Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 16:23:02 (459)

1997-10-14 16:23:02# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:23]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram að vissulega búum við við ákveðna breytingu við afgreiðslu fjáraukalaga, fjárlaga, framsetningu fjárlaga og afgreiðslu á ríkisreikningi. Þó ég hafi ekki verið hér í ýkjamörg ár, a.m.k. færri en margir hverjir, þá er það mikil breyting frá fyrstu árunum þegar ríkisreikningarnir voru lagðir fram í bunkum og afgreidd mörg ár í einu og vonlaust fyrir þingmenn að átta sig á því eða bera saman hvort þarna væri um raunhæfar tölur að ræða miðað við samþykkt fjárlagaheimilda hvers árs þannig að ég fagna þeirri breytingu sem hefur átt sér stað.

Hins vegar er það þannig með frv. til fjáraukalaga á hverju einasta ári að gamlir kunningjar einkenna það. Við erum aftur og aftur að taka á sömu þáttunum, sömu málaflokkunum, sömu stofnununum og enn og aftur með sama rökstuðningi. Það er mjög mikið vandamál. Vissulega koma upp tilvik þar sem um ófyrirséðan kostnað er að ræða og fjáraukalögin eru ætluð til þess að mæta honum. En mér finnst allt of algengt að þrátt fyrir að við höfum samþykkt lög sem fela í sér ákveðinn kostnað og kostnaðarauka er því ekki mætt í fjárlögum sem koma á eftir samþykkt slíkra frumvarpa heldur er frekar hugað að fjáraukalögum hvers árs. Þetta er auðvitað mjög rangt. Það vantar t.d. enn í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár ýmsa kostnaðarþætti sem búið er að samþykkja og fyrirsjáanlegt er að við þurfum að standa straum af og þá nægir að nefna hér mál eins og samþykkta fjölskyldustefnu og lög er varða réttindi sjúklinga, yfirlýsta stefnu í ofbeldis- og fíkniefnamálum og fleiri sem hægt er að taka þar á.

Það kemur líka á óvart að þrátt fyrir auknar kröfur --- og ekki bara kröfur heldur hefur öll sérfræðiaðstoð innan ráðuneyta verið aukin til þess að taka á stöðugri frammúrkeyrslu ef það má orða það svo. Ár eftir ár höfum við sett inn fjárveitingar til hagræðingar og til þess að taka einmitt á þessum þáttum erum við enn og aftur að fást við gamlan kunningja. Búið er að fara mjög vel yfir heilbrigðiskerfið og ég sé kunningja ekki bara síðustu tveggja, þriggja ára heldur síðustu 10 ára því að við erum að taka á sömu vandamálunum og voru 1987 þegar ég kom inn á þing. Ég held að það sé rangt sem hv. varaformaður fjárln. sagði að það væri nú búið að taka sjúkrahúsin í Reykjavík út úr þeirri krísu sem þau hafa verið í. Mér sýnist að það sé alls ekki. Þaðan af síður með heislugæsluna sem hefur verið haldið mjög strangt utan um undanfarin ár. Hún fær um 90 millj. kr. aukningu á fjárlögum næsta ár eða í frv. og þar er ekki tekið á þeim auknu verkefnum sem hefur stöðugt verið bætt á heilsugæsluna. Þrátt fyrir alla bæklingana sem við höfum í höndum um gæðastjórnun, verkefnavísa, samningsstjórnun o.fl. er árangurinn mjög takmarkaður. Ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir samþykkt á lögum um fjárreiður ríkisins, sem Alþingi tók sér þó nokkuð góðan tíma til þess að fjalla um áður en þau voru endanlega afgreidd hér, erum við aftur og aftur með sömu þættina. Mig langar til þess að rekja þetta aðeins út frá því fjáraukalagafrv. sem við erum með núna. Ég hafði hugsað mér að fara yfir heilbrigðiskerfið og það er fyrst og fremst vegna þess að það er önnur þeirra nefnda sem ég sit í. Ég á líka sæti í utanrmn. og það eru ótrúlegir þættir í utanríkisþjónustunni sem koma ævinlega á óvart, jafnvel þó þeir séu árvissir eða framkvæmdir annað hvert ár.

Núna er t.d. undir liðnum Sendiráð, almennt sótt um 101 millj. í viðbótarheimild. Rökstuðningurinn er: Annars vegar er lagt til að 95 millj. kr. verði varið til endurbyggingar á sendiherrabústaðnum í Washington. Ríkisstjórnin ákvað fyrr á þessu ári að ráðist yrði í endurbyggingu og viðhald hússins þar sem athugun leiddi í ljós verulegan galla á burðarþoli hússins. Hins vegar er farið fram á 6 millj. kr. aukafjárveitingu til kaupa á húsbúnaði og tækjum í skrifstofuhúsnæði sendiráðsins í Helsinki og fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg sem ríkisstjórnin ákvað að komið yrði á fót fyrr á þessu ári.

Áður hafði verið rætt um fastanefndina í Strassborg þannig að sú ákvörðun lá fyrir en ég tek undir það sem fram hefur komið hjá fleiri hv. þm., m.a. varaformanni fjárln., að ákvörðunin um stofnun sendiráðs í Helsinki kom held ég flestum á óvart. Mér þykir það nokkuð skrýtið þar sem fyrr á þessu ári skipaði hæstv. utanrrh. nefnd, sem er starfandi í utanrrn. og hefur verið starfandi, þar sem átti m.a. að taka ákvörðun um stefnu eða ákvörðun um það hvert við stefndum í þessum efnum, hvar væri æskilegt að setja á fót ný sendiráð og hvort þegar tekin er ákvörðun um stofnun nýs sendiráðs þýðir það þá hreina kostnaðaraukningu eða mætti draga úr annars staðar og breyta starfseminni. Eins og kemur fram í gagnrýni, sem hv. þm. Sturla Böðvarsson var með við afgreiðslu eða umræðu um fjárlögin, þá segir hann, með leyfi forseta, þar sem hann vitnar í 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins:

,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.`` ,,Telja verður afar hæpið`` segir hv. varaformaður fjárln., ,,að stofnun sendiráðs geti flokkast undir ófyrirséð atvik sem þoli ekki bið.``

Ég tek undir þetta sjónarmið hjá hv. þm. og ekki síður með tilliti til þess að sú nefnd sem ég á sæti í meðal annarra er að störfum í ráðuneytinu og þessi ákvörðun kom nefndarmönnum jafnmikið á óvart og öllum öðrum. Það hafði ekki verið rætt þar.

[16:30]

Ef við byrjum á fjáraukalögum fyrir árið 1995. Þar segir um utanrrn. undir liðnum Sendiráð, almennt, með leyfi forseta:

,,Farið er fram á aukna fjárheimild að fjárhæð 69,3 millj. kr. Í fyrsta lagi er áætlað að uppsöfnuð umframgjöld fastanefnda og sendiráða nemi nú um 50 millj. kr., en þau skýrast að mestu af því að sparnaðaráform í fjárlögum undanfarinna ára hafa ekki gengið eftir. Þar af eru 43 millj. kr. vegna greiðslustöðu síðasta árs, 14,1 millj. kr. bætast við í ár vegna breyttra aðstæðna hjá fastanefnd í Genf og búrferlaflutningum hjá sendiráðum í Washington og London, en á móti vegur 7,8 millj. kr. lækkun vegna hagstæðrar gengisþróunar á árinu. Í annan stað hefur ríkisskattstjóri úrskurðað að greiða beri tryggingagjald af staðaruppbótum starfsmanna sendiráða erlendis, en þær nema um 10 millj. kr. á ári, eða samtals 20 millj. kr. fyrir árin 1994 og 1995.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Með viðbótarframlaginu yrði allur halli þessara stofnana jafnaður og þar með gert ráð fyrir að starfsumfang þeirra á komandi árum haldist í hendur við þær fjárveitingar sem markaðar verða í fjárlögum.``

Þá kemur árið 1996 og þar segir um utanrrn. undir liðnum Sendiráð, almennt, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að veitt verði 14,5 millj. kr. viðbótarframlag vegna umframgjalda í rekstri sendiráða og fastanefnda. Utanrrn. gerði í upphafi ársins áætlun um að jafnvægi yrði milli útgjalda og fjárveitinga á árinu, enda var veitt 69,3 millj. kr. framlag í fjáraukalögum 1995 til að jafna uppsafnaðan rekstrarhalla. Síðan hefur komið fram kostnaður sem þær áætlanir gerðu ekki ráð fyrir, einkum hjá sendiráði Íslands í Brussel, París og`` --- enn einu sinni --- ,,Washington. Útgjaldaaukningin stafar að mestu af hækkunarákvæðum í húsaleigusamningum, breyttri samsetningu starfsmanna og fjölgunar starfsmanna frá öðrum fagráðuneytum. Gerð hefur verið sambærileg hækkun á framlögum til þessarar starfsemi í frv. til fjárlaga ársins 1997.``

Og það er sama árið og við erum að ræða núna með fjáraukalögum og gerir þar enn og aftur ráð fyrir verulegri hækkun.

Það er annað sem stingur sérstaklega í augu í þessu. Það er nú reyndar margt sem varðar utanrrn. en tíminn er takmarkaður og hægt að ræða þetta betur síðar. Í liðnum utanrrn., aðalskrifstofa, árið 1995, er t.d. farið fram á að kostnaður ráðuneytisins verði bættur,,... vegna heræfingarinnar Norður-Víkingur sem fór fram fyrr á árinu 2,3 millj. kr., en ekki var gert ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárlögum.`` Þetta er árið 1995. Hvað kemur svo árið 1997?

,,Sótt er um 11 millj. kr. aukafjárveitingu til að standa straum af kostnaði við varnaráætlana- og almannavarnaæfingarnar Samvörður, 7 millj. kr., og Norður-Víkingur, 4 millj. kr., en ekki var gert ráð fyrir honum í fjárlögum þessa árs.``

Hvernig í ósköpunum stendur á því að það gerist hjá einu ráðuneyti að það gerir sér ekki grein fyrir því að hér skuli fara fram heræfingar af þessu tagi? Er það bara ákvörðun sem dettur niður á borð hæstv. utanrrh. bara rétt um það bil sem æfingin á að eiga sér stað? Það er alveg með ólíkindum hvernig þessir kunningjar dúkka hér upp aftur og aftur.

Tökum annað dæmi. Árið 1996 er farið fram á í frv. til fjáraukalaga sem síðan var samþykkt undir liðnum Ýmis verkefni.

,,Sótt er um aukna heimild að fjárhæð 12 millj. kr. til að mæta áætluðum útgjöldum vegna forræðismáls Sophiu Hansen í Tyrklandi á þessu ári.``

Þessi tillaga var samþykkt. Hún var samþykkt. Hér er ég með ríkisreikning fyrir árið 1996 þar sem þessi 12 millj. kr. fjárveiting var samþykkt og ég get því miður ekki, virðulegi forseti, fundið í ríkisreikningi fyrir árið 1996 í hvað þessar 12 millj. kr. hafa farið. Þar stendur um þessi Ýmis verkefni og almennan rekstur: ,,Til einstaklinga, samtaka og heimila, 2,9 millj. kr., reikningur 1996, fjárheimildir 1996 1,7 millj. kr.`` Má vera að þetta sé fært undir ýmsa aðra liði. En það er kannski full ástæða til að þetta ágæta ráðuneyti, utanrrn., geri þá fulla grein fyrir því, í hvað þessir peningar fór og hvernig þeir voru nýttir þegar það kemur núna á daginn í fjáraukalagafrv. fyrir árið 1997 að: ,,Óskað er eftir 5,2 millj. kr. aukafjárveitingu vegna útgjalda sem hljótast af aðstoð ráðuneytis við forræðismál í Tyrklandi.`` Þarna erum við komin með 17,2 millj. verði þetta samþykkt sem ég vona að það verði. Þetta mál er ekkert sem dettur inn á borðið. Þetta er sjö ára gamalt. Það er ekki alveg ófyrirséð. Menn vissu um áramótin að þeir þyrftu að mæta þessum kostnaði. Menn vissu það við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1997 vegna þess að farið hafði verið fram á þessa aukafjárveitingu. En það er alveg lágmark þegar beðið er um viðbótarheimild, að gerð sé á skýran hátt grein fyrir því í hvað 12 millj. kr. fóru sem búið var að samþykkja sem aukaframlög áður. Svona vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar.

Ég var búin að fara á svipaðan hátt yfir það ráðuneyti eða þá starfsemi sem, eins og ég segi, þekki einna best miðað við fjárlög hvers árs, þ.e. starfsemi heilbrrn. En það eru auðvitað fleiri þættir sem hægt er að fara yfir á nákvæmlega sama hátt og nægir þar t.d. að nefna Hollustuvernd ríkisins hjá umhvrn. sem er gamall kunningi, held ég, allra þeirra sem hafa setið í fjárln. undanfarin ár. Þessi stofnun fékk á síðasta ári verulega hækkun á fjárlögum þess árs og tekið var fram að rétt eina ferðina væri þar verið að mæta uppsöfnuðum halla og nýjum verkefnum Hollustuverndar ríkisins. Það er ekki nema von að menn hafi ekki áttað sig á nýjum verkefnum sem auðvitað voru alveg ófyrirséð. Þau voru samþykkt með EES-samningnum sem var samþykktur 1992. Það er ekki nema von að menn hafi ekki áttað sig á því enn hvaða verkefni fylgdu honum. Það er nú ekki nema von að það liggi ekki ljóst fyrir enn. En þrátt fyrir rökstuðninginn sem er í frv. til fjárlaga fyrir þetta ár, fyrir árið þar áður og fjáraukalögin, þá er þetta enn komið hér, með leyfi forseta:

,,Óskað er eftir 11,4 millj. kr. viðbótarframlagi til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla sem Hollustuvernd ríkisins hefur átt við að etja undanfarin ár, en verkefni stofnunarinnar hafa farið vaxandi, m.a. vegna ýmissa tilskipana Evrópusambandsins. Að frátöldum þessum halla er gert ráð fyrir að rekstur stofnunarinnar verði innan fjárheimilda á þessu ári.``

Það er, virðulegi forseti, fróðlegt að skoða og bera saman það sem farið er yfir í grg. frv. til fjárlaga. Það er mjög þakkarvert að greinargerðir fjárlagafrv. hvers árs eru orðnar ítarlegri og farið betur þar yfir ýmsar stofnanir en áður var gert. En í grg. með frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 --- og þessi tillaga var samþykkt --- segir, með leyfi forseta:

,,Framlag til Hollustuverndar ríkisins hækkar um 22,4 millj. og verður 130,7 millj. kr.``

Síðan er þess getið að farið hafi verið alveg sérstaklega yfir þennan rekstur. En það sem kemur mér hvað enn meira á óvart er hluti af þessari fjárhæð sem kemur á hækkun fyrir þetta ár, 1997. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að lokum er í samkomulaginu lögð til 15 millj. kr. hækkun í frv. en af þeirri fjárhæð eru 8 millj. kr. bundnar við árið 1997 og skal koma til skoðunar við gerð fjárlaga fyrir árið 1998.``

Síðan kemur auðvitað á árinu 1998 eðlileg hækkun. Ofan á þessa heimild er síðan verið að biðja um þessa aukafjárveitingu. Verkefni þessarar stofnunar sem og margra annarra stofnana ríkisins eru þekkt og við erum hér að samþykkja lög og reglur sem fela þessum stofnunum mjög mikilvæg verkefni. Ég efast ekkert um það eitt augnablik að Hollustuvernd ríkisins hefur mjög mikilvægum verkefnum að sinna. En það náttúrlega getur ekki gengið svona ár eftir ár að þingheimi sé þá ekki gert ljóst við afgreiðslu fjárlaga hvers árs hver raunverulegur kostnaður þessara verkefna er. Það getur einfaldlega ekki gengið upp.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn en ég vil aðeins ítreka varðandi þessi tvö ráðuneyti, þessar stofnanir og þá kannski fyrst og fremst það sem snýr að utanrrn., að í því sem ég hef rakið frá 1995 --- ég hefði, virðulegi forseti, getað tekið fjáraukalög miklu lengra aftur í tímann --- er alls staðar og alltaf sama sagan. Á þessu verður að taka.