Öryggismiðstöð barna

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 18:35:28 (422)

1997-10-13 18:35:28# 122. lþ. 7.12 fundur 37. mál: #A öryggismiðstöð barna# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er varla miklu að bæta við þá ágætu framsögu sem 1. flm. þessarar tillögu hafði hér á undan, en ég vil leggja áherslu á að öryggismiðstöð barna sem lagt er til að verði sett á laggirnar er geysilega mikil slysa- og forvarnamiðstöð fyrir börn og ekki aðeins fyrir börn, heldur bæði fyrir börn og foreldra þeirra.

Það koma ákaflega merkilegar upplýsingar fram um slys á börnum í greinargerð með frv. og ég vil taka undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar sem hann talar um merkilegt starf Herdísar Storgaard hjúkrunarfræðings sem hefur unnið mikið stórvirki í slysamálum barna og vakið athygli á hverju málinu á fætur öðru sem betur mætti fara.

Eins og kom fram í máli hv. 1. flm. þáltill., er ekki mikið um skráningu á barnaslysum eða vinnslu á upplýsingum af því tagi. En miðað við þær upplýsingar sem í greinargerðinni eru, þá virðist mér, miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur frá árinu 1996, að þessi mál fari versnandi því að á síðasta ári komu tæplega níu þúsund börn undir 14 ára aldri á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þetta eru svokallaðar nýkomur þannig að það er aukning í barnaslysum. En eins og kom fram í máli 1. flm. er áætlað samkvæmt tölum sem lágu fyrir frá því tímabili sem var til umfjöllunar hér á undan, þ.e. til 1991, að eitt af hverjum fjórum börnum á Íslandi lenti í slysi á meðan það er eitt af hverjum sex í Noregi og aðeins eitt af hverjum átta í Svíþjóð.

Ég held að það sé fyrir löngu orðið tímabært að verulega verði tekið á í þessum málum. Ein manneskja eins og Herdís Storgaard má sín nokkurs en þó er nauðsynlegt að á þessum málum verði tekið af festu. Eins og hér hefur komið fram eru komnar öryggismiðstöðvar sem þessar víða í heiminum. Fyrsta öryggismiðstöðin var í Ástralíu og síðan hafa þær verið settir á laggirnar m.a. á Norðurlöndum.

Hlutverki þessarar öryggismiðstöðvar hefur verið lýst vel hér á undan og ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem kom fram í þeirri ræðu, en ég vil leggja áherslu á að það hlutverk sem nefnt er í niðurlagi greinargerðarinnar er geysilega mikilvægt, þ.e. um samræmda skráningu barnaslysa. Það er eitt stærsta málið núna að halda saman uplýsingum um barnaslysin. Þær liggja ekki fyrir og þó að maður reyndi að afla upplýsinga fyrir þessa umræðu, þá lágu aðeins fyrir komutölur á slysadeildina en engar aðrar unnar upplýsingar.

Ég ætla að vona að þegar þessi þáltill. verður búin að fara í gegnum umræðu í heilbr.- og trn. komi hún aftur hingað til umræðu í þinginu því að ég tel að þessi mál, í þeim farvegi sem hér er lagt til, muni bæði bæta velferð fjölskyldunnar og barna hér á Íslandi í komandi framtíð.