Umboðsmaður barna

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 19:37:49 (493)

1997-10-14 19:37:49# 122. lþ. 8.15 fundur 59. mál: #A umboðsmaður barna# (ársskýrsla) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[19:37]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég vil einnig með nokkrum orðum þakka hv. 1. flm., Kristjönu Bergsdóttur, fyrir framtakið og vinnuna að þessu máli og ég vona sannarlega að það nái fram að ganga að skýrsla umboðsmanns barna verði tekin til umræðu á Alþingi á hverju ári. Skýrslan er ágæt en fjölmiðlaumræðan í kjölfar birtingar skýrslunnar var ankannaleg og hún var líka afkáraleg, nánast að segja ábyrgðarlaus. Mér fannst fjölmiðlarnir algerlega bregðast skyldu sinni í umfjöllun um skýrslu umboðsmanns barna núna eftir að hún kom fram.

,,Börn eru ekki þrýstihópur``, segir í greinargerð hv. þm. Kristjönu Bergsdóttur. Það er öldungis rétt. Nú eru engir á þingpöllunum. Nú eru fáir eftir í salnum. Dagskrármálið sem var hér næst á undan um málefni og kjör aldraðra vakti upp ræður þar sem ætla hefði mátt að eingöngu gamalt fólk ætti erfitt í þessu þjóðfélagi. Vissulega eru þeir til meðal aldraðra en svo er í öllum aldursflokkum og í flestum þjóðfélagshópum. Sumir aldraðir búa við erfið kjör. Sama gildir um ungar fjölskyldur, fráskilið fólk með börn á framfæri og einstæðingar. Allt þetta fólk ber okkur skylda til að muna og vinna fyrir. Og ekki megum við á löggjafarsamkomunni unna okkur hvíldar meðan einhverjir eiga erfitt í þjóðfélaginu og á okkar valdi er að leysa úr. Það er á okkar valdi oft og einatt þótt stundum taki það tíma. Það má hins vegar ekki vaxa okkur í augum. Ég minni á það um leið að hver einstaklingur ber sína ábyrgð og getur lagt til mála.

Vanlíðan barna í skóla eða utan er stundum átakanleg og kemur öllum við. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum kom til mín faðir barns á fyrstu árum þess í skóla og sagði mér það af biturri reynslu að hann teldi að mesti sadisminn sem ætti sér stað og væri til í þjóðfélaginu, ætti sér stað í frímínútum á skólalóðum. Mér þóttu þetta þung orð en sjálfur þekkti ég dæmi um slíkt og hef ekki getað vikið þessu allsendis frá mér. En hvar svo sem ofbeldi á sér stað gagnvart börnum ber að stöðva það með þeim faglegu ráðum sem við best þekkjum. Þessi mál eru oft flókin og ekki auðleyst þannig að til frambúðar sé.

Það má líka minna á að afskiptaleysi, vanræksla og sinnuleysi, jafnvel hinna nánustu og kannski ekki síst gagnvart börnum, er alvarlegt og sárt til þess að vita og ég óttast að slíkt sinnuleysi um blessuð börnin fari vaxandi í einhverjum tilvikum.

Ég þakka hv. 1. flm. þessa máls fyrir framtakið að vekja athygli á réttindum barna og aðstæðum og vona að það nái fram að ganga, að skýrsla umboðsmanns barna fái umfjöllun hér á Alþingi á hverju ári.