Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:44:44 (517)

1997-10-15 14:44:44# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:44]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. aftur fyrir svörin. Þau voru út af fyrir sig skýr og það er ljóst að þær skattbreytingar sem boðaðar hafa verið eru af hálfu hæstv. fjmrh. hugsaðar sem varanlegar í þeim skilningi að ekki sé að vænta frekari stórtíðinda út kjörtímabilið, þ.e. þessi ríkisstjórn situr út kjörtímabilið.

Það er auðvitað alveg rétt að nokkrar breytingar hafa orðið á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem koma inn í þetta mál. Sveitarfélögin fá til sín vaxandi hlut og ríkið ber minna úr býtum í útsvars- og tekjuskattskerfinu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að menn hafi farið offari í því að missa út tekjur þegar aðstöðugjaldinu var létt af fyrirtækjunum á einu bretti og það fært yfir í tekjuskattinn eða útsvarið. Og þegar til viðbótar bættist lækkuð tekjuskattsprósenta á hagnaði fyrirtækja, þá fuku þar út á einu bretti einir 5--6 milljarðar kr. á núvirði sem hefði komið sér ágætlega að hafa eitthvað af í ýmis brýn verkefni nú, svo sem nauðsynlegar úrbætur í velferðarmálum og greiða þá eftir atvikum eitthvað hraðar niður erlendar skuldir í góðærinu heldur en því miður er gert. Og það er náttúrlega fullkomin ástæða til að fara yfir þau samskipti. Ég er hins vegar andvígur því að ríkið sleppi hendinni af tekjuskattinum sem tekjuöflunartæki. Ég held að tekjuskattur eigi að vera áfram af hluti af tækjum ríkisins til tekjuöflunar en þó ekki síður tekjujöfnunar í samfélaginu. Það er að vísu rétt að íslenska skattkerfið er með sínum tekjutengingum býsna tekjujafnandi en á þeirri tekjujöfnun eru miklir annmarkar, m.a. vegna jaðaráhrifa á einstaka hópa, barnafólk, elli- og örorkulífeyrisþega og fleiri aðila.

En ég þakka sem sagt undirtektir hæstv. fjmrh. og þakka honum fyrir að taka sér tíma til þess að vera viðstaddur við upphaf umræðunnar.