Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 15:57:50 (453)

1997-10-14 15:57:50# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[15:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Okkar bíður að ræða stöðuna í heilbrigðismálum ítarlega í umræðum utan dagskrár einhverja næstu daga, ræða það upplausnarástand sem ríkir í þeim málaflokki á allt of mörgum sviðum. Þar er eiginlega ekki eitt heldur nánast allt meira og minna upp í loft. Það nást ekki samningar um nokkurn skapaðan hlut. Stöður er ómannaðar og heil svæði eru án nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. Ekki er einu sinni hægt að ná samningum um rekstur Náttúrulækningahælisins í Hveragerði, hvað þá annað. En það ræðum við betur síðar.

Varðandi kjaramálin tek ég undir með hv. þm. að það er neðan við allar hellur að kjaranefndin skuli dratthalast við það enn þá að safna gögnum, að eigin sögn, mörgum mánuðum eftir að hún fékk þetta verkefni úr því að sú leið var valin að láta það í hennar hendur að úrskurða um laun héraðslækna. Það er engin frammistaða, það verður að segja það alveg eins og er. Þessi dráttur er hluti af óánægjunni sem leiðir til þess að menn segja upp og fara.

Í öðru lagi hafa ýmis önnur starfskjör verið rýrð. Það er staðreynd. Um það vitna menn þegar við þá er rætt um þá óánægju sem þarna kraumar undir. Ég minni á að þegar staðaruppbótin í einmenningshéruðunum var tekin upp í tíð vinstri stjórnarinnar á árinu 1989 eða 1990 mönnuðust í kjölfarið svo til öll læknishéruð á Norðausturlandi og Vestfjörðum og ég held bara um allt land vegna þess að þá veittu menn það fjármagn til starfseminnar sem var nauðsynlegt þannig að hún væri fyrir hendi. Það var aukinn skilningur á þörfinni fyrir afleysingar og vaktir og annað því um líkt sem fylgir aðstæðum af því tagi.

Spurningin er sú að lokum: Er pólitískur vilji til að veita þessa þjónustu eða ekki? Ef menn segja svo: Við viljum veita heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni verða menn að kosta því til sem þarf til að fá fólk þar til starfa. Svo einfaldur er sá hlutur og það þýðir ekkert að skjóta sér bak við einhvern kattarþvott í þeim efnum. Fyrst á að taka pólitíska grundvallarákvörðun. Eiga menn að njóta jafnréttis í þessum efnum eða vera skör lægra settir á grundvelli búsetu sinnar? Ef svarið er já verða menn að leggja næga fjármuni til þess að svo sé hægt.