Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:29:00 (514)

1997-10-15 14:29:00# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:29]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi, þ.e. frv. sem hefur tekið nokkrum breytingum þó frá því að það var lagt fram á síðasta þingi. Frá þeim tíma hefur auðvitað allmargt gerst í þessum málum og sérstaklega það að jaðarskattanefndin hefur lokið störfum. Og þótt það sé rétt sem hv. þm. sagði að hún hafi ekki komið með sameiginlegar niðurstöður, þá hefur skattalöggjöfinni verið breytt m.a. vegna umræðna sem fram fóru í nefndinni. Þannig hafa hlutföll verið lækkuð og þótt sú lækkun hafi ekki enn tekið gildi að fullu, þá er hún talsverð og kemur til viðbótar því sem áður hafði verið ákveðið en það var tvennt: Annars vegar það að launþegar gætu dregið 4% framlag í lífeyrissjóði frá tekjum, sem jafngildir 1,7% um það bil í lækkun skatthlutfalls, og sömuleiðis var á árinu 1996 gerð breyting á barnabótaaukanum sem gerði það að verkum að jaðarskattar barnmargra fjölskyldna lækkuðu.

Það sem kannski skiptir þó mestu er að nú liggja fyrir í mjög ljósu yfirliti, í skilabréfi formanns nefndarinnar, ýmsar upplýsingar sem koma að verulegu gagni við áframhaldandi vinnu að þessum málum. Og get lofað hv. þingmönnum því að vinna að þessum málum tekur aldrei enda. Skattamál eru eilífðarmál og hljóta eðli máls samkvæmt að vera það í nútímaþjóðfélagi og hafa reyndar verið frá örófi alda.

Hv. frsm. sagði að nauðsynlegt væri að setja saman nýjan hóp og ræddi að auki nokkuð um þann hóp sem ég hef ákveðið að setja í skattamálin. Það gefur mér tilefni til þess að benda á að sá hópur sem mun starfa á vegum fjmrn. er, eins og kom reyndar fram hjá hv. þm., fyrst og fremst settur á laggirnar til þess að skoða þær breytingar sem hafa orðið á íslenska skattkerfinu með hliðsjón af þeim hreyfingum sem eiga sér stað úti í heimi. Til að grípa til nærtæks dæmis vil ég benda á að starfandi er á vegum Evrópusambandsins svokallaður Monti-hópur, ekki monthópur heldur Monti-hópur, sem heitir í höfuðið á fulltrúa Ítalíu sem stjórnað hefur hópnum, en þar eru uppi ýmsar hugmyndir um samræmingar á skattkerfum Evrópulandanna, ekki síst í framhaldi af því að tekið verður upp sameiginlegt myntkerfi sem stendur til að gera og hv. þingmönnum er kunnugt um.

Áreiðanlega er ekki hollt fyrir okkur né heldur aðra að sífellt eigi sér stað byltingarkenndar breytingar á skattalögunum, en það þýðir hins vegar ekki það að ekki þurfi annað veifið að gera róttækar breytingar. Og sú hefur orðið raunin hér á landi á undanförnum áratugum að annað slagið hafa verið gerðar ansi róttækar breytingar á skattalögum. Þeim hópi sem ég var að minnast á og í eiga sæti fulltrúar stjórnarflokkanna ásamt embættismönnum er ætlað að leggja grunn að breytingum, ekki beinlínis að leggja til breytingar heldur að vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf til þess að hægt sé að ræða málið við ýmsa aðila. Þá á ég við fólk úr öðrum flokkum en stjórnarflokkunum, fólk úr verkalýðshreyfingu, fólk frá vinnuveitendum og öðrum þeim sem láta sig þessi mál varða. Þannig að hugmyndin er ekki að hópurinn komi með beinharðar tillögur til ríkisstjórnarinnar sem ríkisstjórnin ætlar síðan að fylgja eftir.

Það liggur líka í hlutarins eðli að búast má við að ýmsar smærri breytingar verði gerðar á núverandi skattkerfi. Eins og raunin er þá líður ekki það þing sem ekki gerir einhverjar smærri eða stærri breytingar á skattkerfinu.

Ég vil hins vegar segja að það er ekkert óeðlilegt við það að tillaga á borð við þessa sem hér er til umræðu sé flutt og mér finnst afar eðlilegt að stjórnaraðstöðuþingmenn og í þessu tilviki þingflokkur Alþb. og óháðra skuli leggja fram tillögu þessa efnis til þess að vekja athygli á málinu. Það er einu sinni einkenni á íslenska skattkerfinu eins og svo rækilega kemur fram í greinargerð jaðarskattanefndarinnar að íslenska skattkerfið skilar nettó í ríkissjóð afskaplega lágri upphæð þegar búið er að taka tillit til bótanna. Í öðru lagi eru jaðaráhrifin mikil, hlutföllin eru há. Þetta er einkenni á íslenska tekjuskattskerfinu sé það borið saman við skattkerfi annarra þjóða.

Við höfum notað þetta skattkerfi til þess að jafna kjör á milli manna og ýmsir hafa rætt um það, ekki bara íslenskir sérfræðingar og alþingismenn eins og t.d. hv. þm. Pétur Blöndal, heldur er talsvert um það rætt úti í hinum stóra heimi og meira að segja gengið svo langt að segja að skattkerfi eins og þetta hafi tilhneigingu til þess að viðhalda óþægilega miklum launamun í landinu. Með öðrum orðum, fyrirtækin geti haldið áfram að halda úti starfsemi með launafólki sem hefur lág laun af því að það er bætt upp í tekjuskattskerfinu. Við lentum í svipaðri gildru gagnvart bótum almannatryggingakerfisins. Þegar bæturnar voru bundnar við ákveðinn taxta Dagsbrúnar, þá leiddi það auðvitað til þess að ekki var nokkur leið að losna við þennan taxta Dagsbrúnar út úr kjarasamningum. Þannig getur skattkerfið haft áhrif á aðra breytni í þjóðfélaginu og reyndar er því oft stillt þannig upp að til þess sé ætlast.

Ég vek athygli á þessu vegna þess að það er ekki einhlítt þó að við hælum okkur af því og þar á meðal ég, hef gert það í ræðu og riti, að á Íslandi sé að finna slíkt þjóðfélag að hvergi í heiminum sé hægt að finna jafnari tekjudreifingu fjölskyldna en hér á landi, hvergi í heiminum sé það hægt. Það er liðlega þrefaldur munur á þeim 20% heimila sem lægstar hafa tekjur og hinum 20% sem eru tekjuhæstar. En mér sýnist að í Svíþjóð sé munurinn fimmfaldur og er oftast vitnað til þess lands þegar menn tala um jafnrétti. (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki hvað hv. þm. kallaði en hér er ég ekki að lýsa mínum skoðunum. Ég er einungis að benda á að umræður af þessu tagi eiga sér stað og menn verða að vita að skattkerfi eins og hið íslenska sem leggur mikið upp úr því að stýra fjármunum frá þeim sem hafa hærri launin til hinna sem hafa lægstu launin getur í eðli sínu haft slæm áhrif þó að það sé ekki heldur einhlítt. Við höfum nefnilega beitt tekjutengingum og skerðingum til þess að koma fjármunum til þeirra sem hafa lægri tekjurnar og koma í veg fyrir að hinir fái bætur og tekjur.

Mér finnst eðlilegt að sú nefnd sem hv. þm. nefndi, hv. efh.- og viðskn., fái þetta mál og kanni og afli upplýsinga sem reyndar liggja flestar fyrir, kanni kostnaðinn af þessum tillögum og þá má ákveða á síðari stigum málsins hvort ástæða sé til að halda starfinu áfram eins og ég heyrði að hv. þm. lagði mikla áherslu á.

Ég vil svo segja það, virðulegi forseti, að mér finnst ekki boðlegt --- hv. þm. gerði það að vísu ekki --- þegar menn rekur í vörðurnar vegna spurninga um kostnað af því t.d. að leggja af tekjutengingar barnabóta eða barnabótaaukans, að sífellt sé þá vitnað til veiðigjaldsins og sagt að veiðigjaldið eigi að standa undir þessum kostnaði. Það gengur ekki upp, enda gerði hv. þm. það ekki, vegna þess að það er ekki samstaða um veiðigjaldið og það er ekki hægt að segja að það eigi að greiða með því. Ég heyrði að hv. þm. gerði það alls ekki, ég vil taka það fram. Það var mjög áberandi. Hins vegar hafa aðrir flokksmenn hv. þm. gert það. Það getur vel verið að hv. flm. vilji kannski segja einhver orð um það.

Síðan minni ég á að það eru tekjutengingar víðar en í skattkerfinu og í námslánakerfinu. Það eru talsvert miklar tekjutengingar í húsnæðiskerfinu sem þarf einnig að líta á og ég minni á að við leystum ekki úr jaðaráhrifum í vaxtabótakerfinu sem þó stóð til að gera. Og sannast sagna, svo það sé bara viðurkennt eins og það liggur fyrir, þá höfum við lent í dálitlum vandræðum þar. Mér finnst persónulega að þegar horft er til lengri tíma þá ættu menn kannski frekar að spyrja sig hvort ekki ætti að verðlauna þá sem leggja til hliðar af því að þeir ætli að eignast húsnæði eða vegna þess að þeir ætli að gera sparnaðinn að lífeyri síðar á lífsleiðinni heldur en að verðlauna þá sem skulda og greiða þeim fjármuni úr ríkissjóði sem þetta vissulega er til þess að standa undir t.d. vaxtagreiðslum, jafnvel dráttarvaxtagreiðslum. Þetta eru spurningar sem við þurfum að svara.

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni þá gat ég verið hérna við upphaf umræðunnar. Það var ekki meiningin af minni hálfu að hefja hér allsherjarumræðu um tekjuskattsmálin heldur kannski þvert á móti að viðurkenna að það sé eðlilegt að frv. á borð við þetta komi fram. Ég er ekki að lýsa yfir stuðningi við frumvarpsgreinarnar en ég skil hins vegar fullkomlega að menn taki þetta mál upp á Alþingi því að þetta er mál sem menn þurfa að ræða og komast til botns í hvort sem það verður í vetur eða einhvern tíma á næstu árum svo talað sé um einhverja framtíð í þeim efnum.