Fjarkennsla

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 16:35:19 (407)

1997-10-13 16:35:19# 122. lþ. 7.4 fundur 9. mál: #A fjarkennsla# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[16:35]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það fer ekkert á milli mála að málið sem hér er til umræðu er eitt af því þýðingarmesta varðandi uppbyggingu menntamála í landinu. Þessi mál hafa auðvitað verið rædd áður á Alþingi og ég vil minna á að hæstv. menntmrh. svaraði fyrirspurn frá mér um þessi efni hinn 21. febrúar 1996, þar sem sérstaklega var leitað eftir því hvaða skólar á háskólastigi byðu upp á fjarkennslu af einhverju tagi. Ástæðan fyrir því að ég vakti máls á þessu þá var sú að fjölmargir íbúar á landsbyggðinni höfðu haft samband við mig og kvartað undan því að mjög erfitt væri að nýta sér fjarkennslu á háskólastigi vegna þess að skólar á háskólastigi almennt byðu ekki upp á slíka menntun.

Það kom mér hálfvegis á óvart þegar ég fór að skoða þetta á árinu 1996 hversu háskólastigið hafði tekið seint og illa við sér. Það kom fram í máli hæstv. menntmrh. þá að það væri fyrst og fremst og raunar eingöngu Kennaraháskólinn sem á þeim tíma hefði tekið við sér og farið að bjóða fjarnám. Engu að síður, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra og reyndar fleiri, þá hefur þróunin síðan verið mjög hröð. Skólakerfið hefur verið að taka við sér með undraverðum hraða og ég held þess vegna, virðulegi forseti, að við séum á margan hátt til fyrirmyndar hér á landi á þessu sviði eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich nefndi áðan.

Það er engin spurning um að mjög mikil þörf er á fjarnámi af hvaða tagi sem er. Það er vegna þess að hlutir eru að breytast mjög fljótt og hratt í okkar þjóðfélagi. Krafan um endurmenntun verður sífellt meiri og fólk sem býr við þær aðstæður að geta ekki sótt sér nám með beinum og hefðbundnum hætti eins og við þekkjum, sækist þess vegna mjög eftir því að reyna að nýta sér þessar fjarskiptaleiðir nútímans sem alnetið og fjarnámið eru.

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að ég geti ekki tekið undir það með flutningsmönnum þessarar þáltill. að aðferðin í þessum efnum sé að setja niður nefnd sem gerir tillögur um hvernig nýta megi fjarkennslu á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi vegna þess einfaldlega að eins og fram hefur komið, þá eru þessi mál í mjög mikilli deiglu og það er verið að vinna að þeim. Ég óttast að nefndarskipun af þessu taginu væri kannski ekki mikið meira en endurtekning á þeirri vinnu sem fram fór á síðasta ári af hálfu menntmrn. og birtist í gagnmerku riti, Í krafti upplýsinga, sem voru tillögur menntmrn. um menntun, menningu og upplýsingatækni. Og ef við skoðum sérstaklega það sem þar er sagt á sviði kennslumála, þá sýnist mér að í veigamiklum atriðum sé tekið á þeim efnisþáttum sem þessi tillaga felur í sér þannig að mér finnst einhvern veginn, virðulegi forseti, að hér sé verið að leggja til einhvers konar endurtekningu eða kannski endurmat á þeim tillögum sem tiltölulega nýlega eru komnar fram. Ég efast þess vegna um að þetta sé aðferðin við það að vinna því máli brautargengi sem hv. tillöguflytjendur eru vissulega að gera með frumkvæði sínu og áhuga.

Ég held hins vegar almennt, ef við ræðum um þessi fjarkennslumál og möguleikana á því að stunda fjarkennslu með þeirri upplýsinga- og fjarskiptatækni sem við höfum til staðar, að þá séu þeir möguleikar mjög miklir og þetta sé hlutur sem við þurfum áfram að reyna að sinna og af auknum krafti.

Ég nefndi sérstaklega áður endurmenntunina. Við sjáum þann gríðarlega áhuga sem er á þessu sviði vítt og breitt um landið. Við sjáum þetta gerast til að mynda í þeirri sprengingu sem nánast er orðin í aðsókn fólks að endurmenntunardeild Háskóla Íslands. Sjálfur sit ég núna námskeið þar sem 500 manns eru að kynna sér efni Njálu, sem mér finnst segja heilmikla sögu um íslensku þjóðarsálina. Hins vegar er það augljóst mál að á fjölmörgum öðrum sviðum þarf líka að nýta sér gildi fjarnámsins og það erum við að gera, til að mynda með þeirri tölvukennslu sem víða fer fram út um landið.

Hitt er líka mjög þýðingarmikið og það er að vitaskuld er hægt að nýta sér kosti fjarnámsins og nútímafjarskipta við annars konar menntun og kennslu í landinu. Þetta á ekki síst við í hinum minni skólum, bæði á framhaldsskóla- og grunnskólastiginu. Nú þekkjum við það að sums staðar í hinum minni sveitarfélögum hefur ekki verið unnt að bjóða upp á til að mynda kennslu fyrir 10. bekk vegna fámennis og þarna held ég að sé kannski kjörinn samstarfsvettvangur fyrir hina fámennari skóla, að efna sameiginlega til kennslu á þessum sviðum. Mér dettur líka í hug að víða út um landið er mjög erfitt, eins og allir þekkja, að ráða raungreinakennara til starfa, sérstaklega m.a. vegna þess að litlu skólarnir geta í rauninni boðið upp á frekar fáa tíma á raungreinasviðinu. Ég hef rætt þessi mál við skólastjóra og kennara úti um landið sem hafa m.a. bendt á að þarna gætu falist möguleikar fyrir fjarnámið, þ.e. að litlir skólar tækju sig saman og væru sameiginlega með raungreinakennslu til að mynda í 10. bekk sem gæti þess vegna verið skýrt frá einum hinna litlu skóla sem sinnti, mætti segja, raungreinanáminu eða byði fram námsefnið í raungreinanáminu í marga skóla í senn. Þetta held ég að sé mjög athyglisverð hugmynd sem líka væri hægt að þróa þannig að kennarar, án þess að starfa innan vébanda hins formlega skólastarfs, tækju sig saman og útbyggju slíkt námsefni, að sjálfsögðu á grundvelli samþykktrar námskrár og opnuðu þannig möguleika á því að börn og unglingar gætu sótt nám heiman frá sér án þess að þurfa að yfirgefa heimahagana en nýttu sér kosti fjarnámsins.

Nákvæmlega það sama á við um framhaldsskólann. Nú þekkjum við að veikleiki litlu framhaldsskólanna margra eins og Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði og Framhaldsskólans á Laugum svo ég taki bara tvö dæmi af hreinni hendingu, hefur oft verið sá að þeir hafa ekki getað boðið upp á nægilega fjölbreytilegt námsefni og við þekkjum það að krakkar eru að sækja eins og eðlilegt er, eins og við gerum öll, eftir fjölbreytni og mjög miklir möguleikar eru á því að auka hana með fjarnáminu.

Þetta enn fremur, virðulegi forseti, þarf auðvitað að tengja þeirri uppbyggingu bókasafnskerfisins í landinu sem ég held að hafi verið lagður grunnurinn að með samþykkt laga um almenningsbókasöfn á liðnu ári þar sem innsiglaður var sá ásetningur hæstv. menntmrh. að gera bókasöfnin í landinu að einhvers konar setrum eða miðstöðvum fræðsluefnis af þessu taginu þar sem sérstaklega væri hægt að nýta sér kosti fjarkennslu og fjarnáms og gera þau að miðstöðvum þar sem fólk gæti sótt sér þekkingu, ekki bara í gegnum bækurnar heldur líka á þennan nútímalega hátt.

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að hér sé um að ræða hluti sem sífellt eru að opna okkur nýjar leiðir. Ég held að almenn stefnumótunarvinna mundi ekki koma að mjög miklu gagni fyrir þetta mál en auðvitað er það sjálfsagður hlutur að menn endurmeti þessa þætti á hverjum tíma eftir því sem tilefni gefst til.