Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 15:18:55 (522)

1997-10-15 15:18:55# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:18]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var nú feginn því sannast sagna að heyra hv. þm. Pétur Blöndal lýsa því yfir að hann væri ekki hlynntur skattsvikum því að ég var næstum farinn að draga aðrar ályktanir af hans máli hér áðan. Þar var engu líkara en hann teldi að forsenda þess að atvinnurekstur gæti þrifist í landinu væru sú að menn svikju undan skatti. En hv. þm. skýrði sitt mál á þann veg að hann vildi draga úr skattsvikum með því að nánast afleggja skatta. En ég minni á að skattar hér á atvinnurekstur eru lægri en tíðkast víðast hvar í okkar viðmiðunarríkjum og við megum ekki gleyma því heldur að til þess að geta rekið öflugt velferðarkerfi, öfluga velferðarþjónustu --- forsenda þess að við höfum hér öflugt og kraftmikið þjóðfélag og getum rekið dafnandi efnahagslíf er að við höfum styrka velferðarþjónustu --- þá þurfum við að sjálfsögðu að afla skattpeninga til að standa straum af kostnaðinum.

Að lokum vil ég gera athugasemd við þá yfirlýsingu hv. þm. Péturs Blöndals að þjóðfélagið hafi ekki efni á því að draga úr tekjumun, hvort sem er innan launakerfis eða með skattkerfisbreytingum. Ég er algerlega á öndverðum meiði þarna. Efnahagslegt misrétti og kjaramisrétti er ávísun á félagslegt misrétti og við það get ég ekki sætt mig og þess vegna hef ég skipað mér þar í sveit í stjórnmálum í verkalýðshreyfingu til að berjast gegn þessu. En hv. þm. Pétur H. Blöndal er heiðarlegur maður. Hann sagði áðan að hér sé komið að grundvallaratriðum, ólíkri heimspeki, ólíkum stjórnmálastefnum sem menn aðhyllast, þar sé ekkert rétt eða rangt, þar séu einvörðungu ólíkar skoðanir og undir það get ég tekið. Það er grundvallarmunur á stefnu hægri frjálshyggjunnar og stefnu félagshyggjunnar og þeirri stefnu vil ég fylgja og mun fylgja.