Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:03:17 (535)

1997-10-16 11:03:17# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir er aukningin til heilbrigðismála 3,3% sem er mesta aukning til allra málaflokka. Þetta er mesta aukning sem hefur orðið til heilbrigðismála núna um áratug.

Ísland stendur fremst í flokki OECD-ríkjanna í heilbrigðismálum. Niðurstaðan er sú að íslenska þjóðin er líka talin einhver heilbrigðasta þjóð í heimi. Vilji menn hins vegar auka framlög til heilbrigðismála enn þá meira, meira en við erum að gera núna, þá verða menn líka að segja: Ætlum við að koma með enn þá meiri skatta en við erum með, ætlum við að hækka þá? Eða viljum við heldur leggja áherslu á að fara betur með þessa peninga, reyna að stýra þessu öðruvísi, reyna að ná meiri stjórnun á þessu? Því verðum við að svara og standa við. Það er ekki nóg að segja: Nú ætlum við að hækka þetta, hækka launin, auka kostnaðinn o.s.frv. Við verðum að sýna fram á að þessir peningar séu nægir nema menn vilji fara hina leiðina --- að hækka skattana.

Ég trúi því ekki, herra forseti, að það sé vilji manna. Þess vegna verða menn að vera sjálfum sér samkvæmir í þessari gagnrýni.