Fæðingarorlof feðra

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 13:44:51 (500)

1997-10-15 13:44:51# 122. lþ. 9.2 fundur 75. mál: #A fæðingarorlof feðra# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[13:44]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tók eftir því að hæstv. fjmrh. sagðist vonast til að tveggja vikna sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs á opinberum markaði yrði fyrirmynd á almenna markaðnum. Ég stóð í þeirri trú, herra forseti, að hér ætti að lögfesta rétt feðra á almennum vinnumarkaði til sjálfstæðs fæðingarorlofs og ég spyr: Er það ekki hugmyndin? Hefur ekki verið samþykkt í ríkisstjórninni að það eigi að leggja fyrir Alþingi lagafrv. sem tryggir sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs á almenna markaðnum? Er ekki að því stefnt að það taki þá gildi á sama tíma og hjá feðrum sem vinna hjá hinu opinbera, um næstu áramót? Ég held að það sé gott að fá mjög skýr svör við því og ef svo er, hvernig verður þá staðið að fjármögnun á fæðingarorlofi á almenna markaðnum?