líkt, þau opinberu gjöld sem leggjast hugsanlega á tölvur til þess að lækka kostnaðinn. En eins og ég nefndi áðan tel ég að þó að ríkissjóður kunni að verða af einhverjum tekjum, þá fái ríkið tekjurnar til baka þó að síðar verði því að fyrirtæki og einstaklingar eflist á þessu sviði en það sem þó e.t.v. skiptir mestu máli er að menntastig þjóðarinnar ætti að hækka.