Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:27:04 (542)

1997-10-16 11:27:04# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:27]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er bara algjörlega ósammála hæstv. heilbrrh. að hér sé einhver skýr stefna. Hún þarf þá að skýra hana miklu betur úr þessum stól. Ég var að lýsa því að ég sé ekki betur en ef hægt er að kalla það stefnu þá felist hún í því að plástra hér og þar. Það er heildin sem þarf að skoða. Við þurfum að velta rækilega fyrir okkur hvort sú þjónusta og það skipulag sem við bjóðum upp á sé í samræmi við það þjóðfélag sem við búum í.

Ég hef ekki skoðað nákvæmlega þær tölur um aukningu sem hæstv. ráðherra nefndi en vil rifja það upp að á síðasta kjörtímabili þegar við hæstv. heilbrrh. vorum saman í stjórnarandstöðu þá var hér mikill niðurskurður. En það sem hefur verið að gerast er sífellt meiri þörf fyrir þjónustu. Þess vegna þarf auðvitað að bæta skipulagið og skilgreina hvar á að veita þjónustuna.