Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 14:28:20 (437)

1997-10-14 14:28:20# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:28]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrir 3. umr. fjárlagafrv. sem fram fór laust fyrir jólin á sl. vetri kom Þjóðhagsstofnun á fund fjárln. og lagði fram mat sitt. Það var þannig að Þjóðhagsstofnun áætlaði, að teknu tilliti til þeirra framkvæmda sem fyrirsjáanlegt var að mundu fara í gang en ríkisstjórnin vildi ekki hafa inni í forsendum síns fjárlagafrv., að landsframleiðsla mundi aukast um 4,3% á þessu ári í stað þeirra 2,5% sem fjárlögin gera ráð fyrir. Reyndin verður aðeins meiri, aukningin verður 4,5%.

Þá gerði Þjóðhagsstofnun líka ráð fyrir að þjóðarútgjöld mundu aukast um 7,1% í stað þeirra 3,5% sem fjárlögin hvíla á. Reyndin er mjög nálægt þessu eða 6,7% í stað þeirra 7,1 sem Þjóðhagsstofnun gerði ráð fyrir. Minni hlutinn í fjárln. hafði því upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um mat á framvindu efnahagsmála á þessu ári og það hefur reynst vera nokkuð traust mat.

Ég vil svo taka undir það hjá hæstv. fjmrh. að áætlanir hafa verið að batna og áætlanagerð hefur farið mikið fram. Sérstaklega get ég tekið undir það að fjmrn. hefur yfir að ráða mörgum afar hæfum starfsmönnum í þessum efnum sem eru fullfærir um að gera góðar áætlanir sem vel er hægt að byggja fjárlög á. Þess vegna er það enn meira undrunarefni í ljósi þess hversu miklu skeikar frá áætlunum sem ríkisstjórnin leggur upp með og raunveruleikanum.