Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:23:02 (478)

1997-10-14 18:23:02# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er hlýtt til hv. þm. Guðna Ágústssonar. Ég hef oft fundið til með honum eftir að hann tók þátt í því að styðja núv. ríkisstjórn. En ég hef í rauninni aldrei vorkennt honum eins og undir þessari umræðu. Ég veit að hv. þm. gengur ekki nema gott til og ég veit að hann er einn af þeim þingmönnum í stjórnarliðinu og kannski sérstaklega í Framsfl. sem bera hag eldri borgara hér á landi hvað mest fyrir brjósti. Honum líður illa vegna þess að hann sér fyrir sér feril ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. benti á að Alþfl. hefði tekið þátt í því að skerða kjör aldraðra borgara. Það er alveg rétt að í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar um var að ræða einhverja dýpstu og lengstu efnahagskreppu þurftu menn að grípa til margvíslegra aðgerða. Ég er ekkert stoltur af því. Ég gæti jafnvel litið til baka og sagt að menn hefðu gengið of langt.

Svo vill til að hv. þm. er í þeim flokki sem sendir hverjum einasta manni í Reykjavík yfir 67 ára að aldri bréf fyrir síðustu kosningar þar sem aðgerðir Alþfl. voru einmitt fordæmdar og þar var því lýst yfir að nú yrði horfið af þeirri braut. Hvað hefur gerst? Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur talið upp lið fyrir lið sem Framsfl., með þeim ráðuneytum sem hann hefur í dag, hefur hefur alls ekki skrúfað til baka heldur hefur hann skrúfað þessar skrúfur fastar. Það er þess vegna sem hv. þm. líður illa.

Hann vill að gamla fólkið í landinu fái hlutdeild í góðærinu, ég trúi því alveg. Hvernig stendur þá á því að hann treystir sér ekki til að endurvekja aftur þessa lögfestu tengingu á milli launaþróunar í landinu og greiðslna úr almannakerfinu? Ekkert hefur reynst eldri borgurum landsins jafnmikil vörn fyrir kaupmátt og nákvæmlega það. Ef hv. þm. hefur þennan góða vilja þá spyr ég hann hvers vegna hann getur ekki komið upp og lýst því yfir sem ég veit að býr honum í brjósti, að hann styðji þetta mál?