Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:42:51 (516)

1997-10-15 14:42:51# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. sagði um það sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Og ég get bætt því við að þar segir jafnframt að þessu starfi skuli lokið fyrir árslok 1996 þannig að því átti að vera lokið fyrir löngu, en því miður dróst það úr hömlu. Við skulum hins vegar gæta að því að það var gripið til ákveðinna aðgerða og það er um verulega skattalækkun að ræða. Ég vil í því sambandi nefna að tekjuskattshlutfall sem slíkt er nú komið niður í það sem það var í lok síðasta áratugar. Hins vegar hefur útsvarið hækkað mjög duglega af ýmsum ástæðum sem óþarfi er að nefna, þar á meðal vegna þess að við færðum verkaskiptinguna til, vegna þess að við lögðum niður aðstöðugjaldið og gerðum ýmislegt fleira, en þetta veldur því líka að þegar menn ræða um jaðarskattsáhrif tekjuskattskerfisins þurfa þeir að taka með í reikninginn hvort gera eigi miklu duglegri og róttækari breytingar þar sem þetta yrði kannski fyrst og fremst skattur sveitarfélaganna en ríkið notaði síðan skattkerfið til þess að færa fé á milli með einhverjum hætti. Þetta þurfa menn að athuga því að nettótekjur sveitarfélaganna eru í raun og veru helmingi meiri heldur en ríkisins út úr þessu kerfi nú.

Ég skal ítreka að það er hugmynd okkar þegar fyrir liggur sá grunnur sem nefndin er að vinna að þá verði auðvitað rætt við aðra aðila áður en lengra er haldið. Ég á ekki von á því, svo að það verði ekki hægt að herma það upp á mig síðar á kjörtímabilinu, að við munum efna til mjög róttækra breytinga á tekjuskattskerfinu það sem eftir lifir þessa kjörtímabils.