Umboðsmaður barna

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 19:22:36 (490)

1997-10-14 19:22:36# 122. lþ. 8.15 fundur 59. mál: #A umboðsmaður barna# (ársskýrsla) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[19:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér tillögu um að embætti umboðsmanns barna verði þyngt verulega. Ég tel að því verði verulega lyft ef það verður gert að lögum að skýrsla embættisins verði á hverju ár lögð fyrir hið háa Alþingi og rædd þar. Þá er spurningin þessi: Verðskuldar þetta embætti það? Er það í þágu þess málstaðar sem það þjónar að það verði gert? Ég tel að svo sé. Ég er algerlega sammála þessari tilögu. Ég hef lesið þessa skýrslu sem er önnur skýrslan sem kemur frá embætti umboðsmanns barna og ég verð að segja að mér finnst verulegur fengur að þeim fróðleik sem þar er ða finna. Ég hef reyndar, með því að fylgjast örlítið með starfi þeirrar ágætu konu sem gegnir embættinu, tekið eftir því að í hverju málinu á fætur öðru hefur embættinu tekist að bæta rétt barna og ungmenna. Ég hef líka orðið þeirra gæfu aðnjótandi að fá aðstoð Þórhildar Líndal, umboðsmanns barna, í störfum þeirrar nefndar sem ég gegni forstöðu, en hún kom einmitt á fund nefndarinnar þegar við fjölluðum um réttindi sjúklinga og kom með margar mjög mikilvægar ábendingar sem allar, held ég, voru teknar til greina um þá kafla þess frv. sem laut einmitt að réttindum barna.

Ég segi eins og hv. þm. að í skýrslunni er drepið á fjölmörg mál sem sýna að miklu víðar er brotinn pottur þegar réttur barna og ungmenna er annars vegar heldur en ég hélt áður. Ég vissi t.d. ekki fyrr en ég las þessa skýrslu að það tíðkaðist að foreldrar og venslamenn barna og ungmenna gerðu börn að ábyrgðarmönnum skulda sinna gagnvart lánastofnunum og það hafði leitt til þess í nokkrum tilvikum að gert var fjárnám í eigum barna sem ekki eru orðin sjálfráða. Þetta er auðvitað þvílík ósvinna að það er með ólíkindum. Þetta vissi ég ekki. En umboðsmaður barna hefur tekið á þessu máli á mjög röggsaman hátt sem hefur leitt til þess að bankarnir hafa séð að sér og þetta er ekki gert lengur.

Eins varð umboðsmaður barna þess valdandi að sérstök samstarfsnefnd á vegum Sambands ísl. viðskiptabanka og Sambands sparisjóðanna hefur núna nýlega lokið gerð reglna um það hvernig eigi að fara með fármuni sem eru inni á reikningum barna. Dæmi voru um að venslamenn tóku þessa fjármuni út einfaldlega vegna þess að þeir gátu það. Sömuleiðis var vísað til embættisins ábendingum varðandi notkun debetkrota sem börn og ungmenni fengu útgefin af bönkunum og ég tel að það hafi fyrst og fremst verið fyrir atbeina embættisins að bættar voru þær reglur sem um þetta giltu og komið var í veg fyrir að hægt væri að gefa út slík kort með þeim hætti sem þá var gert.

Ég hjó líka eftir því við lestur skýrslunnar að umboðsmaðurinn hafði farið grannt yfir margvísleg lög sem tengjast á einhvern hátt réttindum barna og ungmenna og komst að þeirri niðurstöðu að í mjög mörgum tilvikum væri nauðsynlegt að breyta ákvæðum þessara laga til þess að þau samrýmdust ákvæðum barnasáttmála sem við höfðum staðfest. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt og ég get þess reyndar, herra forseti, að þingflokkur jafnaðarmanna hyggst á þessu þingi endurflytja þáltill. um að ríkisstjórnin fari í það að kanna hvernig þurfi að breyta lögum og hrinda því verki síðan í framkvæmd.

Ég hef sjálfur á þessu þingi nú þegar mælt fyrir þáltill. um öryggismiðstöð barna og þó að umboðsmaður barna hafi ekki tekið sérstaklega á því, þá hegg ég eftir því í skýrslunni að víða hefur hún komið með mjög gagnlegar ábendingar sem varða einmitt þróun slysa hjá börnum. Ég nefni til að mynda sérstaklega þá válegu þróun íþróttaslysa sem gætir hér á landi. Hún hefur vakið máls á því gagnvart íþróttahreyfingunni hvernig rétt sé að taka á slysatryggingum barna. En eins og hefur margsinnis komið fram þá verður það því miður æ tíðara að börn bíði varanlegan skaða af þátttöku sinni í íþróttum, kappleikjum, og þá er spurningin hver á bæta þeim hann. Íþróttahreyfingin hefur tekið ábendingum hennar sem hún hefur sent þeim bréflega, mjög vel og nú er í gangi samstarfshópur sem á að skila tillögum um þetta.

Það er í rauninni ekki nema eitt sem ég get fundið að við embætti umboðsmanns barna og það er að ég tel að embættið hafi ekki sinnt því nægilega vel að koma tilvist sinni á framfæri við börn. Börnin geta hringt til embættisins og gera það. Þau geta líka haft samband við það bréflega til þess að koma á framfæri ýmiss konar umkvörtunum, stundum varðandi mjög alvarlega hluti eins og hv. þm. gat um.

Þegar maður les skýrsluna, þá er eitt sláandi, þar sem brotið er niður eftir landshlutum hvar börnin eru staðsett á landinu sem hafa samband, að í þeim tveimur landshlutum sem umboðsmaður barna fór í heimsókn til og fór í skóla til þess að kynna starfsemi embættisins, koma langflest umkvörtunarefnin. Þaðan eru flest börnin sem hafa samband við embættið. Þetta er Norðurland vestra og Austurland þar sem mig minnir að embættið hafi haft málþing með þátttöku barna á Egilsstöðum. Í þessum þingsölum hættir okkur oft til þess að líta á börn sem afgangsstærð, kannski vegna þess að við höfum í ríkum mæli litið á æskuna sem eins konar aðdraganda að því skeiði lífsins sem við erum stödd á, skeiði hins fullorðna. En umboðsmaður barna hefur einmitt í ræðu og riti bent á það að til þess að sýna börnum sem sjálfstæðum einstaklingum nægilega virðingu, þá verðum við að líta á æskuna sem sjálfstætt lífsskeið. Þetta var framandi hugsun fyrir mér en þegar ég velti vöngum yfir þessu, þá hef ég orðið þessu æ meira sammála. Ég held líka að ýmiss konar fylgigögn, ítarefni sem er að finna í skýrslunni, ýmsar ræður sem umboðsmaðurinn hefur flutt og hafa sumar að geyma ýmsar heimspekilegar hugleiðingar um stöðu barnsins í okkar samfélagi, séu afskaplega þarfur lestur fyrir okkur þingmenn.

Ég segi fyrir sjálfan mig að augu mín opnuðust varðandi fjölmargt sem betur mætti fara í tengslum við börn, umgengni okkar við börn og þann rétt sem Alþingi hefur búið börnunum.

Ég sagði í upphafi máls míns að frv. fæli í sér spurninguna: Er réttmætt að lyfta embætti umboðsmannsins á þann stall sem óneitanlega er gert með því að gera það að lagalegri skyldu að við ræðum skýrslu embvættisins á hverju ári? Ég tel eftir að hafa lesið þessa einu skýrslu að það sé engin spurning að það beri að gera. Ég held að þetta sé eitt af mestu framfarasporum sem stigið hefur verið a.m.k. varðandi þennan hóp þegnanna á síðustu árum. Ég held að embættið hafi mjög oft átt frumkvæðið að umræðu sem hefur opnað augu okkar sem stundum eru í allt of litlum tengslum við lífið utan þessara veggja. Ég held að það sama gildi reyndar um fjölmarga aðra, foreldra og fullorðna einstaklinga í þjóðfélaginu, að starfsemi embættisins hefur vakið athygli og hefur einmitt beint sjónum þeirra sem fara með forsjá barna að ýmsu því sem aflaga fer. Ég held að það væri öllum þingmönnum þarft að eiga kost á því að taka þátt í umræðu um þetta. Ég vil líka segja, herra forseti, að ég tel að þeirri ágætu konu sem ég þekki að öðru leyti ekki neitt sem gegnir þessu embætti hafi tekist mjög vel að gera embættið sjálfstætt. Hún hefur tekið á málefnum þess og umbjóðenda sinna, barnanna í þessu þjóðfélagi, af þrótti og festu án þess að fara með lúðrablæstri og ég held einmitt að þessi hógværi málflutningur sem hefur einkennt embættið hafi náð eyrum mjög margra.

Þess vegna segi ég það fyrir mína hönd og míns þingflokks að við munum styðja það að frv. verði gert að lögum á þessu þingi.