Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 15:21:22 (523)

1997-10-15 15:21:22# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:21]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög hlynntur því að við höfum öflugt og gott velferðarkerfi og skilvirkt velferðarkerfi. Menn mega alls ekki skilja það þannig að ég vilji ekki hafa velferðarkerfi og ég vil líta á skatta sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð, tekjuöflun til þess að geta haldið velferðarkerfinu gangandi. En ég er aftur á móti ekki hlynntur jafnmikilli tekjujöfnun og skattkerfið byggir á í dag sem í rauninni flær rolluna en rýir hana ekki. Skattarnir núna valda svo miklu tjóni í þjóðfélaginu að þeir setja velferðarkerfið í hættu því velferðarkerfið þarf heilbrigt atvinnulíf og sérstaklega gott siðferði.

Varðandi það að minnka tekjumuninn þá er þetta náttúrlega bara spurningin um hverju menn trúa. Ég trúi því að ekki sé hægt að minnka tekjumuninn nema að mjög litlu leyti vegna þeirra raka sem ég nefndi áðan, þ.e. að það er ákveðinn náttúrulegur launamunur. Það þarf að borga fólki fyrir að leggja eitthvað á sig. Annars mundu allir fara upp í sófa og leggja sig. Ef allir hefðu nákvæmlega sömu tekjurnar hvort sem þeir ynnu eða ekki og hvort sem þeir væru úti á víðavangi, á sjónum eða annað slíkt, ef allir hefðu nákvæmlega sömu tekjurnar, þá mundi, held ég, helmingurinn af þjóðinni leggjast upp í rúm. (SJS: Er maðurinn í eðli sínu latur?)