Öryggismiðstöð barna

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 18:43:35 (424)

1997-10-13 18:43:35# 122. lþ. 7.12 fundur 37. mál: #A öryggismiðstöð barna# þál., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:43]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni og studdu tillöguna. Ég tek sérstaklega undir báðar ábendingarnar sem komu fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni. Ég held að það sé þarft að nefndin sem fær þetta til umfjöllunar, sem verður væntanlega heilbr.- og trn., taki þetta til gaumgæfilegrar athugunar.

Hv. þm. ræddi sérstaklega tryggingamál. Hver er það sem ber ábyrgðina þegar slys hendir barn í skóla, í leikskóla eða einhvers staðar annars staðar? Um þetta hafa þegar risið talsverðar deilur og það er alveg ljóst að réttarstaða barna og foreldranna er mjög óviss.

Ég bendi líka á það, af því að mér varð tíðrætt um íþróttaslys sem er sú tegund slysa sem virðist í hvað örustum vexti meðal barna, að í nýlegri skýrslu umboðsmanns barna er sérstaklega bent á að það þurfi að hreinsa andrúmsloftið varðandi einmitt þá tegund slysa. Hver er það sem ber ábyrgð á því þegar barn sem er í keppni eða við æfingar sem er undirbúningur að einhvers konar keppni, verður fyrir slysi? Hver á að greiða slysatryggingarnar eða hver á að bera skaðann? Um þetta þarf að fjalla á vettvangi hins háa Alþingis og þetta er einmitt eitt af þeim málum sem þingflokkur jafnaðarmanna er með í undirbúningi einmitt vegna þess að við teljum að það þurfi að koma skýrar fram hver ber ábyrgðina. Þetta er vaxandi áhyggjuefni foreldra sem eru að senda börn sín á æfingar og í keppni, þ.e. hver á borga ef það verður slys.

Að öðru leyti, herra forseti, legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til heilbr.- og trn. að lokinni þessari umræðu og þakka hv. þingmönnum fyrir undirtektir.