Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 16:48:39 (464)

1997-10-14 16:48:39# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:48]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Virðulegur forseti. Það var kominn tími til að snúa blaðinu við í rekstri ríkissjóðs. Mörg undanfarin ár hefur hann því miður verið rekinn með halla og því er gleðilegt að afkoma hans er nú betri en ráð var fyrir gert í fjárlögum fyrir árið 1997 sem nemur 2,7 milljörðum. Það er líka gleðilegt að þess vegna skuli vera hægt að innkalla spariskírteini þó að það kosti 4 milljarða nú til þess að létta á vaxtagreiðslum og fjármagnskostnaði í framtíðinni.

Þó svo að það bókhald sem við notum núna sýni ekki hallalaus fjárlög er þessi aðgerð betri en að sýna hallalaus fjárlög þegar við getum gert þetta sem nýtist okkur svo vel í framtíðinni. Eins og fram hefur komið í umræðunni hafa áætlanir í fjárlagagerðinni verið að batna en það var t.d. gert ráð fyrir 3,5% launahækkunum á árinu en þær fóru 500 millj. kr. fram úr því. Við þessu er ekki hægt að sjá og þess vegna er nauðsynlegt að leggja fram fjáraukalög til þess að leiðrétta slíkt.

Ég get tekið undir að margt af því sem kemur fram í fjáraukalagafrv. ætti að vera fyrirséð. Má kannski segja að sum ráðuneyti skeri sig frekar úr þar en önnur. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem menn hafa verið að reyna að bæta og þarf að gera enn betur í því. Sumar af þeim breytingum sem koma fram í fjáraukalagafrv. eru nánast tæknilegar og má þar nefna nokkur atriði eins og spilliefnasjóð sem kemur inn bæði tekju- og gjaldamegin þar sem gert er ráð fyrir 50 millj. kr. tekjum en 53 millj. kr. útgjöldum þannig að kostnaðarauki af því eru 3 millj. kr.

Önnur atriði eru eins og löggildingarstofan þar sem svipuð rök eiga við. Markaðar tekjur til vegagerðar hafa aukist um 215 millj. kr. og það var reyndar búið að gera ráð fyrir 150 millj. af því við gerð vegáætlunar á vorþingi en til viðbótar koma núna 65 millj.

Orð hv. 5. þm. Vestf. um vegaframkvæmdir á Skeiðarársandi komu mér nokkuð á óvart. Við búum í landi elds og ísa og verðum að geta brugðist við óvæntum náttúruhamförum. Það er bara einu sinni svo að þetta er það sem yfir okkur dynur. Þegar farið var að hanna brúna yfir Gígjukvísl í sumar kom í ljós að skynsamlegt væri að hafa hana heldur öflugra mannvirki en gert hafði verið ráð fyrir í vor. Auðvitað er skynsamlegt að bregðast við því og bæta við inn í þennan pakka til þess að hægt sé að byggja það mannvirki sem við getum ímyndað okkur að komi til með að duga þegar slíkar hamfarir bresta á aftur.

Ég er hins vegar sammála hv. 5. þm. Vestf. um að það er heldur hvimleitt að það skuli þurfa að nota þessar aðferðir við að reyta 60 millj. kr. af landsbyggðarsjúkrahúsunum. Ég held að það hefði mátt nota aðrar aðferðir, undirbyggja þá aðgerð betur sem þarna var gerð. Það segir sig sjálft að þessar aðferðir valda miklu óöryggi og óróleika hjá starfsfólki og sjúklingum sem er alger óþarfi ef öðruvísi er unnið að málunum.

Ég tel einnig rétt að vekja athygli á því að það á eftir að skipta sparnaðinum niður á sjúkrahúsin. Það er ekki gert í frv. þannig að ætlast er til að það komi inn í vinnu fjárln. og mun hún væntanlega fá tillögur þar um inn á sitt borð. Hins vegar er ljóst að þó að þessar aðferðir hafi verið notaðar við sparnaðartillögur hafa stjórnendur landsbyggðarsjúkrahúsanna brugðist vel við með því að fara í mikla vinnu við endurskipulagningu sem er í sjálfu sér gott. Þeir hafa farið í gegnum sinn rekstur, sem skilar sér væntanlega í einhverjum sparnaði. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að skilgreina þá þjónustu sem á að fara fram á þessum sjúkrahúsum og reyna að veita fé til hennar samkvæmt því og tryggja hana. Það segir sig sjálft að í tímans rás breytast aðstæður og samgöngur batna og ekki byggjum við upp hátæknisjúkrahús alls staðar. Við verðum að líta á þau sem sterkar og miklar stofnanir en einhverja þjónustu verðum við að veita út um land sem er nauðsynlegt að skilgreina mjög vandlega.

Ef sú aðferð eða aðgerð sem er kölluð fram varðandi sparnað á landsbyggðarsjúkrahúsunum verður að veruleika er algerlega nauðsynlegt að taka á þeim uppsafnaða halla sem er á sjúkrahúsunum. Í ljós hefur komið og upplýsingar komu um það til fjárln. að á þeim mörgum hverjum er uppsafnaður halli til margra ára. Við því verður bregðast ef á að nota þessar aðferðir við það að skera niður þá verður að ljúka fyrri rekstrarárum þannig að til þeirra komi fé til þess að klára þennan halla.

Fjárln. mun væntanlega taka þessi mál til umfjöllunar ásamt öðrum erindum sem eiga eftir að koma í ljós fram að afgreiðslu frv. í þinginu. Ráðuneytin hafa nú þegar komið með erindi til fjárln. og kynnt þau sem nauðsynlegt er að taka á. Þar eru mörg úrlausnarefni sem við verðum að leysa sem hafa ekki ratað inn í fjáraukalagafrv. en fjárln. mun væntanlega vinna úr þeim þegar að því kemur.