Landafundir Íslendinga

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 18:10:27 (419)

1997-10-13 18:10:27# 122. lþ. 7.6 fundur 12. mál: #A landafundir Íslendinga# þál., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:10]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu sem hefur farið fram og þessari tillögu sem er til umræðu. Þetta eru einhverjar skemmtilegustu og mest fræðandi umræður sem ég hef hlustað á hér lengi. Burt séð frá því hver það var sem fann Norður-Ameríku fyrst, tel ég rétt að við höldum í heiðri minningu forfeðra okkar sem þangað fóru og notum þessi tímamót til að minna á tilvist þeirra og þeirra afrek. Ég held reyndar að það vanti einn kaflann í þessa siglingasögu og það er kannski kafli sem átti sér stað áður en okkar forfeður sigldu vestur yfir hafið. En það er þáttur írsku trúboðanna sem mjög líklegt er að hafi siglt yfir til Norður-Ameríku á undan okkar forfeðrum og sennilegast eru einu sagnirnar sem treystandi er á í íslenskum sögnum þær sem segja okkur frá Hvítramannalandi og ferðum íslensks kappa, Breiðvíkingakappans, sem var í Hvítramannalandi með írskum trúboðum um tíma og sagði frá því í Dyflinni þar sem hann dvaldist líka.

En ég er ekki kominn í stólinn til þess að fara djúpt ofan í fræðin heldur til þess að leggja til að þar sem menn virðast almennt vera sammála um að forsrn. eigi að fara með þetta mál, og ég er á því máli einnig, þá tel ég rétt að málið fari fyrir allshn. og að í meðförum nefndarinnar og forsrn. fái heimamenn í Dölum og á Grænlandi þann stuðning sem þarf til þess að fagna þessum tímamótum á réttan og viðeigandi hátt.