Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 16:00:27 (454)

1997-10-14 16:00:27# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:00]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1997 og vil ég bæta nokkru við þá umræðu. Hins vegar liggur fyrir að fjárln. á eftir að fá frv. til skoðunar þannig að e.t.v. gefst betri tími eftir þá yfirferð til þess að ræða efni þess.

Fyrst, virðulegur forseti, vil ég segja að það er mjög mikilvægt að fram fari góð umræða í þinginu um fjáraukalagafrv. vegna þess að fjáraukalagafrv. er nokkur skoðun á þeirri vinnu sem fór fram á sinni tíð þegar fjárlög voru sett. Hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar verða að gera ráð fyrir því að þau frv. sem hér eru lögð fyrir, hvort sem þar er um að ræða fjárlagafrv. eða fjáraukalagafrv., geti tekið breytingum. Til þess erum við í þinginu að við eigum að fara yfir þau frv. sem koma, hvort sem þau eru lögð fram af einstökum þingmönnum eða hæstv. ríkisstjórn, og greina það sem þar er lagt til vandlega og fjalla um það og afgreiða eftir rækilega umfjöllun.

Það ánægjulega við frv. sem hér er lagt fram er að það sýnir afrakstur þeirrar vinnu sem hefur farið fram á vegum ríkisstjórnarinnar og sýnir afrekstur þeirrar stefnu sem hefur verið fylgt í ríkisfjármálum og kemur fram í bættum þjóðarhag. Frv. sýnir auknar tekjur vegna aukinnar veltu í þjóðfélaginu, meiri umsvifa og batnandi hags atvinnulífsins og einstaklinga sem kemur þá fram í hærri tekjum ríkissjóðs. Að vísu er það hárrétt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að viðskiptahallinn hefur valdið áhyggjum og veldur auðvitað áhyggjum, en fyrst og fremst veldur hann áhyggjum ef hann er vegna fjárfestingar eða eyðslu sem ekki skilar í framtíðinni hagnaði og afrakstri. En það vill þannig til að viðskiptahallinn er m.a. til kominn vegna þess að umsvifin í atvinnulífinu eru að aukast og inn í landið streyma tæki og tól sem eiga í framtíðinni eftir að styrkja stöðu okkar.

Á hinn bóginn sýnir frv. að auknar tekjur skapa okkur möguleika til að lækka skuldirnar og innkalla, eins og kemur fram í frv., ríkisskuldabréf til hagsbóta fyrir ríkissjóð, en sú aðgerð skiptir mjög miklu máli vegna þess að hún lækkar vaxtagreiðslurnar og er þess vegna mjög mikilvægt innlegg í stjórn ríkisfjármálanna. Þetta vil ég nefna sérstaklega vegna þess að slíka aðgerð höfum við ekki séð áður. Við höfum ekki verið að fjalla um það áður í þinginu að sú afkoma sé hjá ríkissjóði að fjmrh. geti efnt til aðgerða sem leiða til lækkunnar á vöxtum. Þetta vil ég undirstrika sérstaklega.

Viðfangsefni fjáraukalaganna er annars vegar að bregðast við eðlilegum og sjálfsögðum breytingum í ríkisrekstrinum sem má segja að jafnan sé nauðsynlegt að taka afstöðu til, þ.e. að útgjöld stofnana og aðila í ríkisrekstrinum aukast á ýmsan hátt þannig að við þurfum í fjáraukalögum að taka afstöðu til þess. Í langflestum tilvikum er um minni háttar frávik frá fjárlögum að ræða þannig að það er nánast afgreiðsluspursmál af hálfu þingsins að taka þá hluti til meðferðar. Á hinn bóginn erum við að fjalla um ný verkefni og það er að sjálfsögðu annars eðlis.

Þegar við lítum á ríkisfjármálin í heild sinni, metum stöðuna núna og horfum til þess sem hefur verið áður og sérstaklega þegar við erum að fjalla um fjáraukalög, þá hefur orðið geysilega mikil breyting og það veit ég að ýmsir hv. þm. sjá sem hafa nokkra reynslu á Alþingi. Áður var það þannig, og það þekki ég úr mínu fyrra starfi sem bæjarstjóri, að aukafjárveitingar og aukafjárlög lifðu sjálfstæðu lífi. Það þótti sjálfsagt að reyna að gera út á aukafjárveitingar þegar fór að líða á árið og m.a. þess vegna fór sem fór, m.a. þess vegna varð sá vandi sem við höfum síðan verið að glíma við í ríkisfjármálum, að það skorti festu og aðhald og aga í ríkisfjármálum. Og það er auðvitað grundvallaratriði hjá okkur að við eigum að undirstrika að það ríki nokkur agi í meðferð ríkisfjármuna.

Við 1. umr. fjárlaga sem fór fram fyrir nokkru gerði ég að umtalsefni þær breytingar sem hafa orðið með lögum um fjárreiður ríkisins. Ég lagði mjög mikla áherslu á að sú löggjöf ætti og hlyti að breyta í einhverju vinnubrögðum okkar. Ég nefndi tvö dæmi sem ég vildi nota til þess að undirstrika þessar breytingar. Annars vegar nefndi ég það dæmi sem varðaði ákvarðanir um að flýta framkvæmdum, í því tilviki í hafnargerð, sem þá höfðu ekki verið teknar neinar ákvarðanir um, en ég vildi nefna sem dæmi um aðgerð sem við stæðum öðruvísi frammi fyrir núna með breyttum lögum. Hins vegar nefndi ég dæmi um að tekin hefði verið ákvörðun um að stofna sendiráð í Helsinki. Viðbrögð við þessum ábendingum mínum hafa orðið nokkur og verð ég að segja alveg eins og er að það hefur valdið mér nokkurri undrun hversu hörð þau viðbrögð urðu af hálfu viðkomandi hæstv. ráðherra, í því tilviki hæstv. utanrrh. Ég hins vegar lít á það mjög alvarlegum augum ef þingmenn í umræðum um fjárlög og fjáraukalög hafa ekki fullt frelsi til þess að gera athugasemdir og benda á það sem okkur finnst að eigi að vera öðruvísi. Í því tilviki var ég í mestu vinsemd að vekja athygli á nýrri löggjöf sem ríkisstjórnin stóð fyrir að væri sett og vakti athygli á því að við þyrftum að vanda okkur hér og standa þannig að málum að eðlilegt samráð um niðurstöður yrðu viðhafðar.

Í þessari umræðu vakti hv. 4. þm. Vestf. athygli á því að ekki væri ástæða til þess að nefna sendiráðsmálið og það væri verið að kasta grjóti úr glerhúsi og nefndi viðgerðina á Stjórnarráðshúsinu. Og af því tilefni tek ég þetta mál upp hér. Þar er um grundvallarmun að ræða, algeran grundvallarmun og það er alveg nauðsynlegt að þingmenn átti sig á því. Annars vegar er um það að ræða að taka upp nýtt mál og svo hins vegar að bregðast við aðstæðum sem ekki voru fyrirséðar eins og viðgerðinni á Stjórnarráðshúsinu. Við höfðum fjallað um það hér í þessu þingi að gera við gamla Stjórnarráðshúsið. Það var auðvitað til fullkomins vansa hvernig það var og svo hefur auðvitað verið með mörg hús í eigu ríkisins þó samt sem áður hafi verið ráðin stór bót á því. Viðhald hefur verið að aukast. En viðgerðin á Stjórnarráðshúsinu hefur orðið allt önnur en fyrst var gert ráð fyrir, þ.e. húsið var miklu verr farið og það eru slíkar aðstæður sem við þurfum að meta og verðum að geta lagt sjálfstætt mat á. En þetta eru gjörsamlega ósambærilegir hlutir. Þetta vildi ég nefna.

Í þessari umræðu hefur verið minnst á rekstrarvanda sjúkrastofnana og það hefur verið nefndur samningur sem hefur verið gerður vegna rekstrarvanda og rekstrarhalla á stóru sjúkrahúsunum. Það ber að fagna því samkomulagi. Þar er gerð til raun til að koma stóru sjúkrahúsunum út úr þeirri krísu sem þau hafa verið í og það ber að fagna því að Reykjavíkurborg skyldi taka þátt í þessum samningum og þeirri niðurstöðu sem hefur orðið. En engu að síður vakti það nokkra athygli þegar fulltrúar Reykjavíkurborgar komu fyrir fjárln., að þá voru kynnt þau sjónarmið að e.t.v. lægi nú fyrir þegar að það vantaði nokkuð á umfram það sem samkomulagið gerði ráð fyrir. En þessi samningur er eitt af því sem hv. fjárln. þarf að taka til skoðunar og mun að sjálfsögðu taka til skoðunar. En á hitt er að líta að við erum í heilmiklum vanda. Það líður hratt á árið. 14. október er í dag og það þarf að hafa snör handtök til þess að afgreiða eða komast að niðurstöðu í þessum málum þannig að stjórnendur þessara stofnana viti að hverju þeir ganga.

Þá kem ég að því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þar hefur verið gerð grein fyrir því að nokkur vandi sé uppi. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austf., formanni fjárln., að í gegnum tíðina hefur staða Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri ekki verið vandamál. Það virðist hafa tekist mjög vel til með rekstur þeirrar stofnunar og menn hafa getað séð vel fyrir hvernig þyrfti að reka einstakar deildir þar þannig að innan ramma fjárlaga væri. En ég held að það sé óhjákvæmilegt að skoða málefni þeirrar stofnunar. Hins vegar held ég að nauðsynlegt sé að menn líti á rekstur þessara stofnana til lengri tíma en eins árs því að það gæti vel brugðið svo við að á næsta ári væri hægt að standa þannig að málum í einstökum stofnunum, og þar á meðal FSA, að afgangur yrði. Ég held því að það þurfi náttúrlega að líta á þetta mál í því ljósi og það vildi ég nefna hér.

Virðulegur forseti. Af mörgu er að taka en ég læt hér staðar numið og tel að við fáum gott tækifæri til þess, ekki síst við sem erum í fjárln., að fara betur yfir þau atriði sem eru í fjáraukalagafrv. sem hér er til umræðu.