Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:16:00 (539)

1997-10-16 11:16:00# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:16]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég tel ákaflega eðlilegt að kanna sem flestar leiðir í þessum efnum. Við eigum fyrst og fremst að hafa að leiðarljósi hvernig við getum nýtt fjármagnið sem best fyrir þá sjúklinga sem eiga að fá þjónustuna sem við ætlum að veita.

Ég vil einnig benda hv. þm. á að aukningin í ríkisútgjöldunum hefur verið mest til þessa málaflokks og það er eðlilegt. Það er því ekki hægt að segja að hér hafi verið skorið niður. Við höfum reynt að hamla gegn útgjaldaaukningunni. Og ég held að allir séu sammála um að það þurfi að gerast. Þegar rætt er um einkavæðingu þá er hún engin trúarbrögð í þessum efnum. En ég bendi á að það er t.d. mjög eðlilegt að gera rannsóknastofnanir spítalanna að sjálfstæðri einingu fremur en að hafa þær ekki inni á spítölunum. Ég hygg að flestir séu sammála um það enda verður að því unnið. Og það er m.a. vegna þess að þar ríkir samkeppni milli aðila sem eru starfandi úti í bæ. Nú á dögum er jafnvel hægt að sækja þessa þjónustu út fyrir landsteinana.

Loks sagði hv. þm. að ég væri yfirheilbrrh., ekki bara nú heldur líka í fyrri ríkisstjórn. Það verður gaman að heyra alþýðuflokksráðherrana fyrrv., Guðmund Árna Stefánsson hv. þm. og Sighvat Björgvinsson hv. þm., koma hér upp og taka undir með hv. þm. (Forseti hringir.) Það verður kór sem ég hlakka til að hlusta á.