Fæðingarorlof feðra

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 13:34:42 (497)

1997-10-15 13:34:42# 122. lþ. 9.2 fundur 75. mál: #A fæðingarorlof feðra# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[13:34]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til fjmrh. um fæðingarorlof feðra. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að feður í starfi hjá ríkinu ættu sjálfstæðan rétt til launa í tveggja vikna fæðingarorlofi var kynnt í lok síðasta mánaðar. Spurning mín lýtur að því hvort hér sé um að ræða rétt allra feðra sem eru í starfi hjá ríkinu án tillits til þess í hvaða stéttarfélagi þeir eru. Þegar ný lög voru sett fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, rökstuddi hæstv. fjmrh. nýja löggjöf með því að segja, og nú vitna ég beint til ræðu ráðherrans, með leyfi forseta:

,,að með þeim tillögum um breytingar sem fyrir liggja er gert ráð fyrir að allir starfsmenn ríkisins sitji við sama borð hvað réttindi og skyldur áhrærir. Nú er það svo að starfsmaður ríkisins sem er t.d. iðnaðarmaður og félagsmaður í ASÍ nýtur ekki sömu réttinda og starfsmaður sem er í BSRB. Þetta fólk vinnur hlið við hlið í þjónustu fyrir landsmenn ... Hér er því um mikilvæga réttarbót að ræða fyrir þá einstaklinga í starfi hjá ríkinu sem ekki hafa fallið undir gömlu lögin um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna.``

Þetta sagði ráðherrann þá og svo mörg voru þau orð. Og því skyldi maður ætla að nú gilti einn siður fyrir alla starfsmenn ríkisins. En nei. Miðað við reynslu t.d. starfsmannafélagsins Sóknar sem með nýju lögunum var fellt undir sömu skyldur og aðrir starfsmenn ríkisins þá hafa konurnar í því félagi ekki fengið sama rétt í fæðingarorlofi og þær konur sem eru í gömlu ríkisstarfsmannafélögunum. Og tilraunir þeirra til að ná slíkum réttindum í kjarasamningum voru ekki virtar þannig að nú er mál Sóknar til umsagnar hjá umboðsmanni Alþingis því þetta ástand samræmist vissulega illa jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar eins og fjmrh. benti réttilega á þegar hann mælti fyrir nýju lögunum. Þess vegna er nauðsynlegt, herra forseti, að fram komi hvort önnur viðhorf gilda í tilfelli karlanna en kvennanna, að þeir fái þennan nýja rétt án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi þeir tilheyra.

Það er einnig áhugavert, herra forseti, að þessi regla sem fjmrn. gefur út um rétt feðra styðst ekki beint við lög. Hér er ekki um reglugerð að ræða heldur einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Væntanlega er það þó í samræmi við 12. gr. laganna um réttindi og skyldur þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn skulu eiga rétt til launa í ... fæðingarorlofi eftir því sem fyrir er mælt í lögum og, eftir atvikum, ákveðið eða um samið með sama hætti og laun.``

Flokkast fæðingarorlofsréttur feðranna e.t.v. undir orðin ,,og eftir atvikum ákveðið`` og má þá reikna með því að konurnar fái einnig rétt samkvæmt því orðalagi í lögunum þar sem ekki hefur gengið að semja um þessa hluti við kjarasamningaborðið?