Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 15:32:52 (528)

1997-10-15 15:32:52# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:32]

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. 16. þm. Reykv. og get tekið undir margt sem hann sagði. Svo vill til að ég hef um árabil dregið mjög í efa réttmæti þess að skattkerfið væri notað til tekjujöfnunar. Hvað hefur gerst í samfélagi okkar með því? Þetta hefur verið trúarsetning verkalýðshreyfingarinnar um árabil. Ef við tökum opinbera starfsmenn, sem eru kannski gegnsæjasti launþegahópurinn í samfélaginu, þá hefur ekkert annað gerst en að laun hafa smám saman lækkað. Við höfðum um töluvert langan tíma allsæmilega launaða millistétt, ef leyfilegt er að nota orðið stétt í landi okkar, sæmilega launaða embættismannastétt sem gat lifað þokkalega af launum sínum. Þetta fyrirfinnst ekki lengur. Smám saman virtist tekjujöfnunin fara út í að færa alla niður í staðinn fyrir að færa þá lægst launuðu upp á við. Menn hafa ærst um, og ég hef margsinnis gert við það athugasemd, og telja að það versta sem getur komið fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu sé ef einhver laun í landinu hækka. Mér þykir þetta algjör öfugsnúningur og hefur alltaf fundist, því hærri laun sem einhverjir fá því hærri viðmiðun fá hinir lægst launuðu. Það er svo komið að stéttir eins og kennarar, hjúkrunarfólk, jafnvel læknar á föstum launum eru ekki matvinnungar. Ég geri ráð fyrir að háskólakennarar geti sagt svipaða sögu. Þetta nær engri átt. Ég held að hér hafi verið lagt upp á alröngum forsendum frá fyrstu byrjun. Ég held líka eins og ég kom reyndar aðeins inn á við umræðu um fjárlög fyrir nokkrum dögum að það sem hrjáir samfélagið sé óljós lagasetning, ég vil segja endalaus bótasaumur á fyrirliggjandi löggjöf þar sem aldrei er séð fyrir hvernig ein lagabreyting hefur áhrif á aðra. Úr þessu verður slíkur frumskógur að jafnvel þeir sem eiga að framkvæma lögin botna ekkert í hvernig á að gera þetta. Við þekkjum þetta allvel sem höfum komið nálægt Tryggingastofnun ríkisins þar sem fjárfúlgur fara hvað eftir annað í að velta hlutum til í tölvum stofnunarinnar svoleiðis að eitthvert vit komi út úr hinum nýju reglugerðum og jafnvel lagasetningum hér og þar.

Ég held þess vegna, og skil vel í hvaða vandræðum jaðarskattanefndnin fræga er, að ekki sé hægt að laga þessi mál nema að stokka algjörlega upp að nýju. Enginn græðir á þessari stöðugu launalækkun því að aldrei hefur farið fram launajöfnun upp á við, hún hefur allan tímann verið á leiðinni niður. Það getur ekki verið rétt. Ástandið í launamálum í landinu er að verða þjóðfélagsvandamál og þetta getur ekki gengið. Ég held að það sé svo djúpstæður ágreiningur milli manna um þessa hluti að stjórnmálamenn úr öllum flokkum verði að setjast niður og hætta að jagast um það sem liðið er, það verður að byrja að nýju. Ég er ekki að segja að ég sé endilega sammála hugmyndum hv. 16. þm. Reykv., Péturs H. Blöndals, um 17% eða 5% eða þeim tillögum sem hann var að kasta fram en ég held að hann hafi lög að mæla að sú leið sem við höfum farið sé röng. Hún er röng og hún er óréttlát og hefur ekkert gert annað en að lækka launin í landinu. Þetta vildi ég sagt hafa og ég skal ekki lengja umræðuna að því leyti en ég get satt að segja skilið vandræði jaðarskattanefndar. Ég held að sú nefnd leysi málið ekki né heldur neinn á þeim forsendum sem hingað til hafa verið gefnar.