Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:58:49 (519)

1997-10-15 14:58:49# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér mjög þarft mál sem mikið brennur á fólki, en það eru hinir svokölluðu jaðarskattar sem rætt hefur verið mikið um og sumir segja að séu ekki skattar og eru að sjálfsögðu ekki skattar, en það er í rauninni það sem fólk missir við að hafa meiri tekjur. Maður sem fær 1.000 kr. meiri tekjur sér kannski ekki nema 300 af þeim 1.000 kr. vegna þess að alls konar bætur lækka um leið og tekjurnar hækka.

Undanfarið hafa skattar verið lækkaðir og það er vel. Að mínu mati vorum við komin hættulega hátt í skattlagningu og ég er ánægður með þessa þróun. Hins vegar hefur hún kannski ekki verið nógu rökrétt. Kakan hefur stækkað og þar af leiðandi hefur þetta verið hægt án þess að halli ríkissjóðs minnki.

Það kýli sem þessu frv. er ætlað að taka á er fólgið í óskaplega flóknum tekjutengingum. Hér hafa verið nefndar barnabætur, vaxtabætur og námslán, bæði taka og greiðsla þeirra. Þegar maðurinn tekur lánið fær hann minna lán ef hann hefur tekjur og svo þegar hann greiðir af láninu þá greiðir hann minna ef hann hefur lágar tekjur.

[15:00]

Svo er það félagslega húsnæðiskerfið þar sem sennilega eru hæstir jaðarskattar í kerfinu. En það er ekki hægt að reikna þá út vegna þess að bæturnar þar eru í formi vaxtaniðurgreiðslu nákæmlega eins og í námslánunum. Aðalbæturnar í námslánunum eru í formi vaxtaniðurgreiðslu. Maður sem hefur 1.000 kr. of mikið í tekjur þegar hann er námsmaður fær þar af leiðandi minna námslán og hann nýtur ekki þeirrar vaxtaniðurgreiðslu sem er ómæld yfir allan tímann. Vaxtaniðurgreiðslan er sennilega yfir helmingurinn af láninu sem hann fær þannig að það mætti gefa honum helminginn af láninu ef hann borgaði venjulega markaðsvexti á það sem eftir er. Þannig eru bæturnar duldar. Þessar bætur, þessi vaxtaniðurgreiðsla, er hvergi skattlögð, ekki skattlögð sem slík. Nákvæmlega það sama á við um námslánin. Þar er verið að greiða niður. Og í félagslega húsnæðiskerfinu, þar fær maður heila íbúð ef hann hefur tekjur undir 215 þús. kr. Ef hjón með tvö börn fá heila íbúð í félagslega kerfinu á lágum niðurgreiddum vöxtum, eru það milljónir sem þau fá þar í bætur sem hvergi eru skattlagðar og hvergi koma fram. En ef þau eru rétt fyrir ofan þessi mörk þá fá þau enga íbúð. Þarna eru því sennilega hæstu jaðarskattarnir í kerfinu og það hefur ekki komið fram.

Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á þá er þetta eiginlega spurning um mismunandi heimspeki. Þess vegna geta menn í rauninni ekki sagt að eitt eða annað sé rangt eða rétt vegna þess að menn hafa bara hreinlega mismunandi skoðanir á þessu. Eins og hann kom inn á þá lítur hann þannig á og hans mátar á vinstri vængnum, að skattar eigi að hafa hlutverk bæði tekjuöflunarkerfis fyrir ríkissjóð en líka í stórum mæli tekjujöfnunarkerfis. Algjör andstæða þess væru þá nefskattar þar sem allir borguðu sama skatt eins og var hér í gildi einu sinni til almannatrygginga og þá með þeirri hugsun að allir njóti jafnmikils úr almannatryggingakerfinu þannig að eðlilegt sé að allir borgi jafnmikið inn í krónutölu. Það er náttúrlega ákaflega ófélagslegur skattur því hann tekur ekki tillit til tekna manna. Það eru sem sagt alls konar hugmyndir og heimspeki í gangi og okkar kerfi sem ég vil kalla ofursköttunarkerfi, þegar jaðarskattarnir, þ.e. það sem menn bera ekki úr býtum við það að fá 1.000 kr. í tekjur, geta orðið 70%. Menn sjá ekki 70% af því sem þeir afla, og hlutfallið er jafnvel hærra. Það hafa verið nefndar hjá einstökum lífeyrisþegum miklu hærri tölur, 90% --- 70--90% af tekjunum sem þeir afla til viðbótar.

Í þessu felst, herra forseti, ákveðin fátæktargildra. Þeir menn sem lenda í þeirri stöðu að sjá ekki nema kannski 10--30% af þeim tekjum sem þeir afla til viðbótar, geta aldrei komist úr þeirri stöðu. Það er alveg sama hvað þeir leggja á sig, mennta sig, sýna meiri dugnað eða vinna meira. Þeir komast ekkert út úr þessari stöðu. Það er mjög hættulegt. Þetta er svokölluð fátæktargildra þar sem ákveðinn hópur manna lendir í því að geta ekki bætt stöðu sína.

Það er margt annað skrýtið í þessu kerfi. T.d. eru barnabæturnar alveg með ólíkindum. Ef hugsunin á bak við barnabæturnar er sú að þær eigi að bæta kostnað við uppeldi barna þá ættu þær að sjálfsögðu að vera mestar fyrir fyrsta barn vegna það er dýrast að ala upp fyrsta barnið. Næsta barn gengur í fötunum af því fyrsta, erfir skíðin þess og svo framvegis. Og það er hlutfallslega ódýrara að elda fyrir fjóra heldur en þrjá. Þannig að það er heilmikill sparnaður í því að ala upp tvö börn á móti því að ala upp eitt. Barnabæturnar ættu því að lækka eftir því sem börnin yrðu fleiri en því er aldeilis öfugt farið vegna þess að barnabætur eru í raun ekkert hugsaðar til framfærslu barnanna heldur til að minnka ómegðarkostnaðinn. Þannig koma þær mjög furðulega út. Eftir að barnabæturnar voru tekjutengdar þá kemur upp sú furðulega staða að þær eru í rauninni skattlagning á foreldra barnanna. Þeir sem eiga mörg börn eru skattlagðir aukalega miðað við annað fólk í sama tekjuflokki sem engin börn á. Barnabæturnar eru því orðnar alveg stórfurðulegar.

Vaxtabæturnar eru alveg með ólíkindum. Þær hvetja menn til skulda. Maður fær ekki vaxtabætur nema hann skuldi. Afleiðingin er sú að skuldsetning heimilanna vex og vex og vex og margir stjórnmálamenn eru meira að segja hissa á því að skuldsetningin vaxi. Þetta er innbyggt í skattkerfið. Það er ekkert annað.

En það sem verst er við núverandi kerfi eru skattsvikin og menn býsnast yfir þeim. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að þau væru tugir milljarða. Það er hárrétt. En þeir skattar fengjust aldrei greiddir. Því ef þeir væru greiddir mundi fullt af atvinnustarfsemi fara á hausinn sem lifir á því að hún borgar ekki skatta. Ég er ekki hrifinn af því, aldeilis ekki, en þannig er það. Það sem gerist þegar skattar verða of háir er það að annaðhvort deyr skattstofninn út, þ.e. það sem er skattlagt, viðkomandi rekstur, á sér ekki viðreisnar von, skattstofninn fellur niður, verður bara ekki til. Eða að hann fer undir yfirborðið. Það eru stunduð skattsvik og menn lenda í því því nánast stundum að vera neyddir til að svíkja undan skatti.

Þriðja atriðið sem gerist er að skattstofninn bregður sér til útlanda. Núna þessa dagana er fjöldi manns að fara til Glasgow til að versla. Til hvers? Til að ná í skattstofninn. Virðisaukaskatturinn er orðinn svo hár að menn bregða sér til Glasgow því þar er hann nefnilega endurgreiddur ef þeir koma til baka. Það borgar sig að fara í heila flugferð til útlanda til að ná skattstofninn. Hann er búinn að bregða sér af landi, víkja sér undan. Þannig að margt furðulegt gerist þegar skattar verða háir. Atvinnurekstur deyr, skattarnir víkja sér undan, sem eru náttúrlega eins konar skattsvik, og það verða hrein og klár skattsvik. Og það er dýrast. Niðurbrot siðferðis þjóðarinnar er mjög dýrt. Ég hef bent á að það sé eiginlega dýrasti herkostnaðurinn við það að jafna tekjur.

En svo verður skatturinn líka skattur á dugnað. Það fólk sem sýnir af sér sérstakan dugnað, ég nefni fólk sem fer upp á hálendið og vinnur þar í myrkri langan tíma í snjókomu og frosti, borgar sérstaklega háa skatta af því að það er með háar tekjur. Sjómenn sem eru norður í höfum í hríð, lokaðir inni í einhverjum járnkössum í fleiri vikur, þeir borga líka mikla skatta. Þetta er skattur á dugnað og frumkvæði. Og ef það er eitthvað sem þessi þjóð þarf þá er það dugnaður og frumkvæði, það á ekki að skattleggja það niður.

Menn dreymir um það, sérstaklega þeir sem eru vinstri sinnaðir, aðhyllast þá heimspeki að hlutverk skatta sé að jafna tekjur, að hægt sé að jafna tekjur. Það er eflaust hægt en í mjög litlum mæli vegna þess að það er til eitthvað sem heitir náttúrulegur launamunur. Menn sem vinna mikið, segjum á næturnar, þeir vilja að sjálfsögðu fá greitt fyrir það. Fólk sem vinnur óhreinleg störf eða fjarri heimilum sínum eins og sjómenn vill að sjálfsögðu fá greitt fyrir það. Fólk sem hefur menntað sig heilmikið vill fá greitt fyrir það, annars væri það ekki að því. Þeir sem sýna dugnað og snilld og vinna tvöfalt meira en maðurinn eða konan nágranni þeirra, vilja fá greitt fyrir það, að sjálfsögðu. Þannig að það er til náttúrulegur launamunur. Reyni menn að minnka þann mun þá bara vex hann áfram. Þá vex launamunur fyrir skatta og það er einmitt það sem hefur gerst. Þegar menn reyna að minnka launamuninn þá bara vex hann fyrir skatta, því að launin eftir skatta eru það sem skiptir máli. Það sem skiptir launþegann máli eru launin eftir skatta. Hann hefur engan áhuga á þeim peningum sem fara til skattstjórans. Tilraunir til að minnka launamun eru því fyrir fram að miklu leyti dæmdar til að mistakast.

Þá er það spurningin hvort allur sá kostnaður sem ég gat um áðan sé þess virði, þ.e. fátækragildan, skattsvikin, hvatinn til að mynda skuldir og skattlagning á dugnað, það að refsa fólki fyrir dugnað. Borgar sig yfirleitt að reyna að jafna tekjurnar eins og við Íslendingar erum að gera og margar þjóðir í kringum okkur? Ég tel ekki. Ég held að það sé ekki þess virði að leggja svona mikla áherslu á að jafna launamuninn vegna þess að það er svo dýrt fyrir þjóðfélagið. Það er miklu skynsamlegra að hafa skattkerfið mildara og gera ekki eins miklar tilraunir til að jafna tekjurnar því launamunurinn verður alltaf mjög svipaður.

En það er annað sem gerist líka og á eftir að verða mikið mál í framtíðinni, þ.e. að fyrirtæki og fólk er orðið kvikt milli landa. Það er komin samkeppni milli landa um fólk og fyrirtæki. Við skulum gefa okkur eitthvert fyrirtæki sem er í hátekjuiðnaði, hugbúnaðarfyrirtæki eða fjármálafyrirtæki sem borgar mjög há laun. Það getur valið um að vera í einu landi þar sem háu launin eru skattlögð temmilega og í öðru landi þar sem háu launin eru skattlögð mjög mikið. Það þarf að borga hærri laun í því landi sem háu launin eru skattlögð mikið til þess að laða til sín fólk. Þess vegna fer það heldur þangað sem háu tekjurnar eru skattlagðar temmilega. Það þýðir að mjög mikil skattlagning á háar tekjur fælir burt hátekjuiðnað, hátekjufyrirtækin. Á nákvæmlega sama hátt laðar hún að sér lágtekjuiðnaðinn, prjónaskap og ferðamannaþjónustu. Ferðamannaþjónusta er þess eðlis að hún mun væntanlega alltaf vera lágtekjugrein vegna þess að það er aldrei borgað mikið fyrir að búa um rúm. (Gripið fram í: ... hafa fleiri skattþrep.) Það er nefnilega spurningin hvort ekki ætti að breyta skattkerfinu þannig að það hætti að vera eins mikil tekjujöfnun.

Þetta kerfi okkar er alveg með ólíkindum flókið. Ég hef verið spurður: ,,Getur þú ekki reiknað út hvað jaðarskattarnir yrðu miklir á fólk sem fær íbúð í félagslega kerfinu?`` Ég hreinlega get það ekki. ,,Getur þú ekki reiknað út hvað jaðarskattarnir yrðu miklir þegar maður tekur námslán.`` Ég get það ekki. Maður þarf að gefa sér svo mikið af forsendum um væntanlegar tekjur mannsins og stöðu hans í framtíðinni að það er nánast útilokað að reikna út hvað jaðarskattarnir eru miklir. En ég geri ráð fyrir því að ef námsmaður þénar, segjum 10 þús. kr. meira og fær þar af leiðandi skert lán, þá séu skattarnir miklu, miklu meiri en 10 þús. kr. vegna þess að hann fær lægra lán og þar af leiðandi lægri niðurgreiðslu á lánið og þetta virkar alla ævina hjá honum. Þetta er mjög flókið mál. Kerfið er mjög flókið.

Það sem hér er lagt til er ekki aldeilis til að einfalda kerfið. Ef það á að fara að reikna út að jaðarskattarnir fari aldrei yfir 50% þá þarf stærðfræðisnillinga hjá skattstofunum til að reikna það út eða mjög góð tölvuforrit. Það eina sem gerir það að verkum að þetta er framkvæmanlegt er að kúnninn, þ.e. skattgreiðandinn, er yfirleitt í engri aðstöðu til að vefengja útreikninginn þannig að hann verður bara að teka það trúanlegt sem að honum er rétt. Þetta verður svo flókið.

Nei, herra forseti, ég hygg að menn ættu að hugleiða, með hliðsjón af þessum kostnaði við skattkerfið sem ég hef nefnt, niðurbrot siðferðis, leti og frumkvæðisleysi sem skattkerfið býr til, hvort ekki sé ástæða til að taka upp einfalt skattkerfi, 17% á allar tekjur, 17% staðgreiðslu. Fimm prósent færu til ríkisins, því meira fær ríkið ekki í dag. Ríkið fær ekki nema 5% af öllum tekjum. Það er minna en tryggingagjaldið sem er sett á sömu tekjur fyrirtækjamegin. Og 12% færu til sveitarfélaganna. Þetta yrði einfalt kerfi og hefði þann kost fyrir þá sem aðhyllast tekjujöfnun að einstaklingur sem hefur tvöfalt hærri tekjur borgar tvöfalt hærri skatt til velferðarkerfisins sem við öll viljum viðhalda þó hann njóti ekki nema einfaldra bóta úr því, því allir fá sömu þjónustuna í velferðarkerfinu. Þannig að sá sem er með tvöfalt hærri tekjur en einhver annar mundi þá borga tvöfalt meira til velferðarkerfisins og er það bara ekki nóg? Er ekki nóg að hafa skattkerfið þannig og komast hjá öllum þessum gífurlega kostnaði sem felst í núverandi skattkerfi? Þá lít ég kannski mest á kostnaðinn við niðurbrot siðferðis.