Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:43:01 (485)

1997-10-14 18:43:01# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:43]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur margt verið sagt sem er fullrar athygli vert og ég tek undir að vissulega þurfum við að skoða mál aldraðra frekar en gert hefur verið og við stjórnarþingmenn þurfum að leita leiða til sátta hvað varðar þennan hóp.

Eitt var það þó sem kom fram í ræðu hv. þm. fyrr í kvöld þegar hann sneri orðatiltækinu ,,búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld`` upp á ríkisstjórnina. Málið er hins vegar það, og fleiri hafa fallið í þessa villu, að fyrir nokkrum árum kom happdrætti DAS, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, fram með þetta slagorð þar sem mönnum var bent á að þeir sem styddu þetta framtak um byggingu dvalarheimilis aldraðra mundu um leið og þeir keyptu miða í happdrætti dvalarheimilins styðja þá starfsemi og þann félagsskap sem að þessu máli stóð með þeim hætti að um leið og menn kæmu á dvalarheimili aldraðra væri þeim búið áhyggjulaust ævikvöld. Þannig var lagt upp með þetta á sínum tíma sem svo margir eins og síðasti ræðumaður hafa snúið upp á ríkisstjórnina. En það voru sjómannasamtökin sem notuðu þetta slagorð til þess að fá Íslendinga til að taka þátt í að standa við bakið á þessu ágæta og merka framtaki fyrirrennara minna. Ég held að þessum málum væri kannski öðruvísi háttað í dag hvað áhrærir heimili fyrir aldraða, bæði hjúkrunarheimili og vistheimili ef þessi samtök hefðu ekki staðið fyrir þessu framtaki.