Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 14:33:30 (439)

1997-10-14 14:33:30# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:33]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. til fjáraukalaga sem liggur fyrir er fyrra frv. af þessu tagi sem lagt er fram í Alþingi þar sem sótt er eftir viðbótarheimildum. Seinna frv. er uppgjörsfjáraukalög fyrir árið. Þessu frv. verður vísað til fjárln. þar sem fjallað verður nánar um forsendurnar að baki þeim beiðnum sem hér liggja. Ég ætla ekki í þessari umræðu að fjölyrða um einstakar beiðnir sem hér eru inni. Það gefst tækifæri til þess við 2. umr. fjárlaga að fjalla nánar um þær.

En eins og komið hefur fram við þessa umræðu er sótt um viðbótarheimildir í frv. um 6,9 milljarða kr. Það er allmikil upphæð en auðvitað verður eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh. að taka það með í reikninginn að 4 milljarðar af þeirri upphæð eru tilkomnir vegna innköllunar innlausnar spariskírteina og útgjalda þeirra vegna. Þetta kemur til góða strax á næsta ári og það sparar ríkissjóði veruleg útgjöld í vöxtum næstu árin sem mun nema á þriðja milljarð kr. Þetta er afar mikilvægt og er eitt af því sem rennir stoðum undir afkomu ríkissjóðs og verður til þess að vonir vakna um að ríkisfjármálin verði í jafnvægi á næstu árum. En til þess að svo verði þarf að hafa hemil á útgjöldum jafnvel þó að tekjurnar séu fram yfir áætlun.

Ég geri fyrst að umræðuefni þær umræður sem hafa verið um tekjuhliðina. Það er rétt að fjmrn. og Þjóðhagsstofnun gera okkur í fjárln. grein fyrir tekjuhliðinni og það er rétt sem betur fer, vil ég segja, að tekjurnar hafa verið varlega áætlaðar. Hv. 5. þm. Vestf. orðaði það svo að peningarnir flæddu inn í ríkissjóð umfram áætlanir. Sem betur fer hafa verið tekjur umfram áætlun og það stafar m.a. af því að uppsveifla er í efnahagslífinu. Það er vissulega mikil einkaneysla. (Gripið fram í: Góð ríkisstjórn.) Það er þó ánægjulegt að sjá það í þessu fjárlagafrv. að afkoma fyrirtækja er á þann veg að tekjuskattar þeirra hafa vaxið verulega. Þetta er umfram áætlun. Þetta bendir til þess að afkoman fari mjög batnandi og að efnahagslífið sé í sterkari uppsveiflu heldur en við áttum von á.

En það er því miður ekki svo að peningarnir flæði aðeins inn í ríkissjóð því að þessi tekjuauki hefur --- ég vil ekki segja að hann hafi flætt út --- verið notaður í aukin útgjöld. Hluti af þessum tekjuauka er til að laga til á skuldahliðinni með innlausninni. En það eru ýmsar beiðnir um fjárveitingar fram yfir áætlun sem ég vil að vísu undirstrika að stór hluti er tilkominn sérstaklega í tryggingageiranum, eins og gerð er grein fyrir í frv., vegna kjarasamninga sem hafa verið gerðir. Fyrir því er gerð glögg grein í frv., í kafla sem fjallar um heilbrrn. og fjallað er um lífeyristryggingar og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð þar sem sótt er um viðbótarfjárveitingar vegna kjarasamninga sem gerðir hafa verið. Sem betur fer hefur þessi tekjuauki leitt til þess að innstæða er fyrir þessum auknu útgjöldum.

Ég mun víkja í lok máls míns örlítið að vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Nokkrir útgjaldaþættir hafa sérstaklega verið til umræðu bæði þegar rætt var um fjárlögin við 1. umr. og eins nú. Nokkur útgjöld sem hafa fallið til í umsvifum sendiráða hafa verið hér til umræðu og reyndar er meiri hluti þeirra útgjalda sem kom upp snögglega og flokkast undir ófyrirséð útgjöld, eins og sendiherrabústaðurinn í Washington sem hefur verið margrætt um hér, að kalla á 100 millj. kr. endurbætur nú þegar ef húsið á ekki að hrynja yfir nágrannana eins og við í fjárln. höfum verið upplýstir um. Það er einu sinni svo að við komumst ekki hjá því að stunda okkar utanríkisþjónustu. Gildi hennar hefur ætíð verið mikið fyrir litla þjóð og fer vaxandi. Þetta er vissulega dýr starfsemi, sérstaklega sá húsnæðiskostur sem utanríkisþjónustan þarfnast í stórborgum heimsins. Hér er nokkuð af beiðnum einmitt til að lagfæra aðstöðu sendiráða og það munu koma inn beiðnir á næstu fjárlögum, m.a. til uppbyggingar á sendiráðinu í Berlín, en við höfum tekið upp samstarf við aðrar Norðurlandaþjóðir um að byggja upp nýja aðstöðu í tengslum við flutning höfuðborgar Þýskalands frá Bonn til Berlínar og flutning stjórnsýslunnar þangað. Ég nefni þetta hér vegna þess að okkur hættir oft til að líta á útgjöld bæði í alþjóðasamskiptum og utanríkisþjónustunni sem hálfgerðan óþarfa og lúxus. En það er óhjákvæmilegt að útgjöldin vaxi þarna þó vissulega verði að halda vel utan um þau eins og í öðrum þáttum.

Að vanda hefur einnig verið rætt um útgjöldin í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Ekki þarf að tíunda það í hv. Alþingi að þetta er viðkvæmur þáttur í starfsemi ríkisins. Miklu máli skiptir að þarna sé haldið vel á málum. Enn einu sinni hefur verið gert samkomulag um hagræðingu í sjúkrahúsunum í Reykjavík milli fjmrn., heilbrrn. og Reykjavíkurborgar um tilteknar aðgerðir sem byggjast m.a. á tillögum sem hafa verið ræddar og samþykktar í stjórnum þessara stofnana á einhverju stigi og ætlunin er að vinna á þeim nótum næstu mánuðina. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkir samningar hafa verið gerðir. Þessi umræða hefur verið í gangi alla þá tíð sem ég hef verið í fjárln., í stjórn og í stjórnarandstöðu. Ég man eftir miklum átökum í fjárln. árið 1992 um sjúkrahúsin í Reykjavík, þ.e. hvort það ætti að sameina þau eða ekki, hvort hér ættu að vera tvö sjúkrahús eða eitt. En þetta er niðurstaðan nú. Þetta er stefnumörkun. Þetta er samkomulag milli rekstraraðila Sjúkrahúss Reykjavíkur, sem er Reykjavíkurborg og tveggja ráðuneyta sem fjalla um þessi mál. Ég hygg að það verði að vinna að því hörðum höndum að framkvæma þetta samkomulag og þær aukafjárveitingar sem hér eru tilgreindar. Þær miða að þeirri framkvæmd.

[14:45]

Þau vinnubrögð sem ríkisstjórn og Alþingi eiga að hafa, einkum við gerð fjáraukalaga og við beiðnir um viðbótarheimildir, hafa verið rædd allmikið bæði við fjárlagaumræðuna og eins kom hv. 5. þm. Vestf. inn á þau. Það er rétt að tekið var á þessu í lögum um fjárreiður ríkisins sem voru samþykkt á Alþingi síðasta vor. Í 33. gr. segir um þessi mál:

,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.``

Í fyrsta lagi er reiknað með að leitað sé heimilda í fjáraukalögum og að fjárln. sé gerð grein fyrir slíkum greiðslum þegar ákvörðun hefur verið tekin. Ég hef óskað eftir því við fjmrn. að í þessu efni verði notaðar samskiptareglur milli fjárln. og fjmrn. um hvernig slíkt samráð eigi að vera, hvort það sé munnlegt, hvort það sé með formlegum fundum eða skriflegt. Það þarf að ganga endanlega frá því hvernig háttur verður hafður á því. Það er nauðsynlegt að fjárln. og ráðuneytið gangi frá þeim málum til að koma í veg fyrir að misskilningur verði í þessu efni og hv. alþm. og ráðherrar lendi í þrætum ár eftir ár um framkvæmd laganna.

Ég tek þetta fram vegna þeirrar umræðu sem verið hefur. Gangurinn í málunum hefur verið sá að viðkomandi ráðherra, sem biður um aukafjárveitingu, hefur rætt það innan ríkisstjórnarinnar, fengið samþykki fjmrn. fyrir því að flytja tillögu um slíka aukafjárveitingu í frv. til fjáraukalaga. Síðan hefur það frv. verið flutt að hausti. Ætlunin er að draga þingið nær þessum ákvörðunum en áður var. Það er bráðnauðsynlegt að ganga endanlega frá því máli í samræmi við lögin sem við vorum að samþykkja.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fjölyrða um einstakar fjáraukalagabeiðnir eða fara í einhver samanburðarfræði. Mig undrar reyndar að ágætur félagi minn í fjárln., hv. 5. þm. Vestf., skuli draga vegagerð á Skeiðarársandi inn í umræðuna í samanburðarfræðum við sjúkrahúsin á landsbyggðinni. Mér finnst það dálítið út í hött svo ekki sé meira sagt. Ef segja má að einhverjar fjárveitingar séu ófyrirséðar eru það fjárveitingar vegna náttúruhamfara. Ég held að vini mínum, hv. 5. þm. Vestf., hafi hlaupið heldur mikið kapp í kinn að fara að bera þetta saman. Sjúkrahúsin á landsbyggðinni hafa einnig verið mikið í umræðunni og eftir því sem ég hef fregnað er unnið að því í heilbrrn. að því að fara yfir stöðu þeirra á þessu ári og vafalaust mun hún koma til umræðu í meðförum fjárln. í framhaldinu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég hef tækifæri til að ræða nánar um frv. þegar það kemur til 2. umr. sem vonandi verður fyrr en verið hefur. Því miður hefur dregist alllangt fram eftir árinu að samþykkja fjáraukalagafrv. og það hefur verið til meðferðar rétt á undan afgreiðslu fjárlaga. En æskilegt væri að ljúka þessu starfi fyrr.