Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 15:14:28 (520)

1997-10-15 15:14:28# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé röng staðhæfing hjá hv. þm. Pétri Blöndal að ef okkur tækist að draga úr skattsvikum, þá mundi sá hluti atvinnurekstrarins í landinu sem þar ætti hlut að máli fara á hausinn, fyrirtæki mundu verða að hætta starfsemi vegna þess að þetta væri þeim of dýrt. Staðreyndin er sú að skattlagning á atvinnurekstur er lægri hér á landi en gerist víðast hvar í okkar viðmiðunarríkjum og skattsvik eru ekki að mínum dómi háð afkomu fyrirtækja heldur tengjast þau miklu fremur starfsemi þar sem unnt er að koma við skattsvikum og að sjálfsögðu tengjast þau líka heiðarleika og siðferði þeirra sem stýra málum innan fyrirtækja þannig að ég held að þetta sé röng niðurstaða sem þingmaðurinn kemst að.

Í öðru lagi held ég að það sé líka rangt að fólk taki lán, t.d. til húsnæðiskaupa, til þess að fá vaxtabætur. Fólk tekur lán til húsnæðiskaupa til þess að fá þak yfir höfuðið og samfélagið kemur til móts við fólk að þessu leyti vegna þess að það er hagkvæmt fyrir samfélagið að gera það.

Ég get tekið undir sitthvað sem hv. þm. sagði um barnabætur. Ég er því fylgjandi að draga þar mjög verulega úr tekjutengingu, mjög verulega, þess vegna afnema hana, vegna þess að ég lít á barnabætur sem tekjujafnandi á milli kynslóða. Við höfum hins vegar verið andvíg því sem hefur komið frá ríkisstjórninni og Vinnuveitendasambandinu að það eigi að draga úr barnabótum. Til þess að draga úr tekjutengingunni þarf einfaldlega meira fjármagn þar að koma inn.