Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 15:53:07 (451)

1997-10-14 15:53:07# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. og formanni fjárln. fyrir svörin og ég skil það svo að hv. þm. hafi verið að lofa því að fjárln. muni fara rækilega yfir málefni Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og reyndar sjúkrastofnana á landsbyggðinni almennt sem ég hef gert að umtalsefni. Ég treysti því að yfirferðin verði vönduð og menn taki þar sjálfstæðar ákvarðanir og fái að njóta sannmælis og reyni að rökstyðja þær og byggja á faglegum grunni. Það er nákvæmlega það sem þarf að gera í þessum efnum. Ég er sammála hv. þm. að það mikilvæga í þessu er auðvitað að reyna að nálgast þessi viðfangsefni frá réttum sjónarhóli, þ.e. að skilgreina þá þjónustu sem á að veita og eftir atvikum ákveða á faglegum grunni verkaskiptingu stofnana og ákvarða svo nauðsynlegar fjárveitingar til að ná fram þeim markmiðum sem þar með hafa verið sett en ekki öfugt. Það var það sem hv. stjórnarliðar létu hafa sig út í í fyrra, að byrja fyrst á því að ákveða niðurskurðinn og svo átti að velta því fyrir sér hvaða breytingar þarf svo að gera og hvernig er hugsanlega hægt að ná þessu fram. Svo reynist það auðvitað ekki hægt þannig að hugmyndir um 150 millj. kr. sparnað eða 120 fara ofan í 60 og svo koma fjáraukalög þar sem þessar 60 milljónir eru orðnar að 30 milljónum. Ætli það verði ekki orðið þannig um áramótin að þetta verði komið niður í núll. Ja, línuleg þróun í málinu stefnir á núll svona upp úr áramótum. Árangurinn er enginn vegna þess að þetta eru ekki vinnubrögð til þess að ná hlutunum fram. Það vantar hina faglegu nálgun og faglegu undirbyggingu.

Varðandi heilsugæslumál á Austurlandi þá var ég þar að vísa til að það hafa m.a. verið skert starfskjör fólks í heilbrigðisstéttum. Menn hafa verið að reyta að hluta til baka þætti sem voru komnir inn til þess að hægt væri að manna stöður í heilbrigðismálum eins og staðaruppbætur. Og hringlandaháttur og vandræðagangur í launamálum héraðslækna hefur leitt til þess að Austurland er nánast læknislaust fyrir utan þá staði þar sem eru sjúkrahús.