Túnfiskveiðar

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:00:29 (508)

1997-10-15 14:00:29# 122. lþ. 9.3 fundur 78. mál: #A túnfiskveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[14:00]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er einkum fjórða spurningin frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni sem vekur mig til umhugsunar vegna þess að Landhelgisgæslan hefur jú verið að reyna að fylgjast með því sem þarna gerist. En sannleikurinn er sá að ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því að þegar lögð er lína sú sem þeir nota til túnfiskveiða þá er heildarlengd hennar 72 sjómílur. Eftir útlagningu línunnar er fjarlægðin á milli enda hennar yfir 60 sjómílur. Þeir segja hjá Landhelgisgæslunni að mjög erfitt sé að fylgjast með þessum veiðum, einkum þeirra sem eru utan við línu. Nú munu nokkrir tugir skipa vera komnir á svæðið rétt við landhelgislínu okkar Íslendinga til að freista gæfunnar. Veiðin fer þannig fram að línan er lögð út með 12 sjómílna hraða og þegar hún er dregin inn aftur sigla skipin á 6 mílna hraða þannig að það er mjög erfitt að fylgjast með þeim. Þau geta veitt í flestöllum veðrum og hafa auk þess sérstök radíósenditæki á línunni með ákveðnu millibili þannig að þó að línan slitni (Forseti hringir.) þá er auðvelt að finna hana. Auk þess hafa þau fjarstýribúnað og geta slökkt á öllum radíósendingum línunnar og kveikt á eftir vild og því er mjög erfitt að fylgjast með þessum veiðum.