Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 15:45:34 (448)

1997-10-14 15:45:34# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum nánast sammála um viðskiptahallann, ég og hv. þm., en við erum hins vegar ósammála um eitt sem er mjög mikilvægt og það er að hv. þm. leggur áherslu á skattahækkanir meðan ég geri það ekki. Það er grundvallarmunurinn á pólitískri stefnu okkar og kemur kannski engum á óvart.

Í öðru lagi vil ég segja að talað var við fjöldamarga stjórnendur, talað var við stjórnarnefnd Ríkisspítalanna sem fer með stjórn Ríkisspítalanna, og borgarstjórinn tekur þátt í samkomulaginu vegna þess að hann er sífellt í beinum viðtölum við stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur. Að þessu samkomulagi kom Hjörleifur Kvaran, sem er fulltrúi Reykjavíkurborgar þar, Magnús Pétursson og Kristján Erlendsson sem er fyrrverandi læknir á Landspítalanum og þekkir þar mjög vel til. Það var því talað við alla þessa aðila og farið í gegnum málin með þeim hætti að slíkt hefur ekki verið gert áður. Auðvitað eru ýmis sjónarmið uppi á sjúkrahúsunum, við þekkjum það frá fyrri tíð, við höfum báðir setið í stjórnarnefndum Ríkisspítalanna og menn hafa mismunandi sjónarmið þar á því hvernig eigi að haga málum í framtíðinni.

Varðandi FSA vil ég segja þetta: Stækkun FSA byggðist á því að við ætluðum að styrkja hin svokölluðu hátæknisjúkrahús á Reykjavíkursvæðinu annars vegar og á Akureryri hins vegar en einnig var tekið fram að það væri ekki hægt nema sjúkrahússtarfsemi hinna sjúkrahúsanna breyttist. Það er það sem skiptir öllu máli og það er það sem þarf að vinna að í framtíðinni og út á það gengur umræðan. Ég segi við hv. þm. að ég er alveg tilbúinn til þess að standa að samkomulagi við FSA. Það er enginn vandi að gera það en ég get ekki tekið undir að stjórnendur og starfsmenn á sjúkrahúsi Akureyrar eða annars staðar í opinberum stofnunum taki sér fjárveitingavaldið. Um það snýst málið, fólk er að taka sér fjárveitingavaldið. Það á að vera hjá Alþingi eins og hv. þm. eru sífellt að segja hér, m.a. í þessari umræðu.