Almannatryggingar

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 18:45:22 (486)

1997-10-14 18:45:22# 122. lþ. 8.8 fundur 15. mál: #A almannatryggingar# (launaviðmiðun lífeyrisgreiðslna o.fl.) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[18:45]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég viðurkenni og þakka fyrir umhyggju hv. þm. gagnvart fullorðnu fólki því ég veit að hún er einlæg. Hann hefur sýnt hana bæði í ræðu og riti og ekki hvað síst í störfum sínum. Hann nefndi sérstaklega Dvalarheimili aldraðra sjómanna og þá stefnu sem hefur verið rekin bæði af honum og forverum hans. Hins vegar vil ég benda hv. þm. á að við erum hér að tala um ríkisstjórnarstefnu flokks hans. Þótt svo að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sé fullur samkenndar gagnvart eldri borgurum og telji að það þurfi að gera betur þá er það ekki stefna Sjálfstfl. í reynd. Hún birtist í fjárlagafrv. Hún birtist hjá fjmrh. Þessi stefna mannúðar sem einkenndi Sjálfstfl. kannski á árum áður, ekki bara gagnvart öldruðum heldur öðrum, er horfin. Ég veit að hv. þm. veit að stefna Sjálfstfl. birtist í ríkisstjórnarstefnunni, í fjárlagaafgreiðslunni. Hinn harði heimur markaðshyggjunnar á sviði velferðarmála sem blasir við okkur hvert fótmál er stefna Sjálfstfl., en ekki hin fallegu einlægu orð hv. þm. sem hann flutti hér áðan heldur stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem hann styður með atkvæði sínu þegar á reynir. Þess vegna finnst mér stundum miður að góðir þingmenn, sem ég veit að eru einlægir og tala fyrir málefnum sem a.m.k. mér eru kær, skuli ekki hafa meira vægi og meiri þunga í sínum eigin flokki. Ég tel það miður alveg burt séð frá pólitískum línum sem eru á milli okkar.