Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 15:38:02 (529)

1997-10-15 15:38:02# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér fer fram mjög mikilvæg umræða um skattamál. Hún er ekki mikilvæg í þeim skilningi að við séum í þann veginn að ganga frá lögum um breytta skattlagningu á Íslandi. Hér fer fram umræða á milli þingmanna sem eiga að leggja grunninn að skattkerfisbreytingum á komandi missirum og árum. Menn hafa verið að ræða um ólík pólitísk viðhorf, ólíka heimspeki eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal komst að orði, en menn hafa líka verið að ræða um beinharðar staðreyndir. Sumir hverjir hafa verið að vara við því að Ísland gengi lengra í átt til skattlagningar en gert hefur verið. Staðreyndin er sú að þegar að samsetning skattkerfisins er skoðuð sem hlutfall af landsframleiðslu kemur í ljós að skattkerfið hér á landi er að mörgu leyti frábrugðið því sem tíðkast í svokölluðum viðmiðunarríkjum. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að skattarnir eru miklum mun lægri hér en hjá þessum ríkjum. Hlutur tekjuskatta, bæði einstaklinga og fyrirtækja, er þannig miklu lægri hér á landi en í þessum löndum. Launa- og tryggingagjöld eru líka léttvægari en gerist annars staðar. Skattar á vöru og þjónustu eru hins vegar svipaðir og í Evrópuríkjum OECD en hærri en á Norðurlöndum. Ef þetta er þýtt yfir á tungumál tölfræðinnar eru hlutföllin þessi hvað viðvíkur tekjuskatti einstaklinga: Ísland 9,5, Norðurlönd 15,7, meðaltal Evrópuríkja OECD 12,2%. Ef litið er á tekjuskatt fyrirtækja er hann 1 hér á móti 2,5 á Norðurlöndum og 3,4 hjá Evrópuríkjum OECD. Launa- og tryggingagjöld eru 2,5 hér á landi, 8,6 á Norðurlöndum, meðaltalstalan er 14 í Evrópuhluta OECD. Ef litið er á skatta á vöru og þjónustu er hlutfallið hér á landi 15,1, ívið hærra en á Norðurlöndunum þar sem hlutfallstalan er 13 en við erum þó undir meðaltali ef litið er á Evrópuhluta OECD þar sem talan er 15,7. Ef litið er á skatttekjur hins opinbera samtals liggja Íslendingar í 30,9%, og við erum að tala um hlutfall af vergri landsframleiðslu, á móti 40,8 hjá Norðurlöndunum og í Evrópuhluta OECD er hlutfallið 47,8.

Þegar við ræðum um þessa hluti finnst mér gagnlegt að hyggja að því hvernig aðrir hafa það. Staðreyndin er sú að við búum við götóttara velferðarkerfi en mörg viðmiðunarríki okkar gera, mun götóttara kerfi og götóttari þjónustu en t.d. Norðurlöndin veita enda segir það sig sjálft að við öflum minni fjármuna í skatttekjum. Hins vegar kemur í ljós af hálfu sérfræðinga OECD að Íslendingar fá meira út úr þjónustunni en gerist hjá öðrum þjóðum þegar nýting fjármunanna er skoðuð, t.d. í heilbrigðiskerfinu, og það hafa mér jafnan þótt vera gleðileg tíðindi og reyndar umhugsunarvert fyrir þá sem hafa viljað umbylta og einkavæða íslensku velferðarþjónustuna. Ég hélt sannast sagna að það væri liðin tíð að reyna að stilla upp sem andstæðum einkarekstri og opinberum rekstri. Þetta eru engar andstæður, þetta á að vinna saman. Þjóðfélag sem býr við gott uppeldis- og menntakerfi er að búa í haginn fyrir efnahagsuppgang og efnahagsþróun komandi ára og áratuga. Það segir sig líka sjálft að fyrir þann sem ræður einstakling í vinnu er heppilegra fyrirkomulag og auðveldar honum alla hluti ef fólk á kost á því að leita samfélagslegra lausna hvort sem er í uppeldi á barnaheimilum eða leikskólum, í skólum, í heilbrigðiskerfinu, en í þjóðfélagi þar sem menn eru neyddir til þess að leita jafnan eftir rándýrum einkalausnum. Þetta er bara staðreynd.

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram um skatta og nauðsyn á skattbreytingum þótti mér nauðsynlegt að koma þessum staðreyndum betur á flot í umræðunni.