Minnst Friðjóns Sigurðssonar

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 13:30:52 (495)

1997-10-15 13:30:52# 122. lþ. 9.1 fundur 52#B minnst látins fyrrverandi skrifstofustjóra Alþingis#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[13:30]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Friðjón Sigurðsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, andaðist í gær, þriðjudaginn 14. október. Hann var áttatíu og þriggja ára.

Friðjón Sigurðsson var fæddur í Vestmannaeyjum 16. mars 1914. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Ingimundarson, útgerðarmaður og skipstjóri þar, og Hólmfríður Jónsdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1934 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 1941. Haustið 1941 var hann settur sýslumaður í Strandasýslu í forföllum sýslumanns og gegndi hann því starfi til hausts 1943. Eftir það var hann nokkra mánuði starfsmaður í Skömmtunarskrifstofu ríkisins. 1. mars 1944 varð hann fulltrúi í skrifstofu Alþingis og 1. júlí 1956 varð hann skrifstofustjóri Alþingis. Því starfi gegndi hann til hausts 1984. Jafnframt starfi skrifstofustjóra var hann ritari hjá Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins frá 1956 og ritari hjá Íslandsdeild Norðurlandaráðs frá 1957.

Friðjón Sigurðsson starfaði í skrifstofu Alþingis rúma fjóra áratugi. Allan þann tíma rækti hann störf sín af alúð og festu, afkastamikill og ósérhlífinn. Alþingismönnum og ekki síst forsetum Alþingis var hann jafnan traustur og hollur ráðgjafi.

Ég bið viðstadda að minnast Friðjóns Sigurðssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]