Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 14:59:02 (443)

1997-10-14 14:59:02# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[14:59]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að leiðrétta það sem hv. þm. sagði að Alþingi hefði ákveðið að ekki yrði skorið niður. Alþingi ákvað að deila ekki sparnaðinum út á landsbyggðarsjúkrahúsin en skerða hagræðingarlið ráðuneytisins að sama skapi og síðan ætti að greiða aftur inn á þennan lið eftir því sem sparnaðurinn næðist.

Það er rétt, og þar erum við hv. 5. þm. Vestf. sammála, að auðvitað hlýtur þetta mál að koma til kasta fjárln. og hún hlýtur að kalla eftir tillögum ráðuneytisins við framhaldsvinnslu málsins, það er rétt. En meiri hluti Alþingis ákvað þessa hagræðingu á sínum tíma við gerð fjárlaga. Þess vegna skil ég ekki þessi samanburðarfræði um Skeiðarársand eða hvort hv. þm. er þeirrar skoðunar að eitthvað eigi að draga úr framkvæmdum þar til að jafna sparnað á sjúkrahúsunum. Ég á ekki von á að hann sé þeirrar skoðunar heldur séu þetta einhver óvænt samanburðarfræði sem við hljótum að jafna í framhaldsumræðunni. En ég skil hann a.m.k. ekki eins og er.