Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 15:55:32 (452)

1997-10-14 15:55:32# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:55]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að hluti af vandanum í heilsugæslunni á Austurlandi er sá að kjaramál heilsugæslulækna eru ekki leidd til lykta eftir niðurstöðu þeirra í kjarasamningum eftir verkfall í fyrra. Það er nauðsynlegt að kjaranefnd flýti starfi sínu sem hefur tekið allt of langan tíma. Ég legg sérstaklega áherslu á að í þau mál þarf að nást niðurstaða án tafar. Hins vegar er ljóst að sú niðurstaða ein dugir ekki til að tryggja þessi mál til frambúðar. Það þarf að huga að starfsumhverfi heilsugæslulækna. Ég hygg t.d. að nú orðið sé mjög erfitt að manna einyrkjastörf og einmenningshéruð í heilsugæslunni. Ég hygg að þar þurfi að leita leiða til breytinga. Þetta er starf sem ég veit að ráðuneytið hefur sett vinnu í og er verið að vinna að og m.a. hefur héraðslæknirinn á Austurlandi unnið fyrir ráðuneytið í tillögugerð í þessu sambandi og sú vinna er í gangi. Af því að heilsugæslan á að vera grunnþjónustan úti á landsbyggðinni og hefur verið það og menn eru vanir því er afar slæmt að hún sé ekki tryggð.