Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:46:59 (518)

1997-10-15 14:46:59# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:46]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Í tilefni ummæla hæstv. fjmrh. um starfið í jaðarskattanefnd langar mig til að sitthvað komi hér fram, en fyrst víkja að þeim ummælum hans að hér sé á ferðinni gamall kunningi, jaðarskattaumræðan.

Lengi hefur verið talað um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að framkvæma þyrfti skattbreytingar til þess að draga úr jaðaráhrifum í skattkerfinu. Reyndar var þetta rauður þráður í kosningaloforðum ríkisstjórnarinnar, og ekki aðeins ríkisstjórnarinnar heldur flestra stjórnmálaflokka. Menn bjuggust við því að fljótlega eftir að ríkisstjórnin var mynduð mundi hún taka til hendinni á þessu sviði.

Strax í upphafi fyrsta þingsins sagði hæstv. forsrh. að það yrði ekki gert heldur yrði sett á fót nefnd til þess að fara yfir þessi mál og að henni ættu að koma fulltrúar frá vinnumarkaði, frá verkalýðshreyfingu og frá samtökum atvinnurekenda. Nú leið og beið, en þessi nefnd tók síðan til starfa og annað veifið komu hæstv. fjmrh. og aðrir fulltrúar ríkisstjórnarinnar fram á sjónarsviðið og sögðu að nú væri alveg að koma að því að nefndin skilaði áliti. Mér er kunnugt um að þetta kom nefndarmönnum alltaf jafnmikið á óvart vegna þess að nefndin var fjarri því að hafa tillögur á takteinum, að vera búin að vinna sína vinnu. Þá fór marga að renna í grun að hér væri pólitískt sjónarspil á ferðinni. Það kom síðan í ljós í sumar að sú var raunin. Þessi nefnd var jarðsungin og skrifaðar um hana minningargreinar eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon komst að orði og í þeim greinaskrifum komu fram ástæðurnar fyrir því að nefndarmenn gátu ekki náð saman. Ástæðan er sú að ráðandi öfl í ríkisstjórninni sem í þessari nefnd náðu saman við fulltrúa atvinnurekendasamtakanna höfðu og hafa mjög ólíkar hugmyndir um hlutverk skatta og skattkerfisins.

Annars vegar er uppi það sjónarmið hjá verkalýðshreyfingunni að skattkerfið sé tvennt í senn. Það sé tekjuöflunarkerfi fyrir styrka velferðarþjónustu sem eigi að vera til þess fallin að jafna kjör þegnanna, veita öllum jafnan aðgang að stofnunum velferðarsamfélags, en einnig að vera tekjujafnandi í sjálfu sér, að skattarnir séu tekjujafnandi í sjálfu sér. Þetta er sjónarmið verkalýðshreyfinga og margra stjórnmálamanna á félagshyggjuvæng stjórnmálanna.

Hjá ráðandi öflum í ríkisstjórnarflokkunum og hjá samtökum atvinnurekenda er annað uppi á teningnum. Þar er fyrst og fremst litið á skattlagningu sem tekjuöflun fyrir ríkisreksturinn sem síðan á að halda í lágmarki. Þarna eru tvö gagnstæð sjónarmið á ferðinni. Í augum þeirra sem fyrst og fremst líta á skattlagningu sem tekjuöflunartæki en gera minna úr tekjujöfnunarþættinum er það auðvelt verk að draga úr jaðaráhrifum innan skattkerfisins. Það er mjög auðvelt verk einfaldlega með því að afnema millifærslukerfið eins og einhver aðstoðarmanna hæstv. fjmrh. komst að orði í blaðaviðtali eða blaðagrein fyrir nokkrum mánuðum síðan eða með því að draga úr eða afnema tekjutenginguna inni í millifærslunni. Þetta er sem sagt hægur vandinn fyrir þá sem gefa lítið fyrir tekjujöfnunarþátt skattkerfisins.

Við sem leggjum hins vegar mikið upp úr tekjujöfnun erum á því máli að ef draga eigi verulega úr jaðaráhrifum, t.d. í barnabótakerfinu, þá þurfi aukið fjármagn að koma inn í kerfið. Þarna er sem sagt á ferðinni grundvallarágreiningur, enda kemur fram í athugasemdum sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í jaðarskattanefnd ríkisstjórnarinnar skrifuðu formanni nefndarinnar 24. júlí að tillögur nefndarinnar séu að hluta til í beinni andstöðu við fulltrúa ASÍ og BSRB í nefndinni. Og vegna þess að hæstv. fjmrh. vitnaði hér áðan í skattbreytingar sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir sl. vor, þá er rétt að taka fram að í bréfi til formanns jaðarskattanefndar frá forseta Alþýðusambandsins og hagfræðingi BSRB, Grétari Þorsteinssyni og Rannveigu Sigurðardóttur, segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Nýsamþykktar breytingar á tekjuskatti og barnabótum eru í samræmi við skoðun fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna og VSÍ og að hluta til í beinni andstöðu við afstöðu fulltrúa ASÍ og BSRB.``

Þær skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir eru í beinni andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Það er mjög mikil ástæða til að leggja á þetta áherslu vegna þess að ríkisstjórnin hefur jafnan reynt að gera verkalýðshreyfinguna ábyrga fyrir þeim skattkerfisbreytingum sem hún hefur ráðist í, en þær breytingar hafa verið að verulegu leyti í beinni andstöðu við þau sjónarmið sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram.

Hæstv. fjmrh. sagði að kjaramunur væri minni hér á landi en þekktist víðast hvar annars staðar. Ef svo er, þá finnst mér það vera fagnaðarefni og nokkuð sem við eigum að reyna að stuðla að og reyna að stefna enn lengra í þá átt til kjarajöfnunar í stað þess að fara þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið, að reyna að auka kjarabilið í landinu. Reyndar hef ég nokkrar efasemdir um að þessi staðhæfing ráðherrans sé rétt. Ég held t.d. að það séu fá lönd í okkar heimshluta þar sem skattsvik eru eins almenn og hér. Menn ætla að sá hluti skattkerfisins eða efnahagskerfisins sem er svartur skipti tugum milljarða kr. og lagðar hafa verið fram skýrslur þar sem fram hafa komið ágiskanir í þá veru að skiluðu þessir peningar sér inn, þá væri samneyslan 10--15 milljörðum kr. ríkari en hún er nú.

Þetta eru sjónarmið sem ég taldi nauðsynlegt að kæmu fram við þessa umræðu. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í framsöguræðu sinni að það er mjög mikilvægt að um þær grundvallarbreytingar á skattkerfinu sem ráðist verður í er nauðsynlegt að leita eftir sem breiðastri sátt og að sem flestir komi að því borði, ekki einvörðungu fulltrúar stjórnarflokkanna heldur einnig fulltrúar stjórnarandstöðuflokka. Og ég legg mjög mikla áherslu á að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína gagnvart verkalýðshreyfingunni að þessu leyti og að fulltrúar hennar komi að þessari vinnu. Ef það gerist ekki, þá óttast ég að þau sjónarmið verði ofan á sem ég var að lýsa og eru ráðandi hjá þeim öflum innan ríkisstjórnarflokkanna sem stýra ferðinni og innan Vinnuveitendasambandsins og við það mun aldrei skapast sátt.