Landafundir Íslendinga

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 18:03:56 (418)

1997-10-13 18:03:56# 122. lþ. 7.6 fundur 12. mál: #A landafundir Íslendinga# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:03]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tek eftir því að það er bersýnilega ýmislegt sem þeir þingmenn Vestlendinga sem hér eru staddir vita ekki um afrek forfeðra sinna. Og það er eitt í viðbót sem ég vildi gjarnan reifa hérna. Ég tel að það ætti að nota þessi tímamót sem eru núna við næstu aldamót m.a. til þess að rannsaka betur sögu landafundanna. Ég á við það að við höfum deilt öldum saman um það hver fann Ameríku fyrstur. Var það t.d. Kólumbus eða voru það þessir fyrstu Íslendingar? Ég vek athygli á því að í gömlum annál eftir Gísla Oddsson, sem var sterkasti biskup Íslandssögunnar og dó fyrir kór Þingvallakirkju árið 1638, talar hann beinlínis um Ameríku, notar það nafn. Menn hafa ekki tekið eftir þessu. Ég held því fram, herra forseti, að vitneskjan sem lifði á Íslandi um þessa landafundi hafi verið grundvöllurinn að ferðalagi Kólumbusar og fyrir því færi ég eftirfarandi rök: Það var alveg klárt að þekkingin á þessum landafundum lifði á Íslandi allar götur frá því að þeir fóru fyrst til Grænlands og yfir til Vínlands. Það eru sögur um það og góðar heimildir í annálum um að skip hafi hrakið hingað frá Grænlandi, geirnegld úr trjáviði sem þeir Grænlendingarnir fengu á Marklandi. Það eru líka sagnir um siglingar lengi vel frá Íslandi til Grænlands, reglulegar siglingar, og má vera að eitthvað af þeim rostungstönnum og hvítabjarnarfeldum sem Grænlendingarnir notuðu sem verslunarvöru í vöruskiptum við Evrópu hafi komið í gegnum Ísland.

Þegar norska kirkjan hafði áhyggjur af því að menn væru að stökkva frá trúnni á Grænlandi þá sendi hún mann til Grænlands. Það var Ívar Bárðarson og hann kom í Eystribyggð árið 1262. Þar var engan mann lengur að finna en sauðfé á stöðli og geitur og búfénaður í þeim mæli að þeir fönguðu þessi dýr og slátruðu þeim og sigldu síðan í Vestribyggð með skip sitt fullt af kjöti. Það eru sögur um það þegar Ögmund Pálsson, sem mig minnir að hafi verið einn af síðustu biskupum kaþólskunnar, hrakti suður undir Vestribyggð í Grænlandi, þá sá hann þar fólk og sauðfénað. En þá fékk hann mjög góðan byr og hann tók Vestfirði hálfum sólarhring síðar þannig að hann tók ekki land en sá fólkið þarna.

Einn ef mestu sjóreyfurum okkar, Diðrik Píning hirðstjóri, sigldi yfir til Grænlands og ég held að það hafi verið hann sem greindi frá því að þar fundu þeir mann í evrópskum klæðum og með járnhníf sem var að vísu mjög eyddur af því þá skorti járn.

Fornleifarannsóknir hafa líka sýnt fram á að lík sem menn hafa verið að finna í gröfum eru í klæðnaði sem samrýmist samtímatísku í Evrópu á 14. öld. Með öðrum orðum, það er alveg ljóst að þarna hafa verið siglingar á milli.

Konungurinn í Portúgal hafði mikinn áhuga á því að finna ný lönd og þeir urðu miklir landkönnuðir, Portúgalar. Þeir sendu mann til Bristol þaðan sem menn voru að gera út til Íslands. Fiskimennirnir frá Bristol höfðu oft vetursetu hérna á Snæfellsnesi og þeir heyrðu að öllum líkindum þessar sögur. Alla vega kom hingað einhvern tímann á 15. öld portúgalskur hefðarmaður sem hafði hérna nokkra viðdvöl og þjóðsögur eru um og hefur stundum verið ruglað saman við Kólumbus, en það var ekki hann. Þetta var Corte Real sem síðar varð mikill landkönnuður og hann fór að öllum líkindum með Diðrik Píning yfir til Grænlands. Hvort hann fór lengra er ekki hægt að segja. En þegar hann fór aftur til baka og greindi frá þessu við portúgölsku hirðina þá hafa menn mjög nákvæmar frásagnir af því vegna þess að á þeim fundi voru líka sendiherrar evrópskra ríkja sem sögðu frá því hvað þessi maður var að segja frá. En við portúgölsku hirðina á þeim tíma, eða í Lissabon sem þá var 2.000 manna þorp, var líka maður að nafni Kristófer Kólumbus sem einhverra hluta vegna þurfti að flýja Lissabon að næturlagi og skildi eftir fjölskyldu sína. Hvers vegna? Getum er leitt að því að það hafi verið vegna þess að þeir komust á snoðir um að hann ætlaði einfaldlega að stela þessari hugmynd.

Í ævisögu Kristófers Kólumbusar sem sonur hans skrifaði er greint frá því að hann hafi siglt langt norður í haf í febrúar og þar hafi verið auður sjór en gríðarlega háar öldur og hann hafi síðan siglt frá landinu sem hann kom til 100 vikur sjávar til vesturs og séð þar nýtt land. Hann tók ekki land þar en fór til baka. Ég held að þetta skjóti stoðum undir þá kenningu að Kristófer Kólumbus hafði pata af þessu landi í gegnum þá þekkingu sem hann aflaði sér í Bristol. Hann hafði heyrt þessar sagnir við portúgölsku hirðina og þess vegna vissi hann af landinu þarna. Þótt hann sigldi síðan allt aðra leið þá held ég því fram, herra forseti, að sú staðreynd að Kristófer Kólumbus vissi að þarna var land, byggðist alfarið á þeirri vitneskju sem lifði frá þessum fyrstu landafundum Íslendinga. Ég sé að hv. þm. Árni M. Mathiesen brosir, en þetta er heilög sannfæring mín og ég er alveg sannfærður um að það væri hægt, ef menn færu í frekari rannsóknir, að kanna þetta frekar.

Í páfagarði liggja enn ónumin lönd í formi skjalasafna sem menn hafa ekki lesið og ég er viss um að menn eiga eftir með skipulagðri leit að færa sönnur á að Kristófer Kólumbus hafði alla möguleika til þess að vita af þessari þekkingu. Ég segi þess vegna, herra forseti: Það á að nota þessi miklu tímamót við næstu aldamót til þess að lyfta þessu upp, að það væri ekki bara staðreynd að það voru Íslendingar sem fundu Norður-Ameríku á undan Kólumbusi heldur er það líka staðreynd að þegar Kristófer Kólumbus fór aftur og fann Ameríku þá gerði hann það á grundvelli þeirrar vitneskju sem varð til með þessum hafsiglingum Íslendinga yfir til Grænlands og síðan yfir til Norður-Ameríku.