Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 17:07:49 (467)

1997-10-14 17:07:49# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[17:07]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf skemmtilegt þegar hv. þm. birtist í salnum og heyrir eitthvað sem hann telur að sé andstyggilegt og að hann þurfi að koma hér til andsvara.

Það vill svo til ég var í ræðu minni --- en það hefur áreiðanlega farið fram hjá hv. þm. --- að taka undir sjónarmið formanns Alþb. En ég skil núna eftir ræðu hv. þm. hvers vegna þingflokkurinn heitir þingflokkur Alþb. og óháðra. Það virðist liggja í því að sumir eru óháðari formanni Alþb. en aðrir.

Það sem málið snýst um er að ár eftir ár hefur það gerst að útgjöld Hollustuverndar ríkisins hafa vaxið og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gerði athugasemdir við það. Það eina sem ég var að segja hér, að minnsta kosti var það aðalatriði málsins, var að það væri spurning hver ætti að borga þennan kostnað. Mín niðurstaða var sú að það gæti í sumum tilvikum verið heppilegra að kostnaðurinn væri greiddur af neytendum fremur en skattgreiðendum. Í vissum tilvikum þyrftu menn jafnvel að kanna hvort ástæða væri til að eltast við allt það sem að utan kemur, jafnvel þótt í mörgum tilvikum sé það gott. Ég sagði að nefnd væri að starfa að þessum málum. Þetta er auðvitað áhyggjuefni víða um lönd því að vissulega, og það er kannski aðalatriði málsins fyrst hv. þm. vekur athygli á því, þarf að átta sig á því að stofnanir eins og þessi eru til þess að hjálpa okkur til að taka ákvarðanir um það hvers við neytum en ekki til að ala önn fyrir ríkisstarfsmönnum.