Fæðingarorlof feðra

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 13:37:59 (498)

1997-10-15 13:37:59# 122. lþ. 9.2 fundur 75. mál: #A fæðingarorlof feðra# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[13:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ákvörðunin um að veita feðrum í þjónustu ríkisins rétt til launa í fæðingarorlofi var tekin af ríkisstjórninni á grundvelli eins af meginmarkmiðum hennar sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar frá 23. apríl 1995 og er ,,að vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis og stuðla að jafnari möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína``. Þar sem fjmrh. fer með starfsmanna- og launamál hjá ríkinu birti hann reglur um sjálfstæðan rétt feðra til launa í fæðingarorlofi. Rétturinn til sjálfstæðs fæðingarorlofs karla var fyrst og fremst veittur, ég legg áherslu á það, til að auka mætti jafnrétti karla og kvenna og var ákvörðun um hann ekki tekin, ég undirstrika, ekki tekin í tengslum við gerð kjarasamninga eða að undangengnum viðræðum við stéttarfélögin.

Hv. fyrirspyrjandi vék máli sínu nokkuð að reglum um greiðslur í barnsburðarleyfi kvenna í þjónustu ríkisins. Þær reglur eru mismunandi eftir stéttarfélagsaðild þeirra mæðra sem í hlut eiga. Annars vegar gilda greiðslureglur reglugerðar sem sett var á grundvelli laga nr. 38/1954 og gilda því aðeins um konur sem eru í störfum sem féllu undir þau lög, með öðrum orðum konur sem eru félagsmenn aðildarfélaga BSRB og BHM. Þær konur njóta dagvinnulauna auk meðaltals yfirvinnu og vaktaálags í barnsburðarleyfi. Aðrar konur sem starfa hjá ríkinu, þ.e. konur sem taka laun samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ njóta ekki launa í fæðingarorlofi heldur fá greiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins eins og konur á hinum almenna vinnumarkaði. Í 12. gr. laga nr. 70/96, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem leystu lög nr. 38/1954 af hólmi, er kveðið á um að starfsmenn skuli eiga rétt til launa í fæðingarorlofi eftir því sem fyrir er mælt í lögum og, eftir atvikum, ákveðið eða samið með sama hætti og laun, þ.e. í kjarasamningum eða með ákvörðun kjaranefndar og Kjaradóms. Og það er fyrst og fremst sem verið er að vísa til slíkra ákvarðana. Í ákvæði til bráðbirgða í sömu lögum er mælt fyrir um að reglugerð um barnsburðarleyfi haldi gildi sínu uns breytingar verði gerðar með kjarasamningi eða ákvörðun kjaranefndar eða Kjaradóms, sbr. 12. gr. laganna. Til þess að hægt sé að breyta þeirri aðgreiningu sem gerð er á rétti kvenna til launa í barnsburðarleyfi og byggð er á stéttarfélagsaðild þeirrar konu sem í hlut á, verður að nást samkomulag við stéttarfélögin um breytingarnar en það hefur hins vegar ekki gerst í þeim samningum sem gerðir hafa verið á þessu ári. Þar sem lokið hefur verið við að semja við meiri hluta þeirra stéttarfélaga sem ríkið gerir kjarasamninga við er ekki útlit fyrir að breyting verði á rétti kvenna í barnsburðarleyfi fyrr en að samningstímabilinu loknu árið 2000. Ekki er heimild fyrir fjmrh. að setja reglugerð á grundvelli starfsmannalaganna sem breytir efni þeirrar reglugerðar sem nú gildir þar sem það er lögbundið eins og ég lýsti hér áðan að núgildandi reglugerð gildir þar til um annað verður samið við stéttarfélögin. Þetta þýðir með öðrum orðum að svar við fyrirspurn hv. þm. er: Já, feðraorlofið gildir fyrir alla starfsmenn ríkisins samkvæmt þeirri skilgreiningu sem kemur fram í ákvörðuninni.

Það er von okkar að þetta geti orðið fyrirmynd á almenna vinnumarkaðinum og það er til umræðu. En ég minni á að sá er munurinn á almenna vinnumarkaðinum annars vegar og hjá ríkinu hins vegar er að á almenna vinnumarkaðinum deila karlar og konur fæðingarorlofinu. Það er heimild til þess, en slík heimild er ekki til hjá ríkinu. Þar er um að ræða barnsburðarleyfi kvenna samkvæmt reglugerð og kjarasamningum en ekki neinn rétt föður enn sem komið er. Það verður að taka tillit til þessa og reyndar er svipað upp á teningnum hjá Reykjavíkurborg, en nýlega lýsti borgarstjóri því yfir að ákveðinn hópur karla hefði fengið þar sjálfstæðan rétt sem er ekki yfirfæranlegur, til þess að taka feðraorlof.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar verði til þess að breyta viðhorfum sem ríkja í málefnum karla og kvenna og verði til þess að jafna réttinn með þeim óbeina hætti sem gerist þegar karlar hafa tækifæri til þess að vera meira heima hjá ungum börnum sínum. Ég vonast til þess að það leiði af sér breytingar sem verða á heimilunum og ættu síðan að verða breytingar sem eiga sér stað á vinnustöðunum þannig að við getum búið hér við jafnrétti í reynd.