Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 16:47:12 (463)

1997-10-14 16:47:12# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:47]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru ómerkilegar aðdróttanir. Að draga þetta mál inn í umræðuna er einfaldlega gert vegna þess að í frv. til fjáraukalaga fyrir þetta ár er óskað eftir 5,2 millj. kr. aukafjárveitingu vegna málsins. Það er bara þannig, hafi hv. þm. ekki kynnt sér það, og áður hefur farið fram umræða og meðal þingmanna er einhugur enda var það þannig við afgreiðsluna á 12 millj. kr. aukafjárveitingunni á síðasta ári. Það var einhugur. En það segir sig samt sjálft að það er eðlilegt að það sé hugsað til þess hver þessi kostnaður er þegar við sjáum það ekki beint í ríkisreikningi. Ég veit að utanrrn. hefur veitt Sophiu Hansen mjög mikinn styrk, ég veit það og ég veit að sérstaklega einn sendiherra, Ólafur Egilsson, hefur staðið sig með afbrigðum vel í þessu máli. Það hefur enginn dregið í efa. En að fara með aðdróttanir eins og hv. þm. gerir er engum til sóma.