Öryggismiðstöð barna

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 18:20:47 (421)

1997-10-13 18:20:47# 122. lþ. 7.12 fundur 37. mál: #A öryggismiðstöð barna# þál., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:20]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Eins og mönnum er kunnugt sem hafa fylgst með fregnum, þá er tíðni slysa á börnum er afar há á landi. Í einstökum slysaflokkum eins og t.d. drukknunarslysum held ég að tíðnin sé með því allra hæsta sem gerist á gjörvöllum Vesturlöndum.

Þegar samanburður er gerður á barnaslysum hér og t.d. í þeim löndum sem næst okkur standa, Norðurlöndunum, kemur í ljós að hér á landi er áætlað að eitt af hverjum fjórum börnum lendi í slysi. Í Noregi er tíðnin helmingi minni þar sem eitt af hverjum sex og í Svíþjóð aðeins eitt af hverjum átta lendir í slysi. Þessar tölur sýna að það er nauðsynlegt að gera stórátak í slysavörnum hér á landi. Sennilega hefur enginn einn einstaklingur gert eins mikið á þessu sviði og slysavarnafulltrúi Slysavarnafélags Íslands, Herdís L. Storgaard hjúkrunarfræðingur sem fyrir þau störf sín vann einmitt til norrænu heilsuverndarverðlaunanna árið 1995. Hún hefur verið óþreytandi í að benda á margt sem aflaga fer og því miður virðist sem hún hafi oft á tíðum einungis talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda.

Ég bendi t.d. á það, herra forseti, að í tíð fyrri ríkisstjórnar var hrundið af stað nefnd í umhvrn. sem átti að gera tillögur um það hvernig hægt væri að breyta reglugerð um byggingar- og skipulagsmál með það fyrir augum að reyna að bæta og efla öryggi á þeim svæðum þar sem börn eru. Þessi nefnd hefur fyrir löngu skilað áliti sínu. Tillögurnar liggja fyrir en það er enn ekki búið að hrinda einni einustu þeirra í framkvæmd. Þetta þykir mér ámælisvert og ég hef spurst fyrir um það áður hér í þinginu hverju þetta sætir.

Það er annað sem mér finnst líka merkilegt varðandi þessi mál. Það er sú staðreynd að í dag liggja ekki fyrir neinar skýrar tölur um hversu há slysatíðnin er. Ef menn ætla að reyna að grafast fyrir um það hvernig slys verða, hvar þau verða og hversu alvarleg þau eru, þá verður að styðjast við úttekt sem var gerð á grundvelli gagna frá slysadeild Borgarspítalans og miðast við árin 1974--1991. Við höfum ekkert nýrra heldur en þetta. En á þessum tíma komu að jafnaði 6.200 slösuð börn á slysadeildina á hverju einasta ári. Til marks um það hvað börn voru hátt hlutfall þeirra sem deildin aðstoðaði má geta þess að árið 1991 voru reykvísk börn yngri en 14 ára þrír tíundu af öllum Reykvíkingum sem sóttu aðstoð til deildarinnar. Á hverju ári á þessum úttektartíma lagði deildin að meðaltali 158 börn inn á spítala.

Forvarnirnar virðast skipta mjög miklu máli. Eftir að forvarnaátaki var fyrst hrundið af stað upp úr 1980, sem var beint sérstaklega að foreldrum ungra barna, tók þessum slysum góðu heilli að fækka. Það hefur sýnt sig að þegar menn hafa farið í herferðir og átök sem miða að því að draga úr einhverjum tilteknum slysum, þá hefur það alltaf borið einhvern árangur.

Það er margt athyglisvert ef maður reynir að velta fyrir sér hvers konar slys hendir börn á Íslandi og hver þróunin er í þeim efnum. Það er t.d. sérstaklega merkilegt að slys sem verða hjá 10--14 ára börnum eru miklu tíðari hér en annars staðar samkvæmt þeim tölum sem liggja fyrir og þau slys aukast stöðugt. Á meðan slysatíðni í öðrum aldursflokkum lækkaði talsvert á úttektartímanum, 1974--1991, þá jukust þessi slys og í ljós kom að þau voru um það bil 100% tíðari hér á Íslandi en í Noregi.

Góðu heilli sökum forvarna og áróðurs hefur heimaslysum fækkað. En það sem er e.t.v. athyglisvert er tvennt, að svo virðist sem slys í skólum séu að aukast. Það er tilfinning þeirra sem koma að þessum málum að þeim fjölgi og í dag er það þannig að ég held að það séu engar reglur sem gilda um það hvernig t.d. kennarar eiga að vera búnir undir það ef slys verða, en því miður er það staðreynd að slys sem hefur hent börn á skólavæðum hafa orðið alvarlegri fyrir þá sök að menn hafa ekki haft þjálfun eða þekkingu á því hvernig átti að bregðast við. Það er auðvitað sorglegt. Það er dæmi um eitthvað sem hægt er að bæta úr. Þetta er sennilega mál sem þarf að taka sérstaklega á.

Það er líka athyglisvert að íþróttaslysum virðist stöðugt vera að fjölga og þau eru e.t.v. ásamt skólaslysum orsökin fyrir því að slysatíðni barna á aldrinum 10--14 ára virðist vera furðulega há hér á landi.

Við leggjum til, herra forseti, til þess að reyna að sporna við þessari þróun að búin verði til sérstök öryggismiðstöð barna. Hugmyndin er sótt að utan. Sá sem hefur fært hana hingað til lands er Herdís Storgaard hjúkrunarfræðingur. Hún hefur rætt um þetta á fundum, hún hefur skrifað um þetta greinar og hún hefur upplýst menn um eðli þessara öryggismiðstöðva í fjölmörgum viðtölum.

Fyrstu miðstöðvarnar af þessu tagi urðu til upp úr 1980 í Ástralíu. Reynslan af þeim varð svo góð að víða annars staðar hafa menn tekið upp svipaða starfsemi og víða á Norðurlöndunum er t.d. í bígerð að setja upp öryggismiðstöðvar þó að tíðni barnaslysa þar sé snöggt um lægri en hérna.

Nú má auðvitað velta því fyrir sér hvort ekki sé um gríðarlegan kostnað að ræða að setja upp slíka öryggismiðstöð. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að í málum eins og þessu eigi menn ekki að horfa í kostnað. En ég get þó glatt þá þingmenn sem bera fjárhag skattborgaranna fyrir brjósti að það er mjög líklegt að kostnaður við svona sé afsakplega lítill. Erlendis hefur víða verið farin sú leið að þessar öryggismiðstöðvar hafa verið settar upp í tengslum við barnaspítala. Spítalarnir hafa þá lagt til húsnæði. Ýmiss konar félagasamtök og líknarsamtök hafa á móti lagt til hvers konar tæki og tól sem þarf til þess að nota í þessum öryggismiðstöðvum. Ég tel að það væri afskaplega heppilegt ef hægt væri að fara þessa leið. Kostnaðurinn við reksturinn mundi þá nema sem svaraði launum einhverra starfsmanna, eins til þriggja. Yfirleitt er starfsmannafjöldinn ekki meiri. Það hefur sýnt sig að þessar miðstöðvar hafa átt auðvelt með að afla styrkja til rekstursins og sömuleiðis hafa þær víða líka farið út á þá braut að selja ýmiss konar þjónustu. Sums staðar hafa þær t.d. selt vöruvottun til fyrirtækja. Þær hafa selt samtökum, fyrirtækjum eða stjórnvöldum tiltekna gagnagrunna eða upplýsingar og líka hefur færst í vöxt að menn hafa sóst eftir því að fá fræðslu frá þessum öryggismiðstöðvum ef stjórnendur stöðvanna svara með því að setja upp námskeið sem hafa þá verið sniðin fyrir tiltekna viðskiptavinahópa.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er sjálfsaflafé slíkra stöðva sem eru komnar í fullan rekstur oft í kringum 65% af þeim kostnaði sem hlýst af rekstrinum. Það er líka þannig að oft og tíðum eru þessar stöðvar að verulegu leyti byggðar upp af sjálfboðaliðum sem taka að sér ýmiss konar verk sem ekki eru beinlínis sérhæfð. Jafnan eru það þó læknar og einkum og sér í lagi hjúkrunarfræðingar sem bera hitann og þungann af því að halda þeim gangandi.

Á miðstöðvum eins og þessum er reynt að draga saman þá þekkingu sem er fyrir hendi á slysavörnum sem tengjast börnum. Þar er líka reynt að draga saman á einn stað allan þann öryggisbúnað sem foreldrar þurfa að nota til þess að vernda börnin sín. Þeir geta t.d. komið og mátað á einum stað allar gerðir bílstóla sem er hægt að finna á markaðnum. Þeir eiga líka kost á umsögn miðstöðvarinnar um viðkomandi vöru og til hagræðis liggur líka frammi listi yfir fyrirtækin sem selja búnaðinn. Benda má á það, herra forseti, að það er ekki lengra síðan en nokkrir mánuðir að hér var verið að selja tiltekið öryggistæki sem varðaði börn sem slysavarnafulltrúi Slysavarnafélagsins var ekki ánægð með og taldi ekki nægilega góð.

[18:30]

Margvísleg fræðsla um varnir gegn slysum í umferðinni fer fram á þessum miðstöðvum. Þar er yfirleitt hægt að finna ýmsar gerðir hjólahjálma og ýmsar gerðir hjóla og reynt að draga fram allar þær hættur sem fylgja hjólreiðum. Þar er líka hægt að finna allar upplýsingar um íþróttaslys. Það er mjög mikilvægt fyrir foreldra sem eru að senda börn sín út í hinn stóra heim, leyfa þeim að taka þátt í íþróttaæfingum eins og allir foreldrar auðvitað vilja, að það sé hægt að leiðbeina þeim hvernig þeir geti búið börn sín undir þátttöku í íþróttum með það fyrir augum að draga úr mögulegum íþróttaslysum.

Í þessum miðstöðvum er líka jafnan reynt að byggja upp víðtækan gagnagrunn þar sem er hægt að fletta upp reglum og stöðlum sem tengjast umhverfi barna og jafnvel einstökum vörutegundum. Ég fullyrði að nú er t.d. mjög erfitt að fá nákvæmar upplýsingar um það hvers konar reglur eru í gildi og ég er þá fyrst og fremst að hugsa um þær tilskipanir sem hafa komið utan frá Evrópu og sem menn virðast tiltölulega seinir að kynna hér á landi og hrinda í framkvæmd.

Þetta, herra forseti, er svona í grófum dráttum það hlutverk sem þessar miðstöðvar eiga að sinna. Ég er sannfærður um að þær munu skipta mjög miklu máli og reynslan sýnir að þær vinna gott verk og foreldrar eru afar þakklátir fyrir þá þjónustu sem er að fá á þessum stöðvum.

Það er að lokum eitt sem ég vildi nefna sérstaklega. Við sem flytjum þessa tillögu leggjum til að eitt af verkum miðstöðvarinnar verði að hafa með höndum samræmda tölvuskráningu á barnaslysum sem eigi jafmframt að vera vistuð á vettvegnai miðstöðvarinnar. Það mætti vel færa rök fyrir því að einhvers staðar annars staðar ættu einhverjar aðrar stofnanir að sinna skráningu af þessu tagi. En ég gat um mjög snemma í mínu máli að mjög erfitt er að fá góðar og ítarlegar upplýsingar um þróun slysa á börnum. Af hverju? Vegna þess að enginn hefur það á sinni hendi að skrá þau.

Slysavarnir byggjast ekki síst á því að geta greint eðli slysa, tíðni þeirra og hvernig þau eru að þróast. Einungis upplýsingar af slíku tagi gera það að verkum að menn vita hvar skóinn kreppir, hvar þarf að breyta einhverju. Það er ekki gert varðandi þessa tegund slysa. Hins vegar hefur hið háa Alþingi sett lög um rannsóknarnefndir t.d. flugslysa og sjóslysa, að líkindum vegna þess að slík slys eru í eðli sínu oft mjög mannskæð, en líka vegna þess að með slíkum rannsóknum er hægt að grafast fyrir um orsakir þeirra og þar á meðal að draga úr líkunum á því að þau hendi aftur í framtíðinni.

Það mætti alveg hugsa sér, herra forseti, að líka yrði sett upp sérstök rannsóknarnefnd barnaslysa eins og er að finna í ýmsum löndum. Við flutningsmenn þessarar tillögu veltum því fyrir okkur að leggja fram slíka tillögu, en við teljum að það sé ekki rétt að gera það, a.m.k. ekki á þessu stigi málsins. En við erum eigi að síður þeirrar skoðunar að samræmd skráning barnaslysa sé mjög mikilvægt tæki til þess að hægt sé að draga ályktanir af þeim slysum sem verða um hvers konar aðferðir dugi best til þess að fækka þeim. Þess vegna leggjum við til, herra forseti, að öryggismiðstöð barna fái jafnframt það hlutverk að safna og vinna úr upplýsingum um barnaslys. Við teljum að sú vinna yrði mikill styrkur stjórnendum öryggismiðstöðvarinnar þegar að því kemur að sinna því ráðgjafarhlutverki gagnvart stjórnvöldum sem við leggjum til að miðstöðinni verði einnig fært.

Herra forseti. Þessi tillaga er þess eðlis að ef hún verður samþykkt, þá getur hún skilað miklum árangri tiltölulega fljótt. Hún er líka þess eðlis að hún kostar ekki mjög mikið og hún er þess eðlis að einmitt núna er tíminn til þess að þingmenn velti því fyrir sér hvort ekki sé rétt að bregðast við þeirri uggvænlegu þróun sem við höfum séð í fjölmiðlum á tíðni barnaslysa með því að samþykkja þessa tillögu. Ég er sannfærður um að þegar hið háa Alþingi rannsakar þetta mál, mun það komast að raun um að þörf er á stofnun af þessu tagi.