Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 15:01:26 (444)

1997-10-14 15:01:26# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:01]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég verð nú að játa að mig grípur alltaf nokkurt ergelsi og leiði í hvert sinn sem við tökum til við að fjalla um frv. til fjáraukalaga. Þessi leiði stafar vitaskuld af því að þrátt fyrir margítrekuð andmæli við því hvernig ráðherrar nota eða jafnvel misnota vald sitt í sambandi við meðferð fjármuna, þá láta þeir sér ekki segjast. Fjáraukalög eiga vitaskuld rétt á sér og eru nauðsynleg en eins og hér hefur einmitt verið tíundað og rætt eiga þau í raun aðeins að vera til að staðfesta óhjákvæmilegar fjárveitingar umfram það sem Alþingi hefur staðfest í fjárlögum ársins. Það er óhjákvæmilegt að eitthvað komi upp á eins og náttúruhamfarir eða annað sem þarf að bregðast við áður en næst að bera það undir Alþingi og slík dæmi eru auðvitað alltaf þó nokkur. En því miður hefur ríkisstjórnin ævinlega teygt þann ramma á alla enda og kanta þannig að á hverju einasta ári hefur hún tekið ákvarðanir í skjóli meirihlutavaldsins um hina og þessa hluti, um framkvæmdir, rekstur og framlög sem geta ekki talist falla undir þessa skilgreiningu. Ráðherrar hafa, án eðlilegs samráðs við Alþingi, tekið ákvarðanir um ný verkefni sem hafa bundið hendur þingsins til framtíðar án þess að það hafi í rauninni haft nokkuð um það að segja. Um það höfum við enn einu sinni dæmi í því frv. sem hér liggur fyrir.

Þetta frv. sýnir það og sannar að allt er nú komið á daginn sem haldið var fram í nefndaráliti minni hluta fjárln. við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Það er allt komið á daginn og meira til. Í frhnál. minni hlutans sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Miðað við þau umsvif og væntingar sem hafa verið í efnahagslífinu að undanförnu, svo og með hliðsjón af því vanmati sem iðulega hefur verið í þjóðhagsforsendum fjárlaga, samanber yfirstandandi ár, telur minni hlutinn að tekjur ríkissjóðs þróist ekki með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og endurskoðaðri tekjuspá. Eins og fram kom við 2. umr. taldi minni hlutinn að tekjur ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu væru vantaldar um 1,5--2,0 milljarða kr. Þrátt fyrir að endurskoðuð tekjuáætlun hafi hækkað tekjurnar um 600 millj. kr. telur minni hlutinn að enn vanti um 1,0--1,2 milljarða kr. á tekjuhlið frumvarpsins. Eru það fyrst og fremst veltuskattarnir, m.a. innflutnings- og vörugjöld, og virðisaukaskattur sem telja verður að skili meiri tekjum en hér kemur fram miðað við þær þjóðhagsforsendur sem frumvarpið byggist á.``

Fyrir þessu færðum við rök í áliti okkar sem er á þskj. 464 á síðasta þingi og geta menn rifjað það upp að vild sér til fróðleiks og skemmtunar svo ég fari nú ekki að eyða tímanum í lestur gamalla þingskjala. En það er rétt að minna á þetta rétt einu sinni. Við vildum reynar sýna mikla ábyrgð og varfærni og höfðum tekjuspá okkar í lægri kantinum, enda er nú komið á daginn að tekjuaukinn er ekki 1--2 milljarðar heldur bendir allt til þess að hann verði 4,7 milljarðar samkvæmt þessu frv. Og vegna þess að hér var nokkuð rætt um hugsanlegar ástæður þessa munar á tekjuáætlun frv. og þess sem við vildum leggja til grundvallar í okkar áætlun, og hæstv. fjmrh. brást nokkuð við því, þá verð ég nú að taka undir með hv. 5. þm. Vestf. að það er mjög athyglisvert hversu lélegir spámenn menn hafa reynst við áætlun um tekjur og útgjöld við afgreiðslu fjárlaga. Að mínu mati hlýtur ástæðan eiginlega að hafa eitthvað með vilja að gera. Ég hygg að ráðuneytismenn vilji jafnvel ekki að þeir sem þurfa að sækja um fjárveitingar til ríkisins telji sig hafa eitthvað verulegt þangað að sækja og ég get ekki neitað því að það hlýtur að læðast að manni að þarna sé um vísvitandi lágmarksspá að ræða. Út af fyrir sig er ekki fráleitt að fara varlega í slíkar spár því að það er heldur verra ef tekjuáætlun reynist vera ofáætluð, en fyrr má nú vera. Og ég held að það saki ekki að hafa almenna skynsemi með í ráðum, það séu ekki bara hagfræðistærðir eða einhverjir tæknilegir útreikningar sem þurfi að liggja til grundvallar. En það er sem sagt ljóst að markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög næst ekki á þessu ári. Hallinn verður væntanlega um 1,4 milljarðar þegar upp er staðið og eins og margsinnis hefur verið minnt á og tíundað, þá skipta þar mestu máli áhrif vegna sérstakrar innköllunar spariskírteina sem ákveðin var á árinu, en sú gjörð hefur í för með sér lægri vaxtagjöld í framtíðinni og verður því að teljast skynsamleg til lengri tíma litið. En það breytir ekki þeirri staðreynd að markmiðið um hallalaus fjárlög náðist ekki.

Við sögðum líka í nefndaráliti okkar og í ræðum við afgreiðslu fjárlaga að fyrirhugaður sparnaður í heilbrigðiskerfinu mundi ekki ganga eftir, hvorki í tryggingakerfinu hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík né þeim minni úti á landi. Hugmyndir allar um þennan sparnað voru í raun ómótaðar og óútfærðar svo sem við þekkjum frá fyrri tíð og auðvitað er komið í ljós að þessar áætlanir fengust ekki staðist. Tölurnar sem sýndar eru undir kaflanum heilbr.- og trmrn. koma því síður en svo á óvart. Ég geri ekki athugasemdir við þær á þessu stigi en við eigum eftir að fá nánari skýringar hjá ráðuneytinu í fjárln. þegar þar að kemur.

Ég hlýt aðeins að segja það enn einu sinni að ríkisstjórnin er hér á rangri braut hvað varðar þróunina í heilbrigðiskerfinu. Aðhald og sparnaður eru auðvitað dyggðir í ríkisrekstrinum, en langtímakyrking af því tagi sem hér hefur verið stunduð er bæði heimskuleg og skaðleg og við erum ekki búin að bíta úr nálinni með afleiðingar af þeirri stefnu sem hefur verið fylgt.

Hv. 2. þm. Austurl., formaður fjárln., hefur bent á hækkanir vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um bætur í tengslum við samningana ef ég skildi hann rétt. En við skulum heldur ekki gleyma því að talsverðar fjárhæðir eru fluttar frá fjmrn. yfir á þann lið þannig að sá liður hjá fjmrn. lækkar allmikið til mótvægis.

Það eru auðvitað ýmis atriði sem ástæða væri til að gera athugasemdir við og skýrast alls ekki til fulls í athugasemdum við einstaka liði, en ég sé ekki beint ástæðu til að fara í einhvern sparðatíning núna. Við eigum eftir að fá ýmsar skýringar í nefndinni og sumt af því sem verið er að biðja um fjárveitingar til er þegar búið og gert. Annað má e.t.v. bíða og um það getum við fjallað nánar í nefndinni. Til að nefna dæmi, þá hlýtur maður að spyrja sig hvort óumflýjanlegt sé að veita framlag til endurnýjunar þjónustubifreiðar fyrir embætti forseta Íslands, hvort það megi ekki bíða eftir fjárlögum næsta árs, hvort aukafjárveiting til þess að undirbúa hátíðahöld fyrir 1000 ára afmæli kristnitöku árið 2000 sé alveg nauðsynleg í aukafjárlögum, hvort hún megi ekki bíða næsta árs, þ.e. bíða eftir fjárlögum sem við erum að fjalla um núna og verða afgreidd fyrir næstu jól. Sama má segja um ýmis önnur verkefni sem hér eru nefnd og manni finnst að þyrfti kannski ekki endilega að ákveða núna á hausti heldur megi það alveg bíða eftir fjárlagaafgreiðslunni.

Fleiri fjárveitingar hafa verið nefndar eins og í sambandi við viðgerðir og endurnýjun á Stjórnarráðshúsinu þó að auðvitað verði að viðurkennast að það eru alkunn sannindi þegar farið er að endurnýja gömul hús að alltaf kemur eitthvað upp sem er ófyrirséð og væntanlega erfitt að stoppa í miðju kafi til þess að bíða eftir fjárlögum næsta árs svo að það má vel færa fyrir því rök að það sé óskynsamlegt.

Sumt er auðvitað dálítið skondið í þessu frv. þó að það skipti ekki sköpum um ríkisfjármálin, t.d. eins og kostnaður við flugminjasafnið á Hnjóti við Patreksfjörð sem hefur verið tekinn af fjárveitingu til framkvæmda á flugvöllum sem er mjög sérkennilegt efni, enda er verið að biðja um að flytja það undir annan lið. Eins mætti ræða hverju myndarlegt framlag ríkisvaldsins til útsendingar sjónvarpsþáttarins Good Morning America hefur skilað en í ljós kemur að það hefur ekki dugað til vegna breytingar á gengi og er því verið að biðja um aukaframlag á næsta ári. En þetta eru smáatriði sem er kannski ástæða samt til þess að fjalla um því að margt smátt gerir eitt stórt.

[15:15]

Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að fjalla nokkuð um einn kafla þessa frv. sem er utanrrn. Ég gerði það reyndar einnig á síðasta ári. Útþensla þessa ráðuneytis og útgjaldaaukning er með ólíkindum og ekki í takt við þær kröfur sem gerðar eru til annarra pósta í ríkisrekstrinum og það er í þeim kafla sem er að finna gleggstu dæmin um það hvernig framkvæmdarvaldið hunsar gjörsamlega löggjafarvaldið. Þar er bara ganske pent farið fram á aukningu gjalda um 182 millj. kr., bæði til framkvæmda og reksturs. Það er kannski ofsagt að það sé beðið ganske pent vegna þess að það stendur einfaldlega ,,ríkisstjórnin ákvað`` þetta og hitt og nú er sem sagt komið að okkur að taka upp veskið.

Leitað er eftir 7,5 millj. kr. aukafjárveitingu til reksturs nýrrar sendiráðsskrifstofu í Helsinki sem eins og stendur hér, ,,ríkisstjórnin ákvað að opnuð yrði á þessu ári``. Þetta er skuldbinding til framtíðar. Þarna er ekki verið að biðja um 7,5 millj. kr. einu sinni heldur er þetta til reksturs þessarar sendiráðsskrifstofu í hluta af þessu ári, að ég held hálft þetta ár, þannig að fjárveitingin verður að vera tvöföld á næsta ári o.s.frv. Sama er að segja um fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu. Þar er farið fram á 14,7 millj. kr. viðbótarframlag á þessum lið og þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkisstjórnin ákvað snemma á þessu ári að hefja starfrækslu á fastanefnd hjá Evrópuráðinu í Strassborg og leita eftir fjárheimild til þess að mæta rekstrarkostnaði hennar í frv. til fjáraukalaga þessa árs``. En hún spurði ekki þingið. Og þetta er líka framlag eða fjárveiting sem kallar á framlag til frambúðar.

Undir liðnum 320 Sendiráð, almennt, er sótt um 101 millj. kr. til viðbótar á þessum lið og það er fyrst og fremst til endurbyggingar á sendiherrabústaðnum í Washington og þar stendur enn einn ganginn: ,,Ríkisstjórnin ákvað fyrr á þessu ári að ráðist yrði í endurbyggingu og viðhald hússins``.

Látum nú vera þó að teknar séu ákvarðanir um tímabundin útgjöld sem vel má vera að séu óhjákvæmileg. Ég hef ekki forsendur til að meta það í þessu tilviki þótt auðvitað hefði átt að vera hægur vandinn að kynna málið fyrir þingmönnum og leita heimildar. En það er verra og raunar fullkomlega óviðunandi þegar ráðherrar taka sér það vald að efna til rekstrarkostnaðar inn í framtíðina án þess að um það sé fjallað á eðlilegan hátt og ég hlýt af þessu tilefni að fagna þeirri gagnrýni sem hv. 2. þm. Vesturl. og varaformaður fjárln. hefur sett fram um þetta efni og tel það styrkja verulega þá gagnrýni sem a.m.k. sú sem hér stendur hefur sett fram áður um þessi efni.

Svo er rétt að vekja athygli á því sem hæstv. ráðherra reyndar gerði í ræðu sinni áðan. Það er á bls. 23 í athugasemdum með frv. þar sem frá því er skýrt að enn eigi eftir að leita eftir auknum heimildum fyrir allt að 300 millj. kr. til útgjalda vegna endurnýjunar á sendiherrabústöðum í London, París og Berlín. Við eigum því enn eftir að fá beiðni um frekari fjárveitingar til þessara þátta og skyldi nú engan undra þótt mörgum ofbjóði sú útþensla og aukning útgjalda sem hefur orðið hjá þessu ráðuneyti og er greinilega ekkert lát þar á. Þar hljótum við að líta til þess hvað við viljum láta hafa forgang í rekstri ríkisins. Ég efast ekkert um það sem var sagt hér áðan að það sé margt nauðsynlegt og gott sem fram fer í utanríkisþjónustunni, en það getum við líka sagt um svo marga aðra liði sem við erum að fjalla um í fjárlagadæminu og ríkisrekstrinum og þar set ég a.m.k. ýmsa þætti ofar á forgangslistann heldur en þessa útgjaldaþenslu hjá utanrrn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þetta núna. Það á eftir að koma til umfjöllunar og nánari skýringa í fjárln.