Túnfiskveiðar

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 13:57:15 (507)

1997-10-15 13:57:15# 122. lþ. 9.3 fundur 78. mál: #A túnfiskveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[13:57]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningunni er það að segja að íslenskum skipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands er heimilt að stunda þar túnfiskveiðar. Erlendum skipum er það hins vegar ekki heimilt því að samkvæmt lögum nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, er erlendum skipum óheimilt að stunda þar veiðar nema að gerðum milliríkjasamningum þar um. Einu undanþágurnar frá því banni er að finna í 15. gr. laga nr. 81/1976, en þar segir að ráðherra sé heimilt að fengnu áliti Hafrannsóknastofnunar að veita erlendum aðilum heimildir til veiðitilrauna og annarra vísindalegra rannsókna innan fiskveiðilandhelginnar, enda fari slíkar tilraunir og rannsóknir ætíð fram undir eftirliti Hafrannsóknastofnunar.

Það er ekki fyrirhugað að opna fyrir veiðiheimildir erlendra skipa innan landhelginnar, hvorki í þessum veiðum né öðrum, þannig að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að fylgja fram óbreyttri stefnu í því efni.

Varðandi aðra spurninguna er það að segja að þær tilraunir sem fram hafa farið til túnfiskveiða í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og japanska aðila eru vitanlega gerðar til þess að athuga veiðimöguleika á túnfiski hér við land og gætu auðveldað íslenskum útgerðum ákvörðun um hvort þær reyni frekar við túnfiskveiðar. Það stendur hins vegar ekki til að breyta reglum hér að lútandi og stendur ekki til að ríkisvaldið beini sérstökum styrkjum til útgerða í þessu efni.

Varðandi þriðju spurninguna er það að segja að fulltrúi Íslands hefur sótt aðalfundi Alþjóðatúnfiskráðsins síðustu tvö ár sem áheyrnarfulltrúi. Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvort gengið verði í ráðið. Það þarf að meta frekar hvort veiðihagsmunum okkar sé betur borgið utan ráðsins eða með inngöngu í það. Ýmis lagaleg atriði þarf að skoða frekar áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Varðandi fjórðu spurninguna er það að segja að á árinu 1996 voru túnfiskveiðar mest reyndar af tveimur japönskum skipum á tveimur svæðum í lögsögunni. Á öðru þeirra fékkst enginn túnfiskur en á hinu, þar sem lögnin var lögð yfir landhelgislínuna, var meðalveiðin 2,3 fiskar í lögn. Á þessu ári hafa tvö skip lokið fyrstu veiðiferð en þriðja skipið mun koma úr sinni fyrstu veiðiferð innan skamms. Tvö fyrrnefndu skipin eru farin til veiða öðru sinni. Veiðar hafa einkum verið stundaðar á fjórum svæðum og liggja tvö þeirra innan lögsögunnar, það þriðja liggur að litlum hluta utan lögsögunnar, en það fjórða af hálfu utan hennar. Veiðin í þessum tveimur veiðiferðum skiptist þannig að annað skipið fékk 37,6 tonn, eða að meðaltali 11,1 fisk í lögn, en hitt fékk 50 tonn, að meðaltali 11,9 fiska í lögn. Ef borið er saman sambærilegt svæði bæði árin, þ.e. beggja vegna landhelgislínu, þá sést að meðalveiði á þessu ári hefur verið 12,3 fiskar í lögn á móti 2,3 fiskum á síðasta ári.